Jessica heillaði gesti á umdæmisþingi Rótarý
Á vegum Rótarý eru nú þrír skiptinemar, frá Ekvador, Sviss og Bandaríkjunum og mættu þau á umdæmisþing Rótarý sem haldið var á Selfossi um helgina. Skiptinemi Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, Jessica Ruth, hefur náð einstaklega góðum árangri í íslensku og kynnti hún sig að sjálfsögðu á íslensku á þinginu. Tveir mánuðir eru síðan hún kom til landsins.
Skiptinemarnir þrír, Jessica, Daria frá Sviss og Mateo frá Ekvador tróðu upp á hátíðarkvöldverðinum á Hótel Selfossi, Mateo á gítar, Daria á úkulela og Daria á hristur. Sungu þau eitt lag fyrir gesti og gerðu það glæsilega og fengu frábærar viðtökur. Stelpurnar tvær tala saman orðið á íslensku en helsta vandamál þeirra eru Íslendingarnir sem alltaf vilja tala ensku. Þrír klúbbfélagar fylgdust með Jessicu kynna sig á þinginu, þeir Guðbjartur, Guðni og Jón Auðunn og tveir þeir síðarnefndu ásamt mökum fengu að njóta tónlistarflutnings þeirra.
Íslenskukunnátta Jessicu heillaði veislustjórann, Guðna Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra sem lofaði henni áritað eintak af Njálu á íslensku. Að lesa Njálu verður eflaust prófraun Jessicu á Íslenskukunnáttunni! Að sjálfsögðu fékk Guðni mynd af sér með skiptinemunum en Jessica hefur á þessum stutta tíma hér á landi fengið mynd af sér ýmsu frægu fólki, bæjarstjóranum á fyrsta degi og forseta Íslands.