Fréttir

7.9.2012

Vilja bæta mætingu

Jafnaðargreiðslur teknar upp

Á klúbbþingi Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar var aðalumræðuefnið minnkandi mæting og hvað gera mætti til að bæta úr henni. Fundarmenn voru mjög fylgjandi því að taka upp jafnaðargjald þannig að fólk spari ekki með því að sleppa að mæta á fundi og þeir sem mæta best hagnast.

Tillaga um jafnaðargreiðslur var fyrst tekin upp í klúbbnum starfsárið 2006-7 en þá mætti hún mikilli andstöðu nokkurra félagsmanna og úr varð að klúbburinn felldi tillögu um að taka slíkt upp en málið hafði áður verið rætt á klúbbþingi og fengið góðan hljómgrunn.

Stjórn kynnti forsendur þess að taka upp mánaðarlegar greiðslur fyrir mat og félagsgjöld og voru gefin dæmi um upphæðir eftir því við hvaða mætingarprósentu miðað skuli við, 60, 70 eða 80%. Sýnt var hvernig mæting hefur dottið niður undanfarið og var kallað eftir tillögum til úrbóta.

Ljósm.: Guðni GíslasonMeðal tillagna sem komu fram var tillaga um að félagar stæðu upp þegar ástæða væri til og sögðu frá einhverju jákvæðu í lífi sínu eða í samfélaginu og legðu einhverja upphæð í grísinn af því tilefni.

Sagt var frá fyrirhugaðri ferð nokkurra félaga í klúbbnum og maka þeirra til S-Afríku til að lagfæra ýmislegt smálegt í barnaheimilinu sem klúbburinn hafði frumkvæði um að byggja. Ábending kom um að klúbburinn í heild væri virkjaður í verkefni sem unnin væru á hans vegum en þessi ferð er ekki farin á vegum klúbbsins.

Kveðja barst inn á fundinn frá Níelsi Árnasyni, heiðursfélaga í klúbbnum en hann verður 90 ára á næsta ári.

 

Níels Árnason og Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir. - Ljósm. Guðni Gíslason

 


Hfj_haus_01