Fréttir
  • Axel á enn möguleika á að verða ráðherra.

2.11.2011

Rótarýfélagar tóku sig vel út á Alþingi

Frábær þátttaka var í borgarferð Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar sl. laugardag en að þessu sinni var ekki farið út fyrir landsteinana og ferðinni heitið í höfuðborgina. Það var Sigurður Einarsson arkitekt, félagi okkar í klúbbnum sem var leiðsögumaður okkar. Fyrst var nýi skáli Alþingis skoðaður en hann var hannaður af Sigurði og félögum hans í Batteríinu. Því næst lá leiðin í Alþingishúsið en sömu hönnuðir komu að endurbótum á húsinu sem nú er komið í sparibúninginn - að mestu.

Sigurður í SkálatröppunumÞað kom mörgum á óvart hvers stórt Alþingishúsið er að innan þó greinilegt væri að vinnuaðstaðan í þingsalnum sjálfum væri ekki upp á marga fiska. Urðu menn mikils vísari eftir þessa ferð og kom þar til fróðleikur Sigurðar sem og þingvarðar sem fylgdi hópnum.

Hlustað af athygliAð því loknu hélt hópurinn í regnhlífargöngu eftir Aðalstrætinu þar sem menn kættust við að sjá fána Evrópubandalagsins á Morgunblaðshúsinu gamla en þó vakti Þór, nýja varðskipið meiri athygli en það lá við bryggju framan við Hafnarhúsið.

En nýja tónlistarhúsið var næsti viðkomustaður og þar fékk þessi 50 manna hópur leiðsögn "sérfræðings" um húsið en sem betur fer var Sigurður okkar enn með okkur en hann er einn af hönnuðum hússins og þekkir því þar betur til en flestir. Dáðust menn að glæsileikanum og furðuðu sig á getu okkar í miðju bankahruninu en húsið er komið upp og ekki verður aftur snúið. Fyrst var komið í kammersal, Í kammersalnumglæsilegan "lítinn" tónleika- og fyrirlestrarsal þar sem auðvelt var að breyta ómtímanum, allt eftir því hvaða útkomu notendur vildu fá. En aðalsalurinn er engin smásmíði, rauðglóandi veggirnir tóku á mót okkur og fólk gapti upp og niður af undrum. Hægt var að ganga allt í kringum sviðið og glæsilegt að horfa á móti áhorfendasvæðinu, en það er greinilega ekki fyrir lofthrædda að vera í fremstu röð á efstu svölum. Í lokin sagði Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt og félagi okkar frá verðlaunum sem hann og stofa hans, ásamt samstarfsaðilum fékk fyrir torgið við Hörpuna. Nánar má lesa um það í Fjarðarpóstinum á fimmtudag.

Ekki er hægt að segja frá öllu sem fyrir augu bar en matur beið hópsins á Kolabrautinni, gómsæt fiskisúpa og dýrindis þorskur ásamt kaffi.

Kolabrautin bauð upp á gómsætan matFerðanefndin og Sigurður eiga miklar þakkir skildar fyrir glæsilegan dag og gaman hversu margir klúbbfélagar og makar sáu sér fært að mæta og þurftu sumir að hlaupa af sér hornin fyrir allar aldir til að komast með.

Sjá myndir í myndasafni "Borgarferð í Reykjavík"

texti og ljósmyndir/gg


Hfj_haus_01