Grundvallarlög rótarýklúbbs

Grundvallarlög rótarýklúbbs

Gildir frá 1. júlí 2013

Auk grundvallalaganna skal sérhver rótarýklúbbur setja sín eigin sérlög. Þau mega ekki vera í ósamræmi við stofnskrá eða sérlög R.I., reglur umdæmisins né þessi grundvallarlög, en bæta má við sérákvæðum um stjórnun klúbbsins, ef henta þykir.

Hér má sækja þau á Word snið Grundvallarlög rótarýklubba 2013

Hér má sækja þau á pdf sniði  Grundvallarlög rótarýklúbba 2013

Ath. ef munur er á neðangreindum lögum og lögum á Word sniði hér að ofan, gilda lögin á Word sniðinu.

GRUNDVALLARLÖG RÓTARÝKLÚBBA-2013*)

Grundvallarlög   (nafn klúbbsins)_________

1. grein  Skilgreiningar

Í þessum grundvallarlögum hafa orðin hér á eftir þá merkingu sem hér segir nema annað leiði augljóslega af samhenginu:
1. Stjórn:   Stjórn klúbbsins.
2. Sérlög:   Sérlög klúbbsins.
3. Stjórnarmaður:   Stjórnarmaður í klúbbnum.
4. Félagi:   Félagi annar en heiðursfélagi í klúbbnum.
5. RI:   Rotary International.
6. Klúbburinn: Þegar talað er um klúbbinn í lögum þessum er átt við þennan Rótarýklúbb.
7. Tengiklúbburinn Mögulegur nýr tengiklúbbur þessa klúbbs. Félagar í honum eru einnig (þegar við á) félagar klúbbsins.
8. Ár:   12 mánaða tímabil sem hefst 1. júlí.
9. Fráfarandi forseti:  Fyrrverandi forseti sem síðast lét af störfum.


2. grein  Nafn

Nafn klúbbsins er Rótarýklúbbur ____________________________________________________
                                                                     (Aðili að Rotary Intenational)
eða

Nafn klúbbsins er Rótarýnetklúbbur _________________________________________________
                                                                     (Aðili að Rotary Intenational)

 a)  Nafn fylgiklúbbsins (þegar við á) er Rótarý-tengiklúbbur  
   ____________________________________________________
   (Tengiklúbbur Rótarklúbbs _____________________)

 

3. grein  Mörk klúbbsvæðis
 
Starfssvæði Rótarýklúbbsins nær yfir  _______________________________________________

eða

Starfssvæði Rótarýnetklúbbsins nær yfir  (á alþjóðavísu)______________________________ og hann er skráður á netsíðunni: www.________________


4. grein  Tilgangur

Markmið Rótarý er að örva og leggja rækt við þjónustuhugsjónina  svo að hún verði grundvöllur góðra verka og sérstaklega að glæða og efla:
1. Viðkynningu svo að hún veiti tækifæri til þjónustu.
2. Háleitar siðgæðiskröfur í athöfnum og embættisfærslu, viðurkenningu á gildi allra nytsamra starfa, virðingu hvers félaga fyrir starfi sínu sem tækifæri til að vinna samfélaginu gagn.
3. Fylgi við þjónustuhugsjónina í einkalífi, atvinnu og  samfélagsstörfum hvers félaga.
4. Eflingu skilnings, góðvildar og friðar þjóða í millum með heimsfélagsskap framkvæmda- og embættismanna er þjónustuhugsjónin tengir saman.

 

*)  Samkvæmt sérlögum RI ber hverjum klúbbi sem er aðili að RI að taka upp grundvallarlög þessi.
 

5. grein  Þjónustuleiðirnar fimm

Hinar fimm þjónustuleiðir Rótarý marka hugsjónalega og verklega umgjörð starfs klúbbsins.
1. Klúbbþjónustan, fyrsta þjónustuleiðin, tekur til þeirra verka sem félagi innir af hendi til þess að klúbbstarfið verði sem árangursríkast.
2. Starfsgreinaþjónustan, önnur þjónustuleiðin, hefur það að markmiði að stuðla að ríku siðgæði í viðskiptum og störfum, viðurkenningu á gildi allra nytsamra  starfa og rækt við þjónustuhugsjónina í öllum athöfnum. Hlutverk félaga er að breyta í anda Rótarý bæði í einkalífi og starfi.
3. Samfélagsþjónustan, þriðja þjónustuleiðin, vísar til þess sem félagar leggja af mörkum, stundum í samstarfi við aðra aðila, til að auka lífsgæði þeirra er eiga heima á klúbbsvæðinu eða í sveitarfélaginu.
4. Alþjóðleg þjónusta, fjórða þjónustuleiðin, nær til þeirra verkefna sem félagar vinna að til að efla skilning milli þjóða, góðvild og frið með því að auka kynni við fólk frá öðrum löndum, menningu þess, siðvenjur, árangur, væntingar og vanda með lestri og tjáskiptum og með þátttöku í starfi og verkefnum klúbbsins, sem ætluð eru til að liðsinna íbúum í öðrum löndum.
5. Ungmennaþjónustan, fimmta þjónustuleiðin, beinir sjónum að þeim jákvæðu breytingum, sem leiða af þátttöku ungs fólks í leiðtogastarfi og þróun þess, þátttöku í þjónustuverkefnum, heima og heiman, og i gagnkvæmum skiptaverkefnum sem stuðla að og styrkja frið í heiminum og menningarlegan skilning.

6. grein  Fundir

1. Reglulegir fundir
a)  Dagur og fundartími:  Klúbburinn skal halda reglulegan fund einu sinni í viku hverri á þeim degi og tíma sem fyrir er mælt í sérlögum hans.
b) Breyting á fundi:  Þegar brýna nauðsyn ber til getur klúbbstjórn ákveðið fund á öðrum   degi en venjulega, þó þannig að hann sé á því tímabili sem hefst daginn eftir síðasta reglulegan fundardag á undan og lýkur daginn fyrir næsta reglulegan fund. Einnig getur stjórn breytt um fundarstað og fundartíma ef þörf kref¬ur.
c) Niðurfelling fundar:  Þegar reglulegan fundardag ber upp á lögboðinn eða almennt viðurkenndan hátíðisdag, ef félagi í klúbbnum fellur frá, drepsóttir geisa eða hamfarir ríða yfir allt byggðarlagið eða óeirðir á svæðinu kunna að stofna lífi félaga í hættu,  getur klúbbstjórn fellt niður reglulegan fund.
 Stjórnin má ekki á eigin spýtur fella niður meira en  fjóra reglulega fundi á Rótarýárinu af öðrum ástæðum en hér hafa verið taldar og aldrei fleiri en þrjá í röð.
d) Fundur tengiklúbbsins (þegar við á): Tengiklúbburinn skal halda reglulega vikulega fundi, sé kveðið á um slíkt í sérlögum, á þeim stað, tíma og degi sem félagar ákveða. Fundardegi, tíma og stað má breyta á svipaðan hátt og kveðið er á um í lið1b) um breytingu á fundi í  6. gr. Fund tengiklúbbsins má fella niður af sömu ástæðum og tilgreindar eru í kafla 1c) um niðurfellingu fundar í 6. gr.


2. Kjörfundur
a) Árlegt stjórnarkjör í klúbbnum skal fara fram á kjörfundi ekki síðar en 31. desember, svo sem mælt er fyrir í sérlögum klúbbsins.
b) Tengiklúbburinn (þegar við á) skal halda kjörfund árlega ekki síðar en 31. desember þar sem kjósa skal embættismenn til að stjórna honum.

eða

6. grein  Fundir (fyrir netklúbba)

1. Reglulegir fundir
a)  Dagur:  Klúbburinn skal halda reglulegan fund einu sinni í viku á þeim degi sem fyrir er mælt í sérlögum hans með því að setja á heimasíðu sína gagnvirkt verkefni. Fundur telst því haldinn á þeim degi sem hið gagnvirka verkefni hefur verið sett inn á heimasíðu klúbbsins.
b) Breyting á fundi:  Þegar brýna nauðsyn ber til getur klúbbstjórn ákveðið fund á öðrum   degi en venjulega, þó þannig að hann sé á því tímabili sem hefst daginn eftir síðasta reglulegan fundardag á undan og lýkur daginn fyrir næsta reglulegan fund.
c) Niðurfelling fundar:  Þegar reglulegan fundardag ber upp á lögboðinn eða almennt viðurkenndan hátíðisdag, ef félagi í klúbbnum fellur frá, drepsóttir geisa eða hamfarir ríða yfir allt byggðarlagið, eða óeirðir á svæðinu kunna að stofna lífi félaga í hættu,  getur klúbbstjórn fellt niður reglulegan fund.
 Stjórnin má ekki á eigin spýtur fella niður meira en  fjóra reglulega fundi á Rótarýárinu af öðrum ástæðum en hér hafa verið taldar og aldrei fleiri en þrjá í röð.


2. Kjörfundur
a) Árlegt stjórnarkjör í klúbbnum skal fara fram á kjörfundi ekki síðar en 31. desember, svo sem mælt er fyrir í sérlögum klúbbsins.


7. grein  Félagsaðild

1. Almenn skilyrð.
 Félagi skal vera fulltíða einstaklingur, vammlaus, vel metinn í starfi og virtur af athöfnum sínum.

2. Félagar
Í klúbbnum eru  tvenns konar félagar,  virkir félagar og heiðursfélagar.

3. Aðild
Velja má einstakling, búinn þeim verðleikum sem nefndir eru í 6. gr., lið 2 í stofnskrá RI, sem virkan félaga í klúbbnum.

4. Flutningur milli klúbba eða innganga fyrrverandi Rótarýfélaga
a) Hugsanlegur félagi: Félagi getur stungið upp á sem virkum félaga einstaklingi sem hyggst flytjast úr öðrum klúbbi eða fyrrverandi félaga Rótarýklúbbs. Einnig getur klúbburinn, sem einstaklingur hefur verið virkur eða fyrrverandi félagi í, stungið upp á honum sem félaga samkvæmt þessum lið. Starfsgrein flytjandi eða fyrrverandi félaga getur ekki komið í veg fyrir val hans í klúbbinn, þó það raski tímabundið reglum um takmörkun fjölda í starfsgreininni. Hugsanlegir félagar í klúbbnum, sem eru jafnframt í eða fyrrverandi félagar í öðrum klúbbi og eru skuldugir við þann klúbb, geta eigi orðið félagar í klúbbnum. Klúbbnum ber að fara fram á að hugsanlegur félagi leggi fram skriflega staðfestingu á að hann/hún sé skuldlaus við hinn klúbbinn.  Innganga núverandi eða fyrrverandi Rótarýfélaga, sem virkur félagi skv. málsgrein þessari, skal vera háð því að lögð sé fram staðfesting frá stjórn fyrri klúbbs um aðild viðkomandi að þeim klúbbi. Einnig ætti að óska eftir við hugsanlegan félaga sem er að skipta um klúbb að hann leggi fram meðmælabréf frá fyrri klúbbi.
b) Núverandi eða fyrrverandi Rótarýfélagar: Klúbburinn skal leggja fram yfirlýsingu varðandi það hvort núverandi eða fyrrverandi félagi í honum sé skuldlaus við klúbbinn ef ósk um slíkt kemur frá öðrum klúbbi vegna hugsanlegrar inngöngu hans í þann klúbb. Berist ekki slík yfirlýsing innan 30 daga frá því óskað er eftir henni skal litið svo á að félaginn sé skuldlaus við klúbbinn.

5. Aðild að tengiklúbbi.
Félagi í tengiklúbbi er einnig félagi í móðurklúbbi þar til tengiklúbburinn er orðinn fullgildur klúbbur í RI.

6. Tvöföld félagsaðild
 Enginn getur verið virkur félagi í klúbbnum og öðrum Rótarýklúbbi samtímis, öðrum en tengiklúbbi klúbbsins.
 Enginn getur á  sama tíma verið virkur félagi og heiðursfélagi í klúbbnum.
 Enginn félagi getur samtímis verið virkur félagi í klúbbnum og í Rotaractklúbbi.

7. Heiðursfélagar
a) Hæfi heiðursfélaga:  Klúbburinn getur kjörið sem heiðursfélaga hvern þann einstakling sem sýnt hefur framúrskarandi atorku í útbreiðslu hugsjóna Rótarý svo og þá sem kalla má vini Rótarý vegna stöðugs stuðnings við málefni hreyfingarinnar. Stjórnin ákveður hve lengi slík félagsaðild gildir. Einstaklingur getur verið heiðursfélagi í fleiri en einum klúbbi.
b) Réttindi:  Heiðursfélagi greiðir ekki inntökugjald né árgjöld, hefur ekki atkvæðisrétt, verður ekki kosinn til neinnar stöðu í klúbbnum, er ekki fulltrúi neinnar starfsgreinar en á rétt á að sækja alla fundi og njóta alls þess sem klúbburinn hefur að bjóða. Heiðursfélagi  klúbbsins nýtur engra réttinda né fyrirgreiðslu í neinum öðrum klúbbi að öðru leyti en því að honum er heimilt að sækja fundi annarra klúbba án þess að vera gestur Rótarýfélaga.

8. Opinber störf
Einstaklingur sem er kosinn eða skipaður til opinberra starfa um ákveðið tímabil er ekki hlutgengur virkur félagi sem fulltrúi þeirrar starfsgreinar. Þetta ákvæði tekur þó ekki til einstaklinga sem gegna stöðum í skólum, háskólum eða kennslustofnunum yfirleitt eða starfa í dómskerfinu. Félagi sem kosinn er eða skipaður til opinberra starfa um tiltekinn tíma verður áfram fulltrúi þeirrar starfsgreinar sem var síðasti starfsvettvangur hans á undan kjöri hans eða skipun meðan á því stendur.

9. Starfsfólk RI
 Klúbburinn getur haft að félaga hvaða starfsmann RI sem er meðan hann gegnir því starfi.

8. grein  Starfsgreinar

1. Almenn ákvæði
a) Aðalstarf:  Hverjum félaga skal valin starfsgrein í samræmi við atvinnurekstur hans, stöðu eða stétt eða tegund samfélagsþjónustu hans. Sú starfsgrein sem valin er skal vera lýsandi fyrir það starf sem hann vinnur aðallega hvort sem það er í fyrirtæki, stofnun eða embættisrekstri eða er lýsandi fyrir eðli samfélagsþjónustu félagans.
b) Leiðrétting eða breyting:  Sé tilefni til getur stjórnin leiðrétt eða breytt starfsgrein félaga. Félaga skal jafnan tilkynnt um slíka endurskoðun og gefið tækifæri að tjá sig um hana.

2. Takmarkanir
Ekki skal velja sem virkan félaga fulltrúa úr starfsgrein hafi klúbburinn fleiri en fimm félaga úr þeirri starfsgrein nema því aðeins að í klúbbnum séu fleiri en 50 félagar.
Þá má velja félaga í starfsgreinina svo fremi að fjöldi þeirra fari ekki yfir 10% af fjölda félaga í klúbbnum. Ekki skal telja félaga sem látið hafa af störfum með í heildarfjölda í starfsgrein.
Starfsgrein flytjandi félaga, fyrrverandi félaga eða styrkþega Rótarýsjóðsins skv. skilgreiningu aðalstjórnar RI, getur ekki komið í veg fyrir val hans í klúbbinn þó að það raski tímabundið reglu um fjölda í starfsgreininni. Breyti maður um starfsgrein getur hann áfram verið félagi í nýrri starfsgrein þrátt fyrir þessar takmarkanir.


10. grein  Fundarsókn
(Veljið þá upphafsgrein sem við á)

1. Almenn ákvæði
Sérhver félagi skal sækja reglulega fundi í klúbbnum eða í tengiklúbbnum sé kveðið á um það í sérlögum, taka þátt í þjónustuverkefnum og öðrum viðburðum á vegum klúbbsins. Það telst fundarsókn ef Rótarýfélagi er viðstaddur 60% af fundartímanum eða er óvænt kallaður af fundi af ástæðum sem stjórnin tekur gildar eða bætir upp fjarveru sína með einhverjum eftirtöldum hætti:

eða fyrir netklúbb

1. Almenn ákvæði
Sérhver félagi skal sækja reglulega fundi í klúbbnum. Það telst fundarsókn ef Rótarýfélagi tekur þátt í reglulegum fundi sem skráður hefur verið á heimasíðu klúbbsins innan viku frá því fundurinn er settur upp eða bætir upp fjarveru sína með einhverjum eftirtöldum hætti:

a) Fjórtán daga tímamörkin:  Ef félagi á fjórtán (14) daga tímabili fyrir og eftir fundinn:
1) sækir fund í öðrum klúbbi, í tengiklúbbi annars klúbbs eða reynsluklúbbi, a.m.k. 60% af fundartímanum,               eða
2) sækir fund hjá Rotaract- eða Interactklúbbi, Rotary Community Corps (RCC) eða Rotary Fellowship  eða slíkum reynsluklúbbum                                                                          eða
3) sækir allsherjarþing RI, löggjafarþing, alþjóðlegt formót, Rotary Institute fyrir fyrrverandi, núverandi eða viðtakandi embættismenn RI, eða sérhvern fund sem haldinn er með samþykki stjórnar RI eða forseta RI f.h. stjórnar RI, fjölsvæðaþing Rótarý, nefndarfund RI, umdæmisþing Rótarý, umdæmisfræðslumót Rótarý, sérhvern umdæmisfund sem haldinn er skv. fyrirmælum stjórnar RI, sérhvern fund umdæmisnefndar sem haldinn er skv. fyrirmælum umdæmisstjóra eða þéttbýlisfundi (intercity meetings) Rótarýklúbba           eða
4) mætir á réttum tíma á fundarstað annars klúbbs eða tengiklúbbs annars klúbbs þó að sá klúbbur hafi fellt niður fund   eða
5) er viðstaddur og tekur þátt í klúbbþjónustuverkefni eða samfélagsviðburði sem klúbburinn stendur að eða fundi sem stjórnin hefur viðurkennt                                                           eða
6)  sækir stjórnarfund eða ef stjórn heimilar fund í þjónustunefnd klúbbsins sem hann er valinn í                                                                                                                               eða
7) tekur þátt í samfélagsverkefni á vefsíðu klúbbs, sem tekur a.m.k. 30 mínútur í senn.
Ef félagi er erlendis lengur en fjórtán daga gilda tímamörkin ekki þannig að hann getur sótt fundi þar hvenær sem er meðan á ferð stendur og gildir hver slík mæting sem uppbót  fyrir hvern reglulegan fund sem hann hefur misst af vegna ferðarinnar.

b) Vegna fjarveru á fundartíma:  Félaga má reikna fundarsókn ef hann  á fundartíma er:
1) á ferðalagi stystu leið til eða frá samkomum samkvæmt undirlið 3 a) í þessum lagalið,   eða
2) í erindagerðum sem sýslunarmaður, nefndarmaður RI eða stjórnarmaður RF,                 eða
3) sérstakur fulltrúi umdæmisstjóra við stofnun nýs klúbbs,                                                  eða
4) starfsmaður RI bundinn við störf í þágu Rótarý,                                                              eða
5) á ferð vegna starfs að verkefni á vegum umdæmis eða RI í afskekktum landshluta þar sem engin leið er að komast á rótarýfund                                                                                  eða
6) í viðurkenndum erindagjörðum fyrir klúbbinn og getur þess vegna ekki sótt fund.

2. Langvarandi fjarvera á fjarlægum stað
Ef félagi starfar um lengri tíma fjarri eigin klúbbsvæði og mætir í tilteknum klúbbi á því svæði þar sem hann er kemur það í stað fundarsóknar í eigin klúbbi enda sé um það samkomulag milli hans eigin klúbbs og þess klúbbs sem hann sækir fundi hjá.
 
3.  Undanþágur frá fundarsókn.
Félagi fær undanþágu frá fundarsókn ef :
a) ástæða fjarvistar samræmist þeim skilyrðum og öðrum aðstæðum sem stjórnin hefur viðurkennt. Stjórnin getur undanþegið félaga mætingarskyldu af ástæðum sem hún telur fullnægjandi í allt að tólf mánuði. Stjórn klúbbsins getur framlengt undanþágu sem veitt er vegna veikinda ef þau vara lengur en í tólf mánuði.
b) ef summa af aldri og félagsaðild félagans í einum eða fleiri Rótarýklúbbum er 85 ár eða meira og félaginn hefur óskað þess skriflega við ritara klúbbsins að vera undanþeginn mætingarskyldu og óskin hlotið samþykki stjórnar.

4. Fjarvera embættismanns  RI
Félagi sem er embættismaður RI eða maki/sambýlingur embættismanns RI er undanþeginn mætingarskyldu.

5. Skráning mætinga 
Ef félagi sem er undanþeginn mætingaskyldu samkvæmt undirlið 3a) hér að framan mætir ekki á klúbbfund skulu hvorki félaginn né fjarvera hans talin með í þeirri tölu sem notuð er til þess að reikna út mætingarhlutfall klúbbsins.  Ef félagi sem er undanþeginn mætingarskyldu samkvæmt undirlið 3b) og lið 4 hér að ofan mætir á klúbbfund skulu félaginn og mæting hans talin með í þeirri tölu sem notuð er til þess að reikna út mætingarhlutfall klúbbsins.


10. grein  Stjórn og nefndarmenn

1. Stjórn
Stjórn klúbbsins er í forsvari fyrir hann og valin í samræmi við ákvæði sérlaga hans.

2. Vald
Stjórnin hefur almennt vald yfir öllum sýslunarmönnum og nefndum klúbbsins og getur skipt um menn í öllum störfum sé fyrir því eðlileg ástæða.

3. Ákvörðun stjórnar endanleg
Ákvörðun klúbbstjórnar er endanleg í öllum klúbbmálum en henni má vísa til klúbbfundar. Félagi, sem stjórnin hefur ákveðið að vísa úr klúbbnum, getur þó skotið málinu til klúbbfundar eða óskað gerðardóms (sbr.12. gr. lið 6). Ákvörðun vísað til klúbbfundar fellur því aðeins úr gildi að tveir þriðju hlutar félaga á reglulegum fundi sem meirihluti félaga sækir séu henni mótfallnir, enda hafi ritari klúbbsins tilkynnt félögum um málavöxtu eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn. Afgreiðsla fundarins er endanleg.

4. Embættismenn.
Í stjórn klúbbsins skulu vera forseti, fráfarandi forseti, verðandi forseti og ritari. Einnig geta verið í stjórninni einn eða fleiri varaforsetar. Gjaldkeri og stallari skulu einnig kosnir og skulu sérlög klúbbsins tilgreina hvort þeir teljist til stjórnarmanna. Embættismenn klúbbsins skulu mæta reglulega á fundi fylgiklúbbs.

5. Kosning stjórnar
a)  Kjörtímabil stjórnarmanna annarra en forseta:  Stjórnarmenn klúbbsins skulu kosnir eins og fyrir er mælt í sérlögum klúbbsins. Að undanskildum forseta taka þeir við starfi 1. júlí næstan  á eftir kjördegi sínum og starfa þar til aðrir hafa verið kosnir í þeirra stað.

b)  Kjörtímabil forseta:  Kjósa skal forseta á þann hátt sem mælt er fyrir í sérlögum klúbbsins. Hann skal kosinn tveimur árum hið mesta og átján mánuðum hið minnsta áður en hann tekur við starfinu og gegnir skyldum tilnefnds forseta eftir kjörið.  Hann skal starfa sem verðandi forseti frá 1. júlí árið áður en hann tekur við sem forseti. Hann tekur við embætti 1. júlí í upphafi starfsárs síns og gegnir því í eitt ár eða þar til annar hefur verið kjörinn í hans stað.

c)  Hæfisskilyrði:  Allir stjórnarmenn og aðrir sýslunarmenn klúbbsins skulu vera félagar í góðum metum. Félagi getur ekki orðið forseti nema hafa verið klúbbfélagi í minnst eitt ár þegar hann er kosinn. Umdæmisstjóri getur þó úrskurðað að styttri félagsaðild sé fullnægjandi til þess að fullnægja kröfu þessari.  Verðandi forseti skal sækja námsstefnu verðandi forseta, formót og umdæmis¬þing nema hann fái undanþágu hjá verðandi umdæmisstjóra. Fái hann undanþágu ber honum að senda tilgreindan fulltrúa fyrir sig sem síðan flytur honum skýrslu um við¬fangsefni mótsins.  Sæki verðandi forseti ekki fræðslumót forseta og formót án þess að hafa fengið undanþágu umdæmisstjóra og sent viðurkenndan fulltrúa klúbbsins á þessar samkomur telst hann ekki hæfur að gegna starfi forseta klúbbsins. Við þessar aðstæður gegnir sitjandi forseti starfinu þar til valinn hefur verið eftirmaður sem hefur sótt fræðslumót forseta og formót eða fengið þjálfun sem verðandi umdæmisstjóri telur fullnægjandi.

6. Stjórnun tengiklúbbs klúbbsins (Þegar við á):
Tengiklúbburinn skal staðsettur á starfssvæði klúbbsins eða í nágrenni þess.

a) Umsjón með tengiklúbbnum: Klúbburinn skal hafa umsjón með starfi tengiklúbbsins og veita honum viðeigandi aðstoð að mati stjórnar.

b) Stjórn tengiklúbbsins: Félagar í tengiklúbbnum skulu árlega kjósa úr sínum hópi embættismenn í stjórn hans ásamt fjórum til sex öðrum félögum í samræmi við ákvæði sérlaga. Æðsti embættismaður tengiklúbbsins er formaður og aðrir embættismenn eru fráfarandi formaður, verðandi formaður, ritari og gjaldkeri. Stjórnin er ábyrg fyrir í umsjá klúbbsins, daglegri stjórnun og skipulagi tengiklúbbsins og starfsemi hans í samræmi við Rótarýreglur, kvaðir, stefnu og markmið. Stjórn tengiklúbbsins hefur ekkert vald í eða yfir klúbbnum.

c) Tilkynningarskylda tengiklúbbsins: Tengiklúbburinn skal árlega gera forseta og stjórn klúbbsins greinargerð um félagafjölda og starfsemina ásamt endurskoðuðum ársreikningi sem skal leggja fram á aðalfundi klúbbsins og aðrar þær skýrslur sem klúbburinn kann að óska eftir. 


11. grein  Inntökugjald og önnur gjöld

Allir félagar skulu greiða inntökugjald og árgjald svo sem fyrir er mælt í sérlögum klúbbsins. Félagi sem flyst úr öðrum klúbbi samkvæmt 7. gr., lið 4, þarf ekki að greiða inntökugjald öðru sinni né fyrrverandi félagi klúbbsins sem gengur í hann aftur. Rotaractfélagi sem hefur hætt sem slíkur á síðustu tveimur árum er undanþeginn greiðslu inntökugjalds.

 

 

 

12. grein  Tími félagsaðildar

1. Tími
Félagsaðild varir meðan klúbburinn starfar nema henni ljúki af einhverjum eftirgreindum ástæðum:

2. Slit
a)  Aðildarskilyrði:  Félagsaðild að klúbbnum rofnar sjálfkrafa ef félagi uppfyllir ekki lengur skilyrði til aðildar að klúbbnum með þessum undantekningum:
1) Stjórnin getur veitt félaga sem flytur burt af klúbbsvæðinu heimild til að vera áfram í klúbbnum og undanþágu frá fundarsókn í eitt ár hið mesta, meðan hann er að kynnast klúbbi á svæðinu þangað sem hann hefur flutt enda uppfylli félaginn öll önnur skilyrði fyrir aðild að klúbbnum.
2) Stjórnin getur veitt félaga sem flytur af klúbbsvæðinu heimild til þess að vera áfram í klúbbnum ef hann eftir sem áður uppfyllir öll skilyrði fyrir aðild að klúbbnum.

b)  Endurnýjun félagsaðildar:  Hafi félagi hætt í klúbbnum af ástæðum greindum í lið a í þessum kafla og fram til þess tíma verið í góðu áliti innan klúbbsins getur hann sótt um inngöngu að nýju fyrir sömu eða aðra starfsgrein. Ekki skal greiða inntökugjald að nýju.

c)  Lok aðildar heiðursfélaga:  Kjör heiðursfélaga fellur sjálfkrafa úr gildi að loknu því tímabili sem stjórnin hefur ákveðið að það gildi. Stjórnin getur samt sem áður framlengt það til lengri tíma. Stjórnin getur hvenær sem er afturkallað kjör heiðursfélaga. 

3. Slit vegna vanskila á gjöldum
a)   Félagi sem ekki greiðir gjöld sín innan þrjátíu  daga frá gjalddaga skal áminntur skriflega  af ritara um greiðslu.
Greiði hann ekki skuldina innan tíu daga frá áminningu má strika hann út af félagaskrá, nema stjórnin ákveði annað.
b)  Hann getur orðið félagi að nýju ef klúbbstjórn ákveður svo að beiðni hans og hann hefur greitt gjöld sín enda sé starfsgrein hans ófyllt. Þó getur fyrrum félagi ekki orðið virkur félagi að nýju stangist starfsgrein hans á við 8. gr. lið 2.

4. Slit vegna vanrækslu á fundarsókn
a) Mætingarhlutfall:  Félagi verður að:
1) Sækja eða bæta sér upp a.m.k. 50% reglulegra funda Rótarýklúbbsins eða tengiklúbbsins eða taka þátt í þjónustuverkefnum eða öðrum viðburðum á vegum klúbbsins í minnst 12 klukkustundir á fyrri og síðari helmingi Rótarýársins, hvorum fyrir sig eða sameiginlegu hlutfalli beggja tímabila.
2) Sækja a.m.k. 30% reglulegra funda í klúbbnum eða tengiklúbbnum eða taka þátt í þjónustuverkefnum eða öðrum viðburðum á vegum klúbbsins á fyrri og  síðari helmingi Rótarýársins. (aðstoðarumdæmisstjórar samkvæmt skilgreiningu aðalstjórnar RI eru undanþegnir þessari skyldu).
Sé fundarsókn ekki eins og krafist er, er heimilt að fella félagsaðild úr gildi nema stjórnin telji ástæður fyrir fjarvistum góðar og gildar.
b) Samfelld fjarvera:  Sæki félagi ekki fjóra reglulega fundi í röð og bæti þá ekki upp án þess að stjórnin hafi heimilað það af fullnægjandi ástæðum eða ákvæði 9. gr., 3. eða 4. liðar eigi við skal stjórnin tilkynna honum að líta megi á fjarveruna sem beiðni um úrsögn úr klúbbnum. Að svo búnu getur stjórnin samþykkt með meirihluta atkvæða að fella hann út af  félagaskrá.

 

5. Slit af öðrum ástæðum
a) Gildar ástæður:  Klúbbstjórn getur fellt út af félagaskrá einstakling sem ekki uppfyllir lengur kröfur um verðleika félaga eða af öðrum gildum ástæðum. Samþykktin skal gerð með minnst tveimur þriðju hlutum atkvæða þeirra stjórnarmanna sem eru viðstaddir og greiða atkvæði á stjórnarfundi sem sérstaklega er haldinn um þetta mál. Á þessum fundi skal hafa að leiðarljósi 1. lið 7. gr., fjórprófið og þann sterka siðferðisgrundvöll sem einkenna ber sérhvern Rótarýfélaga.
b) Tilkynning:  Áður en gripið er til aðgerða  samkvæmt lið a) hér að framan skal þeim sem í hlut á tilkynnt um málið með minnst tíu daga fyrirvara og gefinn kostur á að skila stjórninni skriflegri greinargerð. Einnig á hann rétt á að koma fyrir stjórnina til að standa fyrir máli sínu. Þetta skal honum tilkynnt bréflega í ábyrgðarbréfi eða boðsendingu til síðasta heimilisfangs.
c) Ráðstöfun starfsgreinar:  Hafi félagi verið felldur út af félagaskrá, eins og lýst hefur verið í þessum lið, skal ekki samþykkja nýjan félaga í starfsgrein hans fyrr en kærufresti er lokið, klúbbfundur hefur fjallað um málið eða gerðardómur lokið störfum. Þetta ákvæði gildir þó ekki ef fjöldi virkra félaga í starfsgreininni er innan marka enda þótt ákvörðun stjórnarinnar um slit verði hnekkt.

6. Réttur til áfrýjunar, sáttaumleitana eða gerðardóms varðandi slit
a) Tilkynning:  Hafi klúbbstjórn ákveðið að fella félaga út af félagaskrá skal ritari innan sjö daga frá þeirri ákvörðun gera honum grein fyrir henni bréflega. Hann getur innan fjórtán daga tilkynnt ritara bréflega að hann ætli að gera eitt af þrennu; vísa máli sínu til klúbbfundar, æskja sáttafundar eða leggja það í gerð eins og fyrir er mælt í 16. grein.
b) Áfrýjun til klúbbfundar:  Áfrýi hann máli sínu til klúbbfundar skal stjórnin ákveða á hvaða reglulegum fundi málið skuli tekið fyrir og boða til hans innan 21 dags frá móttöku áfrýjunar.
Sá klúbbfundur skal boðaður bréflega öllum félögum með minnst fimm daga fyrirvara og grein gerð fyrir fundarefni. Hann skal vera lokaður öðrum en klúbbfélögum.
c) Sáttafundur eða gerðardómur:  Sé máli vísað til sáttafundar eða í gerðardóm skal með það farið eins og fyrir  er mælt  í 16. gr. laga þessara.
d) Áfrýjun:  Sé máli áfrýjað til klúbbfundar skal ákvörðun hans vera endanleg og bindandi fyrir alla er hlut eiga að máli og er ekki hægt að leggja hana í gerðardóm.
e) Ákvörðun gerðardómenda eða oddamanns:  Sé óskað eftir gerðardómi skal ákvörðun dómenda eða oddamanns ef þeir eru ekki einhuga vera endanleg og bindandi fyrir alla aðila og  verður ekki áfrýjað.
f) Árangurslaus sáttafundur:  Beri sáttafundur ekki árangur getur félagi skotið máli til klúbbfundar eða gerðardóms svo sem tiltekið er í lið a).

7. Ákvörðun stjórnar endanleg 
Ákvörðun klúbbstjórnar í máli er endanleg hafi því ekki verið vísað til klúbbfundar eða gerðardóms.

8. Úrsögn
Úrsögn félaga úr klúbbnum skal vera skrifleg og send til forseta eða ritara. Klúbbstjórn ber að samþykkja hana enda sé félagi skuldlaus.

9. Missir eigna og réttinda
Einstaklingur, sem ekki er lengur félagi í klúbbnum, glatar öllum rétti til sjóða og annarra eigna klúbbsins hafi viðkomandi félagi öðlast einhvern slíkan eignarrétt við inngöngu í klúbbinn skv. landslögum

10. Tímabundin slit félagsaðildar
Ef það er álit stjórnar án tillits til annarra ákvæða  grundvallarlaganna að:
a) fram hafi komið trúverðugar ásakanir um að félagi hafi neitað eða vanrækt að fara að grundvallarlögunum eða hafi gerst sekur um hegðun sem félaga er ekki samboðin eða sett blett á orðstír klúbbsins; og
b) varði þessar ásakanir, reynist þær á rökum reistar, slit félagsaðildar viðkomandi félaga; og
c) ekki sé talið æskilegt að grípa til aðgerða varðandi félagsaðild hans meðan beðið er niðurstöðu í máli eða atvikum sem stjórnin telur að þurfi að liggja fyrir áður  en hún afgreiðir málið; og
d) með hagsmuni klúbbsins að leiðarljósi  sem og til að komast hjá atkvæðagreiðslu um félagsaðild hans eða hennar  skuli félagsaðild viðkomandi félaga slitið tímabundið og hann útilokaður frá fundum og öðru starfi í klúbbnum sem og frá embættum og stöðum sem hann gegnir fyrir klúbbinn. Félaginn verður undanþeginn mætingarskyldu á grundvelli þessa ákvæðis;
getur stjórnin með atkvæðum a.m.k. 2/3 hluta stjórnarmanna slitið aðild félagans um tiltekið tímaskeið og á þeim forsendum sem stjórnin ákveður. Þó ekki lengur en telja má sanngjarnt miðað við aðstæður allar.

 

 

13. grein  Samfélags-, þjóðmála- og alþjóðamálefni

1. Sannir þegnar
Félagar klúbbsins bera fyrir brjósti velferðarmál samfélags, þjóðar og heimsins alls. Á klúbbfundum eru rædd á heiðarlegan og upplýsandi hátt málefni sem til heilla horfa, félögum til fróðleiks, skilnings og skoðanamyndunar. Hins vegar tekur klúbburinn ekki afstöðu til dægurmála eða óútkljáðra deilumála.

2. Engin meðmæli
Klúbburinn styður ekki né mælir með neinum frambjóðanda til opinberra starfa og ræðir ekki á fundum sínum verðleika eða ávirðingar slíkra frambjóðenda.

3. Engin pólitísk afstaða
a) Ályktanir og samþykktir:  Klúbburinn gerir ekki ályktanir um eða dreifir samþykktum um  málefni á alþjóðavettvangi né lætur til sín taka pólitískar stefnur í alþjóðamálum.
b) Áskoranir:  Klúbburinn skorar ekki á aðra klúbba, þjóðir eða ríkisstjórnir að taka ákveðna afstöðu í pólitískum alþjóðamálefnum né heldur dreifir hann bréfum, ræðum eða ritgerðum af þeim toga.

4. Upphaf Rótarý
Afmælisvika Rótarý (afmælisdagurinn er 23. febrúar) nefnist friðar- og vináttuvika. Í þeirri viku leggur klúbburinn sig fram um að kynna markmið Rótarý, minna á afrek hreyfingarinnar og vekja sérstaklega athygli á hugsjón hennar um frið, skilning og góðvilja heima fyrir og um veröld alla.


14. grein  Tímarit Rótarý

1. Skylduáskrift
Klúbburinn leggur þá skyldu á herðar félögum sínum að þeir kaupi tímarit RI eða viðurkennt svæðistímarit hreyfingarinnar hafi klúbburinn ekki verið undanþeginn þeirri kvöð samkvæmt ákvörðun stjórnar RI. Tveimur Rótarýfélögum með sameiginlegt heimilisfang er heimil ein sameiginleg áskrift að tímariti RI. Félagi greiðir áskrift að ritinu frá upphafi þess sex mánaða tímabils er hann gekk í klúbbinn og  til loka þess sex mánaða tímabils er hann hvarf úr klúbbnum.

2. Innheimta áskriftargjalds
Klúbburinn skal innheimta áskriftargjald tímaritsins af félögum hálfsárslega fyrirfram og skila því til aðalskrifstofu  RI eða þeirrar skrifstofu sem sér um útgáfu viðkomandi svæðisrits.


15. grein  Viðurkenning á markmiðum og lögum Rótarý

Þegar félagi gengur í klúbbinn og greiðir inntökugjald viðurkennir hann um leið að vera samþykkur markmiðum Rótarý og fellst á að fylgja þeim og vera bundinn af stofnskrá Rótarý og sérlögum klúbbsins. Með því öðlast hann þau réttindi sem klúbburinn veitir. Sérhverjum Rótarýfélaga ber að fylgja  þessum lögum hvort sem hann hefur fengið þau í hendur eða ei.


16. grein  Sáttafundir og gerðardómur

1. Deilur
Komi upp missætti í klúbbnum, af öðrum ástæðum en ákvörðun stjórnar, milli félaga eða fyrrum félaga og klúbbsins, sýslunarmanns eða stjórnar, af hvaða ástæðu sem er og málið leysist ekki eftir þeim leiðum sem þegar er gert ráð fyrir, skal eftir beiðni til ritara frá einhverjum deiluaðila, skera úr deilumálinu með sáttafundi eða gerðardómi.

2. Tímasetning sáttafundar og gerðardóms
Ef þörf er sáttafundar eða gerðardóms skal stjórn klúbbsins ákveða tíma fyrir slíkt í samráði við aðila máls og skal hann haldinn innan tuttugu og eins dags frá því beiðni um það hefur  borist.
 
3. Sáttaumleitanir
Framkvæmd sáttafundar skal vera í samræmi við viðurkenndar kröfur hér á landi,  hagað eftir leiðbeiningum viðurkenndra sérhæfðra aðila á þessu sviði eða fylgja í því efni skráðum reglum sem stjórn RI eða Rótarýsjóðsins hafa látið í té. Eingöngu má velja Rótarýfélaga til sáttastarfa. Klúbburinn getur beðið umdæmisstjóra eða fulltrúa hans að tilnefna sáttasemjara sem er Rótarýfélagi og hefur viðurkennda þekkingu og reynslu á því sviði.
a) Niðurstaða sáttafundar:  Samkomulag deiluaðila og niðurstaða sáttafundar skal skráð og fá báðir aðilar og sáttasemjari eintak, ennfremur stjórn klúbbsins og skal ritari varðveita það.
Úrdráttur samkomulagsins skal gerður til upplýsinga fyrir aðra klúbbfélaga.
Hvor deiluaðili fyrir sig getur óskað eftir að forseti eða ritari boði til frekari viðræðna hafi annarhvor vikið verulega frá gerðu samkomulagi.
b) Árangurslausar sáttaumleitanir:  Beri sáttaumleitanir ekki árangur, geta deiluaðilar hvor um sig óskað gerðardóms svo sem tilgreint er í lið 1 í þessari grein.

4. Gerðardómur
Sé óskað gerðardóms skal hvor aðili tilnefna mann í dóminn og þeir koma sér saman um
oddamann. Aðeins Rótarýfélagar geta gegnt störfum í slíkum gerðardómi.

5. Niðurstöður gerðardóms eða oddamanns
Náist ekki samkomulag er niðurstaða gerðardóms eða oddamanns endanleg og bindandi fyrir alla aðila og henni er ekki hægt að áfrýja


17. grein  Sérlög klúbbsins

Klúbburinn setur sín eigin sérlög. Þau mega ekki vera í ósamræmi við stofnskrá eða sérlög RI, reglur umdæmisins né þessi grundvallarlög, en bæta má við sérákvæðum um stjórnun klúbbsins ef henta þykir. Sérlögunum má breyta samkvæmt ákvæðum þeirra.


18.  grein  Túlkun

Þegar í lögum þessum eru notuð orðin "póstur", "póstleggja" og "atkvæðagreiðsla í pósti" er einnig átt við notkun tölvupósts (e-mail) og netsamskipta (internet) til þess að draga úr kostnaði og auka svörun.


19. grein  Lagabreytingar

1. Hvernig standa á að lagabreytingum
Að öðru leyti en því sem tilgreint er í lið 2 í þessari grein verður þessum grundvallarlögum klúbba aðeins breytt af löggjafarþingi RI á sama hátt og ákveðið er  í sérlögum RI um breytingar á þeim lögum.

2. Breyting á 2. grein og 3. grein
2. gr. þessara laga (um nafn) og 3. gr. (um svæðistakmörk) má breyta á almennum klúbbfundi þar sem meirihluti félaga er viðstaddur og gildir samþykkt tveggja þriðju hluta félaga er greiða atkvæði. Tillagan skal áður kynnt öllum félögum og umdæmisstjóra með bréfi a.m.k. tíu (10) dögum fyrir fundinn. Einnig skal breytingin kynnt aðalstjórn RI og hlýtur ekki staðfestingu fyrr en hún hefur samþykkt hana. Umdæmisstjóri getur látið í ljós álit sitt  við aðalstjórn RI um breytingartillöguna.


Grundvallarlög þessi gilda frá 1. júlí 2013

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning