Umdæmisstjórar frá RK

Þrír umdæmisstjórar frá Rótarýklúbbi Kópavogs

Í 50 ára sögu Rótarýklúbbs Kópavogs hafa þrír klúbbfélagar gegnt starfi umdæmisstjóra fyrir íslenska Rótarýumdæmið og klúbburinn annast þinghald í því sambandi.


Síðan er í vinnslu

Sigurgeir Jónsson 1966-1967

Fyrsti umdæmisstjóri á vegum klúbbsins var Sigurgeir Jónsson þá bæjarfógeti í Kópavogi.
Hann lést árið 2005. Kona hans var Hrafnhildur Kjartansdóttir Thors.
Sigurgeir var valinn með stuttum fyrirvara eða 19. júlí 1965 af klúbbnum til þessa trúnaðarstarfs en hann var einn af stofnfélögum klúbbsins og var forseti klúbbsins 1962-1963. Sigurgeir var lögfræðingur að mennt og hafði gegnt fjölmörgum störfum fyrir hið opinbera er hér var komið sögu.

Sigurgeir

Sigurgeir og kona hans Hrafnhildur Thors taka með viðhöfn á móti fulltrúa frá alþjóða Rótarýhreyfingunn á Keflavíkurflugvelli. Í miðjunni er Pétur Guðmundsson flugvallarstjóri.


Pétur Maack Þorsteinsson 1981-1982

Öðru sinni kom umdæmisstjóri úr Rótarýklúbbi Kópavogs fyrir tímabilið
1981-1982. Varð þá fyrir valinu Pétur Maack Þorsteinsson en hann lést
árið 2006. Kona hans var Agla Bjarnadóttir.
Pétur var einn af stofnfélögum klúbbsins og gegndi þar forsetaembætti 1969-1970. Hann beitti sér mjög í sinni umdæmisstjóratíð fyrir að umdæmið
sjálft eignaðist eigið húsnæði. Skilaði sú barátta síðar árangri og er nú umdæmið í eigin húsnæði.
Pétur var bifvélavirki að mennt og rak bifreiðaverkstæði og varahlutaverslun
um árabil. Hann var tilnefndur fulltrúi forseta Rótarý International á umdæmisþingi í Bodö í Noregi 1990.

Petur-og-Agla

Pétur Maack Þorsteinsson ásamt konu sinni Öglu Bjarnadóttur. Engar myndir eru frá umdæmisþingi þess tíma þar sem fella varð þingið niður
vegna yfirvofandi verkfalla, en Pétur er hér kátur og hress að vanda á myndinni sem er frá umdæmisstjóratíð hans 1981-1982.


Ásgeir Jóhannesson 1995-1996

Rótarýklúbbi Kópavogs var falið í þriðja sinn að tilnefna umdæmisstjóra og
varð fyrir valinu Ásgeir Jóhannesson en hann hafði þá verið nær 3 áratugi
forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins og hafði opinber innkaup sem sína starfsgrein innan Rótarýklúbbsins.
Kona hans er Sæunn Sveinsdóttir.
Hann hafði verið klúbbfélagi í nær aldarfjórðung og gegnt forsetaembætti
1978-1979.

Asgeir-og-Vigdis

Ásgeir Jóhannesson, þá umdæmisstjóri, tekur Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands inn í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg í umdæmisstjóratíð sinni 1995-1996.