Rótarýhreyfingin 50 ára - afmæliskveðja

Rótarýklúbbur Kópavogs – stutt ágrip með afmæliskveðju

Úr bókinni Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára / 1934-1984

Kosin var bráðabirgðastjórn fyrir klúbbinn, og hann hóf að halda fundi, enda þótt hann hefði ekki öðlast full réttindi. Þessa bráðabirgðastjórn skipuðu eftirtaldir menn:

Guttormur Sigurbjörnsson skattstjóri, forseti
Steinn Steinsen verkfræðingur, varaforseti
Þorvarður Árnason forstjóri, ritari
Gísli Þorkelsson verkfræðingur, gjaldkeri
Siggeir Ólafsson húsasmiður, stallari.

Það var svo ekki fyrr en 6. febrúar 1961, að stofnfundur klúbbsins var haldinn í Félagsheimili Kópavogs. Sú stjórn, sem farið hafði með bráðabirgðaumboð í klúbbnum, var öll endurkosin sem fyrsta löglega stjórn hans. Stofnfélagar voru 24 talsins.

Móðurklúbburinn var okkar næsti nágranni, Rótarýklúbbur Reykjavíkur. Og þeir sem aðstoðuðu okkur fyrir hans hönd voru einkum þeir séra Óskar J. Þorláksson og dr. Árni Árnason, sem báðir vörðu miklum tíma til að hjálpa okkur við samningu sérlaga fyrir klúbbinn. Tómas Tómasson og Ludvig Storr voru okkur einnig mjög hjálplegir.

Það var svo ekki fyrr en 10. október 1961, að Jóhann Jóhannsson, þá orðinn fyrrverandi umdæmisstjóri, afhenti klúbbnum fullgildingarskjal frá Rotary International á hátíðarfundi klúbbsins á venjulegum fundarstað í Félagsheimili Kópavogs.

Öll þessi ár, 22 talsins, sem klúbburinn hefur starfað, hafa verið með hefðbundnu sniði. Félagar hafa nokkuð komið og farið. Þeir eru í dag skráðir 61 og þar af tveir heiðursfélagar, þeir Frímann Jónasson frv. skólastjóri og séra Gunnar Árnason frv. sóknarprestur í Kópavogssókn. Af stofnfélögum eru enn starfandi í klúbbnum 10 félagar eða tæpur helmingur.

Íslenska rótarýumdæmið hefur valið tvo umdæmisstjóra úr hópi klúbbfélaga, þá Sigurgeir Jónsson og Pétur M. Þorsteinsson.

Klúbburinn hefur beitt sér fyrir því, að tveir meðlimir hans hafa fengið viðurkenningu sem Paul Harris fellows, þeir Kjartan J. Jóhannsson og Pétur M. Þorsteinsson, sem báðir eru fyrrverandi umdæmisstjórar.

Til ýmiss konar mannúðarmála hefur klúbburinn eflt svo kallaðan framkvæmdasjóð, sem settur var á stofn á fyrstu starfsárum hans með árlegum framlögum klúbbfélaga. En drýgsta tekjulind sjóðsins hefur á seinni árum verið útgáfa og sala jólamerkja, sem gefin hafa verið út síðan 1964.
Merkasta átak klúbbsins á sviði mannúðarmála er án efa þátttaka hans í byggingu sjúkraheimilis fyrir aldraða að Sunnuhlíð í Kópavogi. En formaður byggingarnefndar og nú rekstrarstjórnar er einn klúbbfélagi, Ásgeir Jóhannesson forstjóri.

Rótarýklúbbarnir á landinu eru í dag 24 talsins. Rótarýklúbbur Kópavogs var sá 15. í röðinni.

Í tilefni af 50 ára afmæli elsta og stærsta rótarýklúbbs landsins, Rótarýklúbbs Reykjavíkur, sendum við okkar bestu afmæliskveðjur með þakklæti fyrir veitta aðstoð við stofnun klúbbs okkar og ánægjulegt samstarf frá upphafi.
Megi rótarýhreyfingunni auðnast að koma til skila þeirri meginhugsjón að efla skilning og velvilja milli manna og milli þjóða.

Guttormur Sigurbjörnsson