Stofnun klúbbsins

Stofnun Rótarýklúbbs Kópavogs 6. febrúar 1961

Kafli þessi er stytt endursögn af frásögn Guttorms Sigurbjörnssonar, fyrsta forseta klúbbsins, í 30 ára afmælisbók klúbbsins

Árið 1960 var Jóhann Jóhannsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans í Siglufirði umdæmisstjóri íslenska Rótarýumdæmisins. Það hefur lengi verið metnaðarmál umdæmisstjóranna að standa að stofnun eins rótarýklúbbs í sinni umdæmisstjóratíð. Það kom því ekki á óvart, að svo áhugasamur rótarýmaður sem Jóhann var, reyndi fyrir sér um þessa hluti.

Á þessum tíma var Kópavogur mjög ört vaxandi kaupstaður og því ekki óeðlilegt að til hans væri litið um stofnun nýs rótarýklúbbs. Það mun hafa verið á miðju sumri 1960, sem Jóhann hafði samband við Sigurgeir Jónsson, þáverandi bæjarfógeta í Kópavogi um það hvort aðstæður væru á þann veg í Kópavogi, að hægt væri að koma á fót rótarýklúbbi. Eftir að Sigurgeir hafði kannað málið, var niðurstaðan sú, að reynt skyldi að hrinda málinu í framkvæmd.

Eftirtaldir 24 menn höfðu látið í ljós áhuga á að gerast stofnfélagar Rótarýklúbbs Kópavogs:

Árni Sigurjónsson, framkvæmdastjóri
Eggert Steinsen, rafmagnsverkfræðingur
Einar G. E. Sæmundsen, skógfræðingur
Einar Vídalín Einarsson, stöðvarstjóri
Frímann Jónasson, skólastjóri
Gísli Þorkelsson, efnaverkfræðingur
Guðmundur Matthíasson, organisti
Guðni Þorgeirsson, kaupmaður
Gunnar Árnason, sóknarprestur
Guttormur Sigurbjörnsson, skattstjóri
Hrólfur Ásvaldsson, sparisjóðs stjóri
Jóhann Kristjánsson, kaupmaður
Johan Schröder, garðyrkjumaður
Jón Sumarliðason, bifreiðaeftirlitsmaður
Jósafat Líndal, framkvæmdastjóri
Oddur A. Sigurjónsson, skólastjóri
Pétur M. Þorsteinsson, bifvélavirkjameistari
Siggeir Ólafsson, húsasmíðameistari
Sigurgeir Jónsson, bæjarfógeti
Steinn Steinsen, byggingaverkfræðingur
Sveinn A. Sæmundsson, blikksmíðameistari
Tryggvi Jónsson, forstjóri
Úlfar Helgason, tannlæknir
Þorvarður Árnason, forstjóri

Kosin var bráðabirgðastjórn fyrir klúbbinn, og hann hóf að halda fundi, enda þótt hann hefði ekki öðlast full réttindi. Þessa bráðabirgðastjórn skipuðu eftirtaldir menn: Guttormur Sigurbjörnsson, skattstjóri, forseti, Steinn Steinsen, verkfræðingur, varaforseti, Þorvarður Árnason, forstjóri, ritari, Gísli Þorkelsson, verkfræðingur, gjaldkeri og Siggeir Ólafsson, byggingameistari, stallari.

Það var svo ekki fyrr en 6. febrúar 1961, að stofnfundur klúbbsins var haldinn í félagsheimili Kópavogs. Sú stjórn, sem farið hafði með bráðabirgða umboð í klúbbnum, var öll endurkosin sem fyrsta löglega stjórn hans.

Móðurklúbburinn var okkar næsti nágranni, Rótarýklúbbur Reykjavíkur. Og þeir, sem aðstoðuðu okkur fyrir hans hönd voru einkum þeir séra Óskar J. Þorláksson og dr. Árni Árnason, sem báðir vörðu miklum tíma til að hjálpa okkur við samningu sérlaga fyrir klúbbinn. Tómas Tómasson og Ludvig Storr voru okkur einnig mjög til hjálpar.

Það var svo ekki fyrr en 10. október 1961, að Jóhann Jóhannsson, þá orðinn fyrrverandi umdæmisstjóri, afhenti okkur fullgildingarskjal Rotary International á hátíðarfundi klúbbsins á venjulegum fundarstað í Félagsheimili Kópavogs. Rótarýklúbbur Kópavogs var sá 15. sem stofnaður var hér á landi, en þeir voru orðnir 30 talsins á 50 ára afmæli klúbbsins.