Starf í klúbbunum
Starf í klúbbunum
Í hverjum rótarýklúbbi er reynt að hafa fulltrúa sem flestra starfsgreina. Félagarnir hittast vikulega á ákveðnum stað og stundu og snæða saman málsverð. Með því móti er leitast við að ná höfuðtilgangi hreyfingarinnar: að stuðla að auknum kynnum sem geta glætt skilning og aukið vinaþel manna á milli. Klúbbfundirnir eru kjarninn í starfsemi hreyfingarinnar. Þar geta nýjar hugmyndir fæðst, gagnlegar umræður farið fram og góðar fyrirætlanir hlotið hljómgrunn. Á fundunum flytja rótarýfélagar eða gestir erindi um margvísleg efni, fræðandi og umhugsunarverð, og að þeim loknum fara gjarnan fram umræður. Mikilvægt er að nýir félagar haldi erindi um starfsgrein sína, það snertir sjálfan kjarna rótarýhugsjónarinnar.
„Ánægjuleg kynni og vinsamleg samskipti eru eitt höfuðmarkmið í starfsemi rótarýs, glaðvær, hlýleg og holvænleg kynni. Þessi kynni skulu ekki einungis rækt meðal einstaklinga í klúbbnum; þau skulu engu síður rægt milli, klúbba samfélaga, þjóða, heimshluta. Rótarýhreyfingin á sér engin takmörk eða landamæri. Með auknum kynnum verður skilningur meiri, vinaþel vex af betri skilningi, og aukin kynni, betri skilningur, trúverðugra vinarþel efla vonir um þann alheimsfrið sem mannkynið þráir. Rótarýhreyfingin hefur allar stundir lagt mikla áherslu á það stefnumið sitt að stuðla að alheimsfriði.“ (Úr Handbók íslensku rótarýklúbbanna, sem Stefán Júlíusson tók saman).