Rótarý í hnotskurn

Rótarý í hnotskurn

Rótary var stofnað árið 1905 af lögfræðingnum Paul Harris. Til Íslands barst Rótarýhreyfingin árið 1934 þegar Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður. Nú eru rótarýklúbbar á landinu 31 og félagar rúmlega 1200. Rótarý er elsta hreyfing svokallaðra þjónustuklúbba. Fundir í hverjum rótarýklúbbi eru í hverri viku og er mætingaskylda hjá rótarýfélögum.

Markmið

Almenn markmið Rótarý eru að efla bræðralag og veita þjónustu. Þessi alþjóðlegu samtök standa fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðla að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetja til góðvildar og friðar í heiminum.  Stefnt er að að hafa fulltrúa sem flestra starfsgreina í Rótarý.  Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“ (Service Above Self).

Fjórprófið

Fjórprófið svokallaða er eins konar boðorð rótarýfélaga og stuðlar að heiðarlegum samskiptum milli einstaklinga og þjóða. Það hljómar þannig:

1.  Er það satt og rétt?
2.  Er það drengilegt?
3.  Eykur það velvild og vinarhug?
4.  Er það öllum til góðs?

Vatnsbrunnur sem Íslendingar kostuðu á IndlandiHelstu verkefni

Rótarýklúbbar starfa að ýmsum framfara- og stuðnings málum í sinni heimabyggð, vinna að verkefnum á landsvísu og taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.  Á innlendum vettvangi kemur Rótarýhreyfingin að margvíslegum samfélagsmálum.  Má þar nefna stuðning við aldraða, fatlaða og námsmenn auk umhverfismála í nágrenni við klúbbana, en þar má meðal annars nefna framtak Seltjarnarnessklúbbsins til varðveislu Nestofu og til verndar lands- og mannvistarleifa í Gróttu.  Umhverfismál og landvernd eru og verða ofarlega á dagskrá Rótarýhreyfingarinnar hér á landi.




Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning