Saga klúbbsins

Rótarýklúbbur Seltjarnarness

Kafli úr Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára

Rótarýklúbbur Seltjarnarness var stofnaður 20. marz árið 1971. Þá hafði um nokkurra mánuða skeið verið unnið að stofnun þessa nýja klúbbs undir forystu Ásgeirs Magnússonar umdæmis st jóra. Með honum unnu þeir Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi umdæmisstjóri, og Jón Gunn-laugsson læknir, sem var félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs. Fengið var leyfi hjá Rótarýklúbbi Reykjavíkur til stofnunar Sel-tjarnarnesklúbbsins, því að Seltjarnarnesið var talið til umráðasvæðis Reykjavíkurklúbbsins.

Stofnfélagar Rótarýklúbbs Seltjarnarness voru 27, og var Jón Gunnlaugsson eini félaginn. sem áður hafði verið í rótarýhreyfingunni. Af stofnfélögum eru 14 enn starfandi í klúbbnum, 3 hafa látizt og 10 hafa hætt vegna brottflutnings eða annarra persónulegra ástæðna (1984).

Stofnbréf Rótarýklúbbs Seltjarnarness var veitt 17. júní 1971, og afhenti Ásgeir Magnússon umdæmisstjóri það á fullgild-ingarhátíð, sem haldin var föstudaginn 25. júní 1971. Ábyrgðarklúbbur var Rótarýklúbburinn Görðum.

Fyrsta stjórn var skipuð eftirtöldum mönnum: Jón Gunnlaugsson var forseti, Björn Jónsson varaforseti, Stefán Ágústsson ritari, Ingi B. Halldórsson gjaldkeri og Kjartan Norðf jörð stallari. Fundarstaður var Félagsheimilið á Seltjarnarnesi og fundartími kl. 12.15 á föstudögum. Engar breytingar hafa verið gerðar síðan á fundarstað eða fundartíma. Klúbburinn gerðist eignaraðili að Félagsheimilinu skömmu eftir stofnun og tekur því þátt í stjórn þess.

Rótarýklúbbur Seltjarnarness hefur frá upphafi stuðlað að framförum í skóla- og æskulýðsmálum á starfssvæði sínu. Þetta hefur verið gert með því að afla bóka og gefa þær til skólasafna Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla. einnig með því að verðlauna á hverju vori tvo nemendur úr hvorum skóla fyrir góða frammistöðu. Klúbburinn hefur lengi haft fyrir venju að bjóða á fund einu sinni á ári nokkrum erlendum stúdentum úr Háskóla Íslands, til þess að þeir mættu kynnast rótarýstarfi og til þess að þeir ættu þess kost að kynna ættlönd sín fyrir klúbbfélögum.

Frá byrjun hefur verið mikill samgangur milli rótarýmanna á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Haldnir hafa verið sameiginlegir fundir og Garðamenn verið tíðir gestir á fundum Seltirninga. Auk Garðaklúbbs hafa sameiginlegir fundir verið haldnir með Seltjarnarnesklúbbi og a. m. k. þessum klúbbum: Keflavík, Kópavogi, Mosfellssveit. Akranesi, Ólafsvík. Stykkishólmi, Rótarýklúbbi Rangæinga og Selfossklúbbi. Er Jón Gunnlaugsson var umdæmisstjóri, vann Rótarýklúbbur Seltjarnarness að stofnun klúbbs í Mosfellssveit. og var Jónas Kristjánsson formaður undirbúningsnefndar. Var klúbburinn stofnaður 17. marz 1981 með 24 félögum og ber heitið Rótarýklúbbur Mosfellssveitar .

Rótarýklúbbur Seltjarnarness hefur átt þátt í að kynna íbúum á Seltjarnarnesi þá byggð og mannlíf, sem var á Nesinu á fyrri tímum. Þetta hefur m. a. verið gert með því að gefa út tvö kort af Seltjarnarnesi. Árið 1977 var gefin út eftirprentun af elzta korti, sem til er af Seltjarnarnesi og nágrenni, en það er kort, sem kennt er við danska skipstjórann Hoffgárd og var gert árið 1715. Hitt kortið er örnefnakort yfir það svæði, sem Seltjarnarnesbær nær nú yfir (Framnesið) og kom út árið 1979. Guðrún Einarsdóttir landfræðingur safnaði örnefnunum og teiknaði kortið. Bæði þessi kort urðu vinsæl meðal íbúa Seltjarnarness og seldust í allstóru upplagi.

Snemma á ferli sínum hóf Seltjarnar-nesklúbburinn að láta málefni Gróttu til sín taka. Áttu félagar góðan hlut að því, að eyjan var friðlýst árið 1974. Á hverju vori fara klúbbfélagar og hreinsa spýtnabrak og annað rusl, sem safnazt hefur á fjörur í eynni um veturinn. Einn klúbbfélaganna, Guðjón Jónatansson, hefur síðan fylgzt með fuglalífi og hlynnt að æðarvarpi þar. Á starfsárinu 1978-79 fékk klúbburinn að gjöf gamla sjóarhúsið í Gróttu, sem Albert Þorvaldsson vitavörður hafði reist þar. Hús þetta var í mjög slæmu ástandi, og má fullyrða, að það hefði orðið eyðingaröflum að bráð, ef klúbburinn hefði ekki tekið við því. Síðan 1979 hefur verið unnið að endurreisn hússins, og er það verk nú (1984) svo vel á veg komið, að þar hafa verið haldnir tveir reglulegir klúbbfundir. Ekki er þó ætlunin að halda þar klúbbfundi, heldur á húsið að nýtast félögunum og öðrum, sem vilja njóta þess að eiga einhverja dvöl í Gróttu. Aðaltilgangur framkvæmdanna í Gróttu er þó auðvitað sá að vernda þar land og mannvistarleifar allar.

Elzta og merkasta hús í Seltjarnarnesbæ er Nesstofa. aðsetur fyrsta landlæknis Íslendinga. Lengi vel var hús þetta í einkaeign, en um 1980 eignaðist ríkissjóður það allt, og hefur síðan verið unnið að viðgerðum á því. Ætlunin er, að í Nesstofu verði safn um lækningar og lyfsölu á Íslandi. Rótarýklúbbur Seltjarnarness lagði nokkuð af mörkum til þessa máls og átti þátt í því, að Rótarýumdæmið á Íslandi tók málefni Nesstofu upp á sína arma og safnað var fé meðal rótarýmanna um allt land til varðveizlu Nesstofu.

Seltjarnarnesklúbburinn hafði um tíma samband við rótarýklúbbinn í Grankulla (Kauniainen) í Finnlandi, en þau kynni hafa ekki verið rækt í seinni tíð. - Jón Gunnlaugsson, fyrsti forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness, var umdæmisstjóri íslenzka rótarýumdæmisins 1980-81, og kom því í hlut Seltjarnarnesklúbbsins að sjá um umdæmisþing vorið 1981. Það var haldið á Laugarvatni og þótti takast vel. - Félagar í klúbbnum áttu drjúgan þátt í því, að stofnað var leikfélag á Seltjarnarnesi, og starfaði það í nokkur ár. - Rótarýklúbbur Seltjarnarness er 1100 prósent klúbbur í Rótarýsjóðnum og hefur mælt með a. m. k. tveimur umsækjendum, sem fengið hafa styrk úr sjóðnum.

Forsetar Rótarýklúbbs Seltjarnarness hafa verið þessir:

Jón Gunnlaugsson 1971-1972
Björn Jónsson 1972-1973
Jónas Kristjánsson 1973-1974
Thor R. Thors 1974-1975
Árni Garðar Kristinsson 1975-1976
Sigurður Sigmundsson 1976-1977
Kjartan Norðf jörð 1977-1978
Aðalsteinn Sigurðsson 1978-1979
Jón Hákon Magnússon 1979-1980
Guðmundur Óskar Ólafsson 1980-1981
Karl B. Guðmundsson 1981-1982
Ólafur H. Óskarsson 1982-1983
Heimir Þorleifsson 1983 - 1984

Verðandi forseti fyrir rótarýárið 1984-1985 er Eyjólfur Thoroddsen, og varaforseti hans er Sigurður Kr. Árnason.

 

Jón Gunnlaugsson og Heimir Þorleifsson