Fréttir

16.2.2017

Þúsundasti rótarýfundur

Þúsundasti fundur frá stofnun Rótarýkúbbsins Reykjavík-Miðborg var haldinn hátíðlegur 13. febrúar 2017 á Nauthóli, reglulegum fundarstað klúbbins. Á fundinum var rifjuð upp stofnun klúbbsins, Sólveig Pétursdóttir valin heiðurfélagi og Þorsteinn Örn Guðmundsson tekinn í klúbbinn. Á borðum lágu eintök af fyrsta og eina tölublaði af fréttablaði klúbbins, Punktum og pistlum. Fjöldi klúbbfélaga, maka og gesta sat fundinn.

Thomas Möller, forseti Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg setti þúsundasta fundinn og kynnti dagskrána. Jafnframt minntist hann látinna félaga.

Guðbjörg Gísladóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir, ungir klarinettunemendur léku tvö lög.

Sólveig Pétursdóttir, fyrsti forseti rótarýklúbbsins rifjaði upp stofnun klúbbsins 30. maí 1994. Nokkrum árum áður hafði lögum Rotary International verið breytt og klúbbum heimilað að veita konum inngöngu. Innan elsta rótarýklúbbs á Íslandi, Rótarýklúbbs Reykjavíkur, voru skiptar skoðanir um það hvort veita skyldi konum inngöngu. Úr varð að sá klúbbur beitti sér fyrir stofnun nýs kynjablandaðs rótarýklúbbs, Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg. Þar hafa hlutföll kynja ávallt verið nokkuð jöfn, t.a.m. eru nú í klúbbnum 82 félagar, þar af 42 konur og 40 karlar. Þá hafa karl og kona ávallt skiptst á að gegna starfi forseta og sem jafnast hlutfall karla og kvenna hefur setið í stjórn hverju sinni.

Fyrstu árin fundaði rótarýklúbburinn í Gyllta salnum á Hótel Borg. Klúbburinn flutti sig um set upp úr aldamótum og fundaði um skeið á Hótel Sögu. Klúbburinn flutti sig aftur á Hótel Borg og fundaði þar til loka starfsársins 2011-2012. Frá 2. júlí 2012 hafa reglulegir fundir klúbbsins verið í veitingahúsinu Nauthóli við Nauthólsvík.

Síðar á þúsundasta fundinum var Sólveig Pétursdóttir útnefnd heiðursfélagi í rótarýklúbbnum. Sólveig er annar heiðurfélagi klúbbsins. Sá fyrsti og eini hingað til er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverndi forseti Íslands. Það var Kristín Guðmundsdóttir sem lýsti útnefningu Sólveigar. Hér má lesa nánar um útnefninguna: /rotaryklubbar/island/rvkmid/frettir/nr/5983

Á þessum þúsundasta fundi var Þorsteinn Örn Guðmundsson tekinn í rótarýklúbbinn. Hér má lesa nánar um inngönguna. /rotaryklubbar/island/rvkmid/frettir/nr/5982