Fréttir

16.2.2017

Nýr heiðursfélagi

Sólveig Pétursdóttir var útnefnd heiðursfélagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg á þúsundasta fundi klúbbsins 13. febrúar 2017. Sólveig er annar heiðursfélagi klúbbsins. Sá fyrsti og eini hingað til er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Það var Kristín Guðmundsdóttir sem lýsti útnefningu Sólveigar.

Sólveig Pétursdóttir var meðal stofnfélaga í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg þegar hann var stofnaður 30. maí 1994 og var kjörin fyrsti forseti hans. Hún var jafnframt fyrsta konan til að gegna því forystuhlutverki í rótarýklúbbi á Íslandi. Fyrsta stjórnin sat óvenjulengi eða fram í miðjan janúar 1996. Það lenti því á henni að vera í forsvari fyrir þessum klúbbi sem var sérstaklega stofnaður sem fyrsti kynjablandaði rótarýklúbburinn á Íslandi. Þetta var aðeins nokkrum árum eftir að lögum Rotary International hafði verið breytt og klúbbum heimilað að veita konum inngöngu.

Þrátt fyrir miklar annir í störfum sínum á opinberum vettvangi sem borgarfulltrúi, alþingismaður, ráðherra og síðast sem forseti Alþingis hefur Sólveig ávallt sinnt rótarýklúbbnum af alúð og verið virk á fundum.