Nýr heiðursfélagi
Sólveig Pétursdóttir var meðal stofnfélaga í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg þegar hann var stofnaður 30. maí 1994 og var kjörin fyrsti forseti hans. Hún var jafnframt fyrsta konan til að gegna því forystuhlutverki í rótarýklúbbi á Íslandi. Fyrsta stjórnin sat óvenjulengi eða fram í miðjan janúar 1996. Það lenti því á henni að vera í forsvari fyrir þessum klúbbi sem var sérstaklega stofnaður sem fyrsti kynjablandaði rótarýklúbburinn á Íslandi. Þetta var aðeins nokkrum árum eftir að lögum Rotary International hafði verið breytt og klúbbum heimilað að veita konum inngöngu.
Þrátt fyrir miklar annir í störfum sínum á opinberum vettvangi sem borgarfulltrúi, alþingismaður, ráðherra og síðast sem forseti Alþingis hefur Sólveig ávallt sinnt rótarýklúbbnum af alúð og verið virk á fundum.