Fréttir

16.2.2017

Nýr klúbbfélagi

Þorsteinn Örn Guðmundsson var tekinn í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg á þúsundasta fundi í klúbbnum 13. febrúar 2017. Að Þorsteini meðtöldum eru klúbbfélagar 82, þar af 42 konur og 40 karlar.

Þorsteinn Örn Guðmundsson (1966) lauk smiðsnámi í Iðnskólanum í Reykjavík 1986. Hann bætti við sig bóklegu námi í undirbúningsdeild Tækniskóla Íslands 1987-1989. Þorsteinn hóf nám í byggingarverkfræði við Danmarks Tekniske Universitet (DTU) 1993 og lauk meistaraprófi þaðan 1999. Ári síðar lauk hann hrað-MBA-námi í Flórída í Bandaríkjunum á vegum alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Co., Kellogg School of Management við Northwestern University í Illinois í Bandaríkjunum og franska INSEAD-háskólans. Auk þess hefur Þorsteinn setið fjölda námskeiða innan lands og utan.

Þorsteinn starfaði sem smiður 1990-1993. Hann starfaði hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Co. í Singapore 2001-2002 og á Norðurlöndum 1999-2004. Síðan lá leiðin til Flugleiða/FL Group (nú Icelandair Group) þar sem Þorsteinn sinnti ýmsum stjórnunarstörfum innan samstæðunnar 2004-2009, síðast sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá FL Group. Hann var forstjóri Northern Travel Holding 2007-2008 sem var samstæða nokkurra flugfélaga og ferðaskrifstofa á Íslandi og í Norður-Evrópu. Þorsteinn rak eigið ráðgjafarfyrirtæki, Concordia, 2008-2011. Síðan 2011 hefur hann verið framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík (Ráðstefnuborgin Reykjavík) sem er samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Reykjavik sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg. Þar er einnig að finna Iceland Luxury sem er samstarfsvettvangur um markaðssetningu á Íslandi fyrir efnameiri aðila í leit að lúxusupplifun.

Þorsteinn hefur setið í stjórnum fjölmargra félaga, fyrst og fremst innan ferðaþjónustu.

Þorsteinn er kvæntur Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair Hotels. Þau eiga fimm börn á aldrinum 16-29 ára og tvö barnabörn.