Minningarorð um Ólaf H. Óskarsson Rótarýfélaga okkar
„Trúr vinur er öruggt athvarf og auðugur er sá, sem finnur hann,“ er haft eftir Sírak, hinum forna spekingi. Þannig litum við Rótarýfélagar Ólafs H. Óskarssonar, fyrrum skólastjóra Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, á þann trygga og góða félaga sem nú hefur kvatt jarðlífið og haldið til bjartari heima.
„Trúr vinur er öruggt athvarf og auðugur er sá, sem finnur hann,“ er haft eftir Sírak, hinum forna spekingi. Þannig litum við Rótarýfélagar Ólafs H. Óskarssonar, fyrrum skólastjóra Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, á þann trygga og góða félaga sem nú hefur kvatt jarðlífið og haldið til bjartari heima. Ólafur var um langt árabil einn fremsti skólamaður Nessins. Hann lagði mikinn persónulegan metnað í að mennta ótrúlegan fjölda ungra Seltirninga áður en þeir héldu úti í lífið til frekari menntunar og ávinninga á lífsins göngu. Hann lagði sitt af mörkum til þess að Valhúsaskóli væri meðal bestu grunnskóla landsins og í áhöfn hans væri ætíð hópur öflugra kennara og annars starfsliðs.
Ólafur, sem var mjög mikil félagsvera, gekk í Rótarýklúbb Seltjarnarness á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum í klúbbnum, var meðal annars ritari 1997-98 og forseti 1982-83. Hann var afburða glaðvær, fróður og skemmtilegur félagi. Hann fór á kostum þegar ættfræði bar á góma enda hafsjór af fróðleik á því sviði og má segja að Ólafur hafi verið í hópi fremstu ættfræðinga landsins. Við munum sakna Ólafs á okkar hefðbundnu föstudagsfundum framvegis.
Sjálfur átti ég því láni að fagna að kynnast Ólafi árið 1977, þegar ég, 16 ára nemandi Menntaskólans á Ísafirði heimsótti Valhúsaskóla með fjórum skólasystkinum mínum til að kynna okkur hinn nýja Valhúsaskóla. Ólafur kom sem skólastjóri mikið að undirbúningi og byggingu skólans, sem nú er eitt af kennileitum Nessins. Ólafur tók konunglega á móti okkur og sýndi okkur með miklu stolti kosti skólabyggingarinnar. Skóli var síðar byggður undir Menntaskólann á Ísafirði eftir sömu teikningu.
Rótarýfelagar Ólafs á Nesinu drjúpa höfði nú þegar við kveðjum hinsta sinni góðan félaga.
Fyrir hönd klúbbsins færi ég eiginkonu Ólafs, Ingibjörgu Björnsdóttur, og fjölskyldu okkar innilegust sorgar- og samúðarkveðju. Með Ólafi er genginn góður drengur.
Hjörtur Grétarsson, forseti Rkl. Seltjarnarness