Fréttir

18.6.2011

Rótarýklúbbur Seltjarnarness styður bágstadda í Japan eftir hörmungarnar þar

Rótarýklúbbur Seltjarnarness ákvað í tilefni af 40 afmæli sínu í mars sl. að veita framlag úr sjóði sínum og efna til söfnunar meðal klúbbfélaga til styrktar bágstöddum í Japan af völdum jarðskjálftanna og flóðbylgjunnar sem reið yfir um svipað leyti og haldið var upp á afmælið. Málið hlaut góðar undirtektir og nemur heildarfjárhæðin rúmum 350 þúsund krónum. Vill klúbburinn með þessu leggja áherslu á hinn alþjóðlega þátt Rótarýstarfsins.

Forstöðumaður sendiráðs Japans hér,  Katsuhiro Natsume sendiherra, mætti nýlega á fundi í klúbbnum að eigin ósk, til þess að færa klúbbfélögum þakkir fyrir hlýhug þeirra og stuðning.
Áður hefur klúbburinn á þessu starfsári lagt fram styrktarfé til hjálparstarfs hér á landi, bæði til hjálparsjóðs Seltjarnarneskirkju og Rauða krossins, 250 þús.kr. til hvors aðila. Þessi framlög eru í samræmi við þá samfélagsþjónustu sem Rótarýhreyfingin kappkostar.