Fréttir

18.6.2011

Rótarýklúbbur Seltjarnarness gefur sundbikar í skólakeppni

Rótarýklúbbur Seltjarnarness gaf fyrir skemmstu fallegan bikar, sem veittur verður framvegis þeim er bestum árangri ná í sundkeppni grunnskólans á Seltjarnarnesi. Hún er haldin á hverju vori að tilhlutan klúbbsins. Nefnist bikarinn "Sundbikar Rótarýklúbbs Seltjarnarness -- ERLENDARBIKARINN -- í minningu sundafreka Erlendar Ólafs Jónssonar (1923-2004)".

 Erlendur var lengi skipstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands. Hann bjó á Nesinu síðustu æviár sín, ásamt eiginkonu sinni, Ástu M. Jensdóttur. Ungur að árum bjargaði Erlendur ósyndum bátsfélaga sínum og sýndi einnig afburða sundkunnáttu og þrek við björgun farþega, þegar "Dettifossi" var sökkt á fáeinum mínútum með tundurskeyti frá þýskum kafbáti á Írlandshafi undir lok heimsstyrjaldarinnar 1945, en Erlendur var háseti á skipinu. Með því að tengja hinn nýja bikar við afrek Erlendar vill klúbburinn vekja unga fólkið til íhugunar um hvílíka gæfu góð sundkunnátta getur leitt af sér. Hinn nýi bikar er til marks um aukið starf klúbbsins í þágu ungmenna í samræmi við nýlega ákvörðun Rótarý-alþjóðahreyfingarinnar um að leggja vaxandi áherslu á ungmennastarfið með því að gera það að sérstöku markmiði og sjálfstæðri þjónustuleið í lögum hreyfingarinnar.
 
Að þessu sinni hreppti bikarinn Kolbrún Jónsdóttir, sem náð hefur framúrskarandi árangri í skólasundinu. Afhending fór fram við skólaslit nýverið. Flutti þá Guðrún Brynja Vilhjálmsdóttir, formaður æskulýðsnefndar, ávarp af hálfu klúbbsins, en dóttursonur og nafni Erlendar tók þátt í þessari fyrstu afhendingu bikarsins.
 
Rótarýklúbburinn á Nesinu hefur veitt verðlaunpeninga á sundmótum grunnskólans á Seltjarnarnesi í nær þrjá áratugi. Þessi góði siður, sem hefur haft örvandi áhrif á sundiðkun skólanemenda, var tekinn upp fyrir forgöngu Eyjólfs heitins Thoroddsen þáverandi forseta klúbbsins.