Fréttir

13.9.2010

Umdæmisstjóri heimsækir Rótarýklúbb Seltjarnarness.

Margrét Friðriksdóttir umdæmisstjóri Rótarý 2010 - 2010.

Margrét Friðriksdóttir umdæmisstjóri Rótarý 2010-2011 heimsótti Rkl. Seltjarnarness föstudaginn 10. sept., ásamt eiginmanni sínum, og efndi klúbburinn til kvöldverðarfundar með mökum af því tilefni í Félagsheimili Seltjarnarness.

Margrét Friðriksdóttir umdæmisstjóri Rótarý 2010-2011 heimsótti Rkl. Seltjarnarness föstudaginn 10. sept., ásamt eiginmanni sínum, og efndi klúbburinn til kvöldverðarfundar með mökum af því tilefni í Félagsheimili Seltjarnarness.  Sátu fjölsóttan fund 62 klúbbfélagar og gestir. Áður en sest var að borðum átti umdæmisstjóri stuttan fund með stjórn klúbbsins og nefndaformönnum, þar sem Ólafur Egilsson klúbbforseti gaf stutt yfirlit yfir starfsemina og umdæmisstjóri hnykkti á áherslum sínum. Meginefni kvöldsins var síðan yfirlitserindi Margrétar umdæmisstjóra um verkefni Rótarý almennt og það sem hæst ber á yfirstandandi starfsári.  Erindinu sem stutt var skyggnum og stóð í tæpl. hálftíma var mjög vel tekið. Mikill áhugi ríkir í klúbbnum á starfi hreyfingarinnar og efldist hann enn við hvatningar umdæmisstjóra. Umsjón fundarins var að öðru leyti í höndum skemmtinefndar klúbbsins undir forystu Barkar Thoroddsen tannlæknis sem sagði gamansögur og lék á gítar undir almennan söng.  Forsöngvarar voru þau Elísabet óperusöngvari Eiríksdóttir og fv. forseti klúbbsins Þórleifur Jónsson.  Óvænt og ánægjulegt dagskráratriði var einnig fiðluleikur skiptinema frá Ecuador, Raissu Palacio, sem nýlega er komin hingað til dvalar fram á mitt næsta ár, en hún lék frumsamið lag við góðar undirtektir. Umdæmisstjóri hafði meðferðis fána alþjóðaforsetans og var skipst á honum og fána klúbbsins.  Mikil ánægja ríkti með heimsókn umdæmisstjóra og þótti kvölddagskráin takast afar vel. Meðal gesta var Margrét Sigurjónsdóttir skrifstofustjóri Rótarýumdæmisins sem klúbburinn hefur átt ánægjulegt samstarf við.