Rótarýklúbbur Selfoss fimmtíu ára 30. maí 1998

Rótarýklúbbur Selfoss fimmtíu ára 30. maí 1998

Fundur haldinn í Tryggvaskála kl. 9:00 að morgni.

Forseti setti fund og bauð félaga velkomna.  Þetta var 2644. fundur frá upphafi og 47. fundur starfsársins, 50 ára afmælisfundur.

Forseti gat þess að á þessum morgunfundi gerðist sá einstæði atburður að tekin væri inn í félagið fyrsta konan í Rótarýklúbb Selfoss, Bryndís Brynjólfsdóttir tryggingaumboðsmaður og kaupmaður.  Var Bryndísi vel tekið og brýtur koma hennar blað í sögu Rótarýklúbbs Selfoss.

Að afloknu morgunkaffi, sem var í boði Verslunarinnar Hornsins sýndi Bryndís fundarmönnum Tryggvaskála og sagði frá sögu Skálans, foreldrum sínum og öðrum, sem þar bjuggu.

Að því loknu gengu fundarmenn í kirkjugarðinn þar sem séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson varaforseti klúbbsins flutti hugvekju og minntist látinna Rótarýfélaga, var veran í garðinum einstaklega tilkomumikil þar sem séra Kristni mæltist einstaklega vel og veðrið var eins og best getur orðið.

Því næst var farið í rútu í Hellisskóg og gróðursettar 50 plöntur og kom sér vel að hafa skógfræðing með í för til að stjórna verkinu þar sem einhverjir voru ekki með það á hreinu hvor endi hríslunnar ætti að snúa niður.  Að gróðursetningu lokinni var gengið á hól eða klett og skoðað hrafnshreiður, sem þar er en gengið síðan til rútu og ekið um Selfossbæ undir leiðsögn Páls Jónssonar.

Þessum morgunfundi lauk síðan með hádegisverði í Inghóli í boði Kaupfélags Árnesinga en þar borin fram kjötsúpa.  Gestur þessa morgunfundar var Páll Jónsson Rótarýklúbbi Keflavíkur en hann hefur verið drjúgur við að sækja fundi á Selfossi gegnum árin.

Undir borðum í Inghóli flutti Hjalti Gestsson tölu um liðna daga Rótarýklúbbsins og taldi þar til nokkra látna félaga, sem settu svip á klúbbinn á árum áður.

Þessum sérstaka morgunfundi, þar sem veðrið var okkur Rótarýfélögum einstaklega gott, sleit forseti um kl.13:00 og tilkynnti að næsti fundur væri kl. 19:30, sérstakur hátíðarfundur.

Lauk þar með morgunfundi í tilefni 50 ára afmælis Rótarýklúbbs Selfoss.

         Mæting 100%

         Gunnar B. Guðmundsson, ritari

 

 

 

 

Afmælisfundur haldinn í Hótel Selfoss í tilefni 50 ára sögu Rótarýklúbbs Selfoss

    Hátíðarfundur.


Samkvæmið hófst með fordrykk, en forseti setti fund kl. ca. 20:30.  Þetta var fundur nr. 2645 frá upphafi og 48. fundur starfsársins.  Forseti bauð félaga og gesti velkomna en sérstaklega þó þá stofnfélaga, sem gátu verið viðstaddir þennan hátíðarfund.  En þeir voru:

Páll Hallgrímsson og frú, Sigurður Ingi Sigurðsson og frú og Gísli Bjarnason.  Einn stofnfélagi, Sigurður Eyjólfsson, gat ekki komið en sendi kveðjur sínar. 

Aðrir gestir voru:   Þórður Harðarson og frú, Rórarýklúbbi Reykjavíkur.
   Friðjón Guðröðarson og frú, Rótarýklúbbi Rangæinga.
   Páll G. Björnsson og frú, Rótarýklúbbi Rangæinga.
   Ólafur Helgi Kjartansson og frú, Rótarýklúbbi Ísafjarðar
   Páll Jónsson og frú, Rótarýklúbbi Keflavíkur og
   Óli Olesen, sem var fylgdarmaður Gísla Bjarnasonar.

Þá las ritari upp fyrstu fundargerð, sem rituð var á stofnfundi Rótarýklúbbs Selfoss fyrir 50 árum en hún var innfærð af Sigurði Eyjólfssyni skólastjóra Barnaskóla Selfoss.

Að þessu loknu var formanni Hátíðarafmælisnefndar, Einari Pálmari Elíassyni falin veislustjórn og tókst hún röggsamlega.

Margar ræður voru fluttar en allar stuttar.  Þar komu fram kveðjur til Rótarýklúbbs Selfoss á afmælinu.  Einnig voru fram borin skemmtiatriði, einsöngur og fjöldasöngur undir borðhaldi, sem stóð í þrjá klukkutíma.

Í lokin var stiginn dans þar sem Helgi Kristjánsson tónlistarmaður lék.  Fór samkoma þessi glæsilega fram og var afmælisnefndinni til mikils sóma en þar fór fyrir flokki Einar P. Elíasson og á hann sérstakar þakkir skildar frá okkur félögum í klúbbnum.

Lauk svo þessum afmælisdegi upp úr miðnætti og hljóta allir að vera ánægðir með hvernig til tókst, veðrið einstaklega gott og öll framkvæmd eins og best verður á kosið.

          Mæting 100%

         Gunnar B. Guðmundsson ritari