3. fundur 17. júlí 1951

Úr fundargerðum Rótarýklúbbs Selfoss.

3. fundur 17. júlí 1951

Forseti stjórnaði fundi.  Afsakaðir voru Einar Pálsson og Bjarni Pálsson.

Lögð voru fram mánaðarbréf frá Hafnarfirði, Sauðárkróki og Reykjavík enn fremur The Rotarian og Rotary- Norden.

Gjaldkeri síðasta starfsárs, Kristinn Vigfússon las reikninga félagsins fyrir það ár og voru þeir samþykktir.  Lesin var fundargerð síðasta fundar.  Ritari flutti útdrátt úr skýrslu frá skrifstofunni í ZÜRICH um alþjóðaþing Rotary-International, sem haldið var í Atlantic-City dagana 27.-31. maí.

Dagskrá annaðist Sig. Óli Ólafsson og ræddi hann um hreppsmál.  Skýrði hann nokkuð fjárhagsáætlun ársins 1951, sem nýlega hefur verið lögð fram.  Sagði því næst nokkuð frá fyrirtækjum hreppsins, fyrst frá rafveitunni, sem hefur staðið sig vel fjárhagslega fram að þessu.

Því næst talaði hann um vatnsveituna.  Hún tók til starfa árið 1935.  Áður en hún var gerð urðu menn, sem vildu setjast að hér á Selfossi að byrja á því að grafa sér brunna.  MBF leið af vatnsskorti þá eins og nú.  Var þá farið að tala um að MBF og þorpsbúar réðust sameiginlega í að koma hingað vatni ofan frá Ingólfsfjalli.  Til voru hér þá menn, sem bókstaflega voru því mótfallnir að í þetta yrði ráðist.  Stjórn MBF samþykkti þá að gera vatnsveituna ein, ef þorpsbúar vildu ekki vera með.

Árið 1934 hinn 5. maí var haldinn fundur í barnaskólanum um stofnun vatnsveitu.  Var rætt um þetta fram og aftur og að lokum lögð fram ályktun um stofnun vatnsveitu og var hún undirrituð af fundarmönnum.

12. marz 1935 var enn haldinn fundur um væntanlega vatnsveitu.  Þar var lögð fram ályktun frá Hilmari Stefánssyni um stofnun vatnsveitu á Selfossi og var hún undirrituð af þorra fundarmanna.  21. maí 1935 var svo endanleg gengið frá stofnun vatnsveitufélags, samþykktir fyrir félagið lagðar fram og samþykktar.

Fyrstu stjórn þess skipuðu:  E. Thorarensen, Sig. Óli Ólafsson og Hilmar Stefánsson.

Höskuldur Baldvinsson verkfræðingur tók að sér að annast lagningu vatnsæðarinnar fyrir 27.000,00 kr. en síðar bættist við kostnaðinn svo endanlega kostaði vatnsveitan kr. 30.979,82. Hún tók til starfa í júlím. 1935.

1947 afhenti vatnsveitufélagið hinum nýstofnaða Selfosshreppi vatnsveituna, þá skuldlausa.

Upphaflega voru eingöngu trérör í leiðslunni, 5" víð efst en mjórri neðar.  Vildu þessi rör mjög mikið bila, einkum að neðanverðu.

Á hernámsárunum fékk setuliðið vatn úr veitunni og skaffaði það þá stálrör í leiðsluna neðanverða, þó fyrst eftir miklar bollaleggingar.  Létu þeir rör þessi endurgjaldslaust, gegn því að fá frítt vatn úr veitunni meðan þeir væru hér.

Forseti þakkaði merkilegt erindi og gaf síðan orðið laust.  Til máls tóku Guðm. Jónsson og Gísli Bjarnason.  Auk þess að tala um hreppsmál ræddi Guðm. Jónsson um klúbbmál almennt og gat að lokum um það að sér fyndist vel viðeigandi að félagsmenn færu saman í einhverja skemmtiferð í sumar með konur sínar.  Stakk hann upp á að farið yrði til Vestmannaeyja.

Næst talaði Jón Ingvarsson og kom með tillögu um það að farin yrði hringferð um Þingvelli, Uxahryggi í Borgarfjörð og um Hvalfjörð til baka.

Voru þeir Guðm. Jónsson, Jón Ingvarsson og Gísli Bjarnason valdir í nefnd, sem annast á undirbúning væntanlegs ferðalags.

Að lokum var samþykkt að halda áfram umræðum um hreppsmál á næsta fundi.

Sigurður Pálsson    Sigurður I. Sigurðsson