Saga klúbbsins

Úr sögu Rótarýklúbbs Selfoss

Birt í "Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára"
Steingrímur Jónsson:

Um aldamótin síðustu var Eyrarbakki höfðustaður Suðurlands. Eyrarbakki var þá fimmta fjölmennasta þéttbýlið á Íslandi með 758 íbúa árið 1901, næst á eftir Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Bygging Ölfusárbrúarinnar árið 1891 varð hins vegar til þess, að verslun Sunnlendinga fluttist í auknum mæli út úr héraðinu, einkum til Reykjavíkur.

Á þriðja áratug þessarar aldar var spyrnt við fótum. Þá voru stofnuð í Árnessýslu Mjólkurbú Flóamanna árið 1927 og Kaupfélag Árnesinga 1930. Báðum fyrirtækjunum var valinn staður við Ölfusárbrú. Áður hafði þar myndast vísir að þéttbýli með greiðasölu, verslun, bréfhirðingu og banka, en nú skipti sköpum.

Hið nýja þéttbýli myndaðist einkum í landi Selfoss í Sandvíkurhreppi, en einnig að hluta í Hraungerðishreppi og Ölfushreppi. Árið 1940 voru íbúarnir orðnir 225, liðlega helmingur þess sem var á Eyrarbakka, og fjölgaði ört. Alþingi samþykkti árið 1946 lög um stofnun Selfosshrepps, og árið 1950 voru íbúarnir orðnir 999 talsins, nær tvöfalt fleiri en á Bakkanum.

Sunnudaginn 30. maí 1948 komu nokkrir menn saman á fund á Selfossi til að hlýða á erindi dr. Helga Tómassonar yfirlæknis í Reykjavík um starfsemi rótarýhreyfingarinnar og til að bera saman ráð sín um stofnun rótarýklúbbs á staðnum. Lúðvík Norðdal héraðslæknir setti fundinn og stjórnaði honum, en Páll Hallgrímsson sýslumaður ritaði fundargerð. Að loknu framsöguerindinu og umræðum um það lýstu 13 fundarmenn sig reiðubúna til að taka hátt í stofnun klúbbsins. Nafn var ákveðið Rótarýklúbburinn á Selfossi og félagssvæðið Selfoss-, Sandvíkur-, Hraungerðis-, Ölfus- og Hveragerðishreppar. Vikulegur fundartími var ákveðinn á þriðjudögum kl. 12 á hádegi. Í stjórn voru kosnir: Lúðvík Norðdal héraðslæknir, forseti; Páll Hallgrímsson sýslumaður, varaforseti; Sigurður Eyjólfsson skólastjóri, ritari; Sigurður Óli Ólafsson kaupmaður, gjaldkeri; og Jón Pálsson dýralæknir, stallari.

Fullgildingarbréf Rótarýklúbbsins á Selfossi var gefið út þann 12. júlí 1948. Afhenti umdæmisstjóri sr. Óskar J. Þorláksson forseta klúbbsins skírteinið á fullgildingarhátíð þann 2. október 1948. Rótarýklúbburinn á Selfossi er hinn 9. í röðinni á Íslandi, en númer 6999 í Rotary International.

Stofnfélagar voru 18 talsins, Brynjólfur Gíslason, Einar Pálsson, Gísli Bjarnason, Guðmundur Jónsson, Haukur Halldórsson, Herbert Jónsson, Ingimar Sigurðsson, Ingólfur Þorsteinsson, Ingþór Sigurbjörnsson, Jón Ingvarsson, Jón Pálsson, Kristinn Vigfússon, Lúðvík Norðdal, Páll Hallgrímsson, Sigurður Eyjólfsson, Sigurður Óli Ólafsson, sr. Sigurður Pálsson og Sigurður I. Sigurðsson.

Á nokkra fyrstu fundi Rótarýklúbbsins á Selfossi komu félagar úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur og fluttu erindi um hreyfinguna. Fundahald þróaðist síðan með hefðbundnum hætti þannig, að einstakir klúbbfélagar önnuðust um fundarefni. Fljótlega var upptekið að fyrirmynd Rótarýklúbbs Keflavíkur að láta hverja nefnd fyrir sig annast um fundarefni í einn mánuð í senn. Fundarefni hefur ætíð verið fjölbreytilegt, rótarýmálefni, starfsgreinaerindi og margt fleira. Þess eru nokkur dæmi, að um-ræðum um erindi lauk ekki á fundinum, heldur var fram haldið á næsta fundi, og tvisvar tók þrjá fundi til að ljúka umræðum. Fjallaði annað erindið um starf bóndans, en hitt um skemmtanahald.

Fundartími var sem fyrr segir ákveðinn á þriðjudögum kl. 12 á hádegi, en haustið 1949 var fundartímanum breytt þannig, að 1. fundur hvers mánaðar skyldi haldinn á sama tíma og áður, en hinir þrír yrðu kvöldfundir með kaffi. Sumarið 1950 var

ákveðið, að allir fundir skyldu haldnir um hádegi, en í júlí 1951 var fundartími ákveðinn kl. 7 að kvöldi og hefur verið svo síðan. - Auk reglulegra funda hefur Rótarýklúbburinn á Selfossi haldið árshátíð árlega, og var hún í fyrstu á haustmánuðum, en hefur hin síðari ár verið haldin á þorra eða góu.

Rótarýklúbburinn á Selfossi hefur haft margvísleg samskipti við aðra klúbba og hefur svo verið allt frá upphafi. Er fyrst að nefna, að sumarið 1950 komu hafnfirskir rótarýfélagar í heimsókn til klúbbsins á Selfossi. Rótarýfélagar á Selfossi endurguldu síðan heimsókn Hafnfirðinganna um haustið. Þá er einnig að nefna, að þetta sama sumar var efnt til ferðar Rótarýklúbbs Reykjavíkur, Keflavíkur og Selfoss að Strandarkirkju í Selvogi. Fyrir fé, sem safnaðist í ferðinni, var síðan keyptur skírnarfontur í kirkjuna.

Um skeið gaf Rótarýklúbburinn á Selfossi út fjölritað mánaðarbréf, en útgáfan stóð aðeins um skamma stund og féll síðan niður.

Klúbburinn hefur tvívegis átt umdæmisstjóra. Sr. Sigurður Pálsson var umdæmisstjóri 1957-1958, og var umdæmisþingið 1958 haldið á Þingvöllum. Marteinn Björnsson var umdæmisstjóri 1982-1983, og var umdæmisþingið 1983 haldið á Selfossi.