Verkefni

Ýmis verkefni klúbbsins

Gróska í Grafarvogi, umhverfisverkefni, hvatningarverðlaun og gróðursetning svo eitthvað sé nefnt.

Gróska í Grafarvogi
Við stofnun klúbbsins var samþykkt að taka þátt í fimm ára samfélagsverkefninu ,, Gróska í Grafarvogi“ og styrkja það. Þetta var merkileg uppbyggingar- og forvarnarleið frá fæðingu barna til 18 ára aldurs. Skólar hverfisins, leikskólar, heilsugæsla, lögregla, íþróttafélög og fjölmörg önnur frjáls félagasamtök stóðu að verkefninu undir stjórn Miðgarðs, fjölskylduþjónustu í Grafarvogi. Klúbburinn reið á vaðið með að verðlauna hugmyndasamkeppni sem fram fór meðal nemanda í margmiðlunarhönnun í Borgarholtsskóla um gerð merkis fyrir verkefnið. Klúbburinn lagði fram kr. 30.000 til þessarar verlaunaafhendingar sem fram fór 21. febrúar 2002.

Umhverfisverkefni
Klúbburinn hefur verið í samstarfi  við Borgarminjavörð og íbúasamtök Grafarvogs ásamt fleirum aðilum um merkingu minjastaða í Grafarvogi.

Hvatningaverðlaun til unglinga
Árlega hefur klúbburinn veitt lokaverðlaun í Rimaskóla fyrir námsárangur á sviði umhverfis- og samfélagsmála.

Skákverðlaun

Klúbburinn hefur staðið á bak við hina mögnuðu ungu skákmenn Rimaskóla og fært þeim m.a. skákklukkur. Árlega veitir klúbburinn vegleg verðlaun í skákkeppni Fjölnis.

Gróðursetning

Klúbburinn hefur fengið til umráða svæði til gróðursetningar. Svæðið er á milli hlöðunnar og Skemmtigarðsins í Grafarvogi. Klúbbnum hefur verið leyft að vinna þetta verkefni eins og honum hentar og mun væntanlega verða fengin aðstoð við skipulagningu svæðisins.

Alþjóðleg verkefni

Klúbburinn hefur tekið virkan þátt í baráttu Rótarý hreyfingarinnar við að útrýma lömunarveikinni í heiminum. Það verkefni hefur staðið yfir í um 20 ár og hefur skilað miklum árangri. Fyrir aldafjórðungi dóu árlega yfir 300 þúsund börn víða um heim en nú um nokkur hundruð. Til þessa góða verkefnis greiddi klúbburinn á starfsárinu 2011-12 sem svarar $100 á hvern félaga.