Saga klúbbsins

Saga klúbbsins

Rótarýklúbbur Grafarvogs - sagan

Rótarýklúbbur Grafarvogs er ungur klúbbur, stofnaður 2001.

Rótarýklúbbur Grafarvogs var stofnaður árið 2001. Fyrstu hugmyndir að stofnun klúbbsins vöknuðu í samræðum tveggja stofnfélaga, þeirra Arnars Pálssonar sem var fyrsti forseti klúbbsins og Vigdísar Stefánsdóttur sem tók við forsetaembætti á eftir Arnari.

Stofndagur var ákveðinn 19. júní. Það var meðfram gert til þess að sýna konum virðingu og einkum konum í rótarý. Móðurklúbbur Grafarvogsklúbbsins er Árbæjarklúbburinn sem reyndist litla, nýja klúbbnum vel fyrstu mánuðina. Fyrsta starfsárið gekk vel, margir komu að verkinu.

Fyrsta stjórnin samanstóð af Arnari forseta og Vigdísi viðtakandi forseta, Elísabetu Gísladóttur, Birni Tryggvasyni, Þresti Magnússyni. Fullgildingadagurinn rann upp bjartur og fagur 19. júní 2002. Fjöldi gesta þáði boð klúbbsins og mikið var talað, borðað og sungið fram eftir kvöldi. Klúbbnum barst talsvert af gjöfum þetta kvöld, m.a. fundahamar og gullslegin bjalla sem hvorutveggja hefur verið notað síðan á öllum fundum.

Fljótlega eftir stofnun klúbbsins var tekinn upp sá siður að forseti valdi sér einkunnarorð. Sá siður hefur haldist og reynir forseti hverju sinni að sjá til þess að starf klúbbsins mótist af einkunnarorðum sínum - þó auðvitað sé þess gætt að einkunnarorð heimsforseta séu í hávegum höfð um leið. Annar siður hefur haldist hjá klúbbnum en hann er að nota ferskeytlu-form fjórprófsins eftir Einar Ragnarsson félaga í Árbæjarklúbbnum. Í lok hvers fundar standa fundarmenn upp og fara með fjórprófið í kór.Við hátíðleg tækifæri fær Kjartan tónlistarmður klúbbsins færi á því að spila undir á meðan fjórprófið er sungið.

Allar götur frá stofnun hefur klúbburinn haldið fundi sína í Grafarvogskirkju. Oft í kjallaranum en æ oftar upp á síðkastið í húsinu sjálfu. Á föstunni hefjast fundir jafnan eftir að einhver þekktur íslendingur les úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar í kirkjunni, en þar eru samverustundirnar "á leiðinni heim".
Bjarni prestur Bjarnason er nefnilega félagi í klúbbnum. Þar að auki hefur hann staðið fyrir mörgum góðum viðburðum auk þess sem hann hefur stýrt ungmennasamskiptum innan rótarý með miklum myndarbrag.

Félagar í klúbbnum hafa frá stofnun verið um það bil 25. Um það bil helmingur eru stofnfélgar en aðrir hafa bæst við eftir því sem árin liðu. Allir eru þeir velkomnir og góð viðbót í góðan klúbb. Sumir hafa verið í fríi í styttri eða lengri tíma en skilað sér aftur að leyfi loknu.

Frá upphafi hefur klúbburinn haldið úti heimasíðu sem hefur þjónað sem upplýsingaveita til félaga. Þar hafa verið skráðir nær allir fundir frá upphafi og ótal myndir verið settar inn af myndaglöðum félögum. Þær myndir eru í myndaalbúmi klúbbins á síðunni. Fésbókin hefur á seinni árum tekið við sem samskiptamiðill.