Fréttir

6.11.2008

Umdæmisstjóri heimsækir klúbbinn

Miðvikudaginn 5. nóvember kom Ellen Ingvadóttir umdæmisstjóri í heimsókn í Rótarýklúbb Grafarvogs. Hún var hress að vanda og fræddi félaga um alheimsstarfið, hvatti til góðra verka og sýndi tölur úr starfinu.

Það fylgdi Ellen skemmtilega hress andblær og ekki laust við að hvatningarorð hennar kæmu róti á rólegustu félaga klúbbsins. Hún fór í gegnum gildi þess að vera rótarýfélagi, minntist á alheimsstarfið, hvatti til meiri þátttöku í æskulýðs- og starfshópaskiptum og potaði í peningapúkann með því að segja frá því að 16 íslenskir klúbbar hefðu ekki greitt í rótarýsjóðinn á síðasta ári.

Á undan fundinum og á milli atriða skemmtu ungmenni á vegum Kjartans Eggertssonar félaga í klúbbnum. Það var hin dægilegasta skemmtan og fengu þau mikið lof fyrir.

Á eftir Ellen kom Ólafur Helgi Kjartansson með smá innlegg í umræðuna um Rótarýsjóðinn. Hann lagði áherslu á 100 dollara markið fyrir hvern félaga en það markmið næst með því til dæmis að gefa andvirði eins bjórs mánaðarlega í sjóðinn. Meira er það nú ekki og segist Ólafur gera þetta ekki bara mánaðarlega heldur vikulega.