Skáksprengja í Grafarvogi á Skákhátíð Rótarý og Fjölnis í Rimaskóla
Útdráttur
Skákhátíð fyrir grunnskólanema var haldin á Rótarýdaginn 28. febrúar.
Það fór vel á því að efnilegustu skákmenn Íslands, þau Vignir Vatnar Stefánsson og Nansý Davíðsdóttir, kæmu hnífjöfn í mark með fullt hús á gífurlega fjölmennu barna-og unglingaskákmóti sem Rótarýklúbburinn Reykjavík Grafarvogur og Skákdeild Fjölnis héldu í Rimaskóla í dag. Skákhátíðin í Rimaskóla togaði til sín 115 grunnskólakrakka á öllum aldri, drengi og stúlkur. Ábyggilega hafa glæsilegir vinningar og ekki síður pítsuveislan og ókeypis bíómiði haft sitt að segja því allt var þetta í boði Rótarýklúbbsins. Jón L. Árnason stórmeistari og heimsmeistari unglinga árið 1977 og Rótarýfélagi var heiðursgestur mótsins og lék fyrsta leikinn fyrir Óskar Hákonarson í skák hans við Vigni Vatnar. Í framhaldinu hófst taflmennskan út um allan sal og inn um ganga Rimaskóla. Mótið gekk einstaklega vel fyrir sig þrátt fyrir hálftíma seinkun við innritun þegar löng röð myndaðist við skráningarborðið. Eftir fjórar umferðir var öllum keppendum boðið upp á pítsur og safa sem runnu ljúft niður í skákmeistarana. Strax að móti loknu fór fram glæsileg verðlaunahátíð. Tíu efstu skákmenn mótsins og þrjár efstu stúlkurnar fengu gjafabréf upp á 4000 - 5000 kr. Auk þess voru dregnir út sjö happadrættisvinningar frá nammibar Hagkaups. Allir 115 keppendurnir luku keppni með glæsibrag og fengu ókeypis bíómiða í Laugarásbíó að launum.
Rótarýklúbburinn Reykjavík Grafarvogur á heiður skilið fyrir frábæran stuðning við unga og áhugasama skákkrakka. Rótarýklúbburinn var með þessari skákhátíð að halda upp á Rótarýdaginn og vöktu um leið athygli á fyrirmyndar félagsstarfi í hverfinu. Þar völdu þeir Skákdeild Fjölnis og undirbjuggu hátíðarhöldin í samstarfi við Helga Árnasonformann skákdeildarinnar sem var skákstjóri ásamt Páli Sigurðssyni.