Fréttir

27.6.2012

Stjórnarskipti

Kjartan Eggertsson nýr forseti

Björn Viggósson flutti ársskýrslu

 

Fundur nr. 45 á starfsárinu og nr. 487 frá upphafi haldinn í Grafarvogskirkju.

Ársskýrsla forseta starfsárið 2011 – 2012

Kæru félagar.

Þú uppskerð eins og þú sáir var einkunnarorð mitt þetta starfsár. Fjölgun félaga og góð mæting er ein af góðum uppskerum ársins. Stefnt var að því að bæta vefsíðu okkar og og gera klúbbstarfið að mestu pappírslaust og hefur þeirri vinnu miðað vel en vinna við vefsíðuna er langtímaverkefni sem ekki tekur enda.

Þetta ár hefur verið mjög ánægjulegt og gefandi . Félögum hefur fjölgað og  hefur það skapað ný tækifæri , s.s. að halda veglegt þorrablót og farið var í nokkrar vel heppnaðar ferðir. Síðasta haust var farið til Vestmannaeyja og nú nýverið í vel heppnaða ferð um Snæfellsnes.

Að láta hvern og einn félaga sjá um fundi er fyrirkomulag sem gafst mjög vel í vetur eins og nokkur síðustu ár. Með slíku fyrirkomulagi fæst mikill fjölbreytileiki í dagskrána. Við fengum fjöldann allan af áhugaverðum fyrirlesurum og ekki má gleyma nýju félögunum sem fluttu mörg góð og skemmtileg starfsgreinarerindi. Þrjár mínútur var fastur liður sem mér finnst ómissandi.  Síðasta haust tók ég upp þann hátt að gefa félögum kost á að segja frá góðum fréttum.

Þessir þrír þættir, þ.e. að hver félagi sjái um fund, flytji 3 mínútur og gefist kostur á að segja góðar fréttir úr sínu lífi.  tel ég vera góðan grunn að því að virkja félaga og að hver og einn fái að njóta sín. Allir fá tækifæri til að tjá sig.

Ég vil benda á nokkur atriði sem við erum blessunarlega laus við á okkar fundum. Aldrei er lesin upp fundargerð síðasta fundar. Aldrei er barlómur um bágan fjárhag.  Aldrei er talað um lélegar mætingar heldur þvert á móti.  Tímamörk funda eru virt. Að vera laus við þessi umræðuefni á almennum fundum er mikil blessun.  Til að leysa þessi mál eru tvö klúbbþing, í byrjun starfsárs að hausti og fyrsti fundur eftir áramót. Þetta tel ég vera gott fyrirkomulag. 

Starfsárið byrjaði með fundi heima hjá forseta. Sá háttur var viðhafður fyrstu starfsár klúbbsins og svo af og til. Með fjölgun félaga er líklegt að þetta leggist af enda mikilvægt að skapa ekki neinar íþyngjandi hefðir fyrir forseta. Í vetur voru fjölmörg áhugaverð erindi flutt af gestafyrirlesurum og mörg stórgóð starfsgreinarerindi. Sumum tókst ekki að ljúka sínum starfsgreinarerindum. Ég vil nota tækifærið til að benda á að félagar okkar skipta um störf og því tilefni til að flytja ný erindi. Til þess gefst gullið tækifæri þegar viðkomandi á að sjá um fund.

Þegar fór að vora voru á dagskrá tvær ferðir, gönguferð um Grafarvog og ferð með Útivist. Ég tel í góðu lagi að reyna að færa fundi aðeins út í náttúruna þegar fer að vora en ferðin með Útivist var of erfið fyrir flesta félaga. Þar kom tvennt til, ferðin sjálf var óvenju erfið af miðvikudagsgöngum að vera og ég 11 árum eldri en þegar ég stundaði þær af kappi. Framvegis tel ég mikilægt að velja útiveru og göngur með þeim hætti að allir geti tekið þátt, t.d. með því að sumir gangi en aðrir keyri á milli staða.

Mætingar í vetur hafa verið mjög góðar, sérstaklega fyrir áramót. Starf klúbbsins er í góðum gír þó ávallt megi gera betur. Hver Rótarýklúbbur skapar sínar eigin hefðir og venjur. Ég tel að okkur hafi tekist að skapa ákveðinn anda og léttleika sem er eftirsóknarverður. Ég held að gestir taki betur eftir þeim ágæta anda sem ríkir hér, jafnvel betur en við sjálf sem teljun hann sjálfsagðan.  Ég er mjög ánægður að nýjir félagar hafa aðlagast vel og bætt klúbbstarfið.

Okkur tókst á starfsárinu að leggja fram sem svarar til $100 á félaga til alþóðlegs hjálparstarfs Rótarý og tel ég sjálfsagt að halda því áfram með einum eða öðrum hætti.

Á starfsárinu tókum við þátt í undirbúningi að stofnun nýs eRótarý klúbbs og vil ég þakka Birni Tryggvasyni fyrir fína vinnu en hann sat í undirbúningsnefndinni fyrir okkar hönd. Haldin var fullgildingarhátið í gær, þriðjudaginn 26. Júní og bættust við 26 nýir félagar. Við erum einn af þrem móðurklúbbum og tókum þátt í kostnaði við gerð forsetakeðju, bjöllu og fundarhamars. Hinir klúbbarnir tveir gáfu hvor um sig kr. 100.000 þúsund en við buðum félögum á klúbbfund til okkar.

Ég vil þakka meðstjórendum mínum fyrir vel unnin störf sem og nefndarmönnum.

Ég vil nefna frábært starf félagavalsnefndar og  skemmtinefndar. Fimm nýir félagar og skemmtileg skemmtinefnd. Alþjóðanefnd mun leggja fram tillögur til nýrrar stjórnar og þjóðmálanefndi heldur utan um verkefnið í Gufunesi. Þá er ónefnt starf klúbbþjónustunefndar undir forystu Ólafs en nú liggja fyrir drög að nýjum sérlögum sem þarf aðeins meiri umfjöllun í klúbbnum.

Skyldum mínum fyrir Rótarý er ekki lokið því nýlega var ég kosinn sem nýr Klúbbmeistari fyrir IFMR á Íslandi. Björn Tryggvason hefur gengt því hlutverki frá upphafi.

Kæru félagar, hér komum við saman til að eiga góða stund og til að leggja okkar af mörkum til að bæta heiminn. Það gerum við best með því að vinna vel saman og bæta hvert annað upp.  Ég óska nýrri stjór velfarnaðar og býð Kjartan Eggertsson velkominn til starfa sem forseti klúbbsins starfsárið 2012-2013.

Björn Viggósson