Heimsókn til listamanna
Rótarýklúbbur Reykjavík-Grafarvogur heimsótti listamennina Leif Breiðfjörð glerlistamann og Sigríði Jóhannsdóttur textíllistamann á vinnustofu þeirra í Kópavogi miðvikudaginn 17. febrúar s.l.
Þau hjón sýndu rótarýfélögum og gestum þeirra fjölmörg verk sem þau hafa unnið á liðnum árum. Leifur hefur nýverið lokið við tvö verk sem tengjast inngöngum í kirkjur; hurðir fyrir Hallgrímskirkju og anddyri Dómkirkjunnar í Edinborg sem lokið var við á síðasta ári en Leifur gerði steindan glugga í þá kirkju árið 1985 til minningar um Robert Burns þjóðarskáld Skota.
Það er við hæfi að vitna í orð Braga Ásgeirssonar þegar Leifur hélt yfirlitssýningu á verkum sínum árið 1995:
„Aðalatriðið er að Leifur hefur fundið sinn eigin hreina tón, sem eins og skín í gegn. Þá eru sum pastelverkanna ekki síður verð athygli og glaðklakkaleg kímnin sem kemur fram í þeim tengist mun frekar innri lífæðum myndflatarins, en yfirborðinu og það er nokkuð sem fáir íslenzkir listamenn hafa á valdi sínu. Leifur hefur svo endurnýjað hafið að teikna naktar fyrirsætur, eins og sjá má í bókinni um hann og hefði að ósekju mátt láta eitthvað af þeim fljóta með, því sú framtakssemi sýnir hve þjálfunin og grunnatriðin eru honum mikils virði og verður vafalítið sem eldsneyti til nýrra átaka í glerinu.“
Þess má geta að Leifur er félagi í Rótarýklúbb Reykjavík-Miðborg.
http://www.breidfjord.com/
http://www.stgilescathedral.org.uk/