Fréttir

17.10.2009

Ferð án fyrirheits - eða hvað?

Í byrjun október er að jafnaði fallegt um að líta. Haustlitirnir skarta sínu fegursta og ef vel tekst til, stillur í lofti og sól. Með þetta í huga var skipulögð haustferð Rótarýklúbbs Grafarvogs á Þingvöll og fleiri staði.

Sólahringinn á undan ferðinni hafði lognið farið heldur hraðar en hollt væri fyrir laufskrúðið og því mátti segja að haustilitirnir hefðu bókstaflega fokið. Það létu félagar ekki á sig fá heldur lögðu upp frá Grafarvogskirkju í fallegu veðri (það er alltaf fallegt veður í Grafarvoginum) og óku sem leið lá að StokksEyrarbakka. Þar var skoðað byggðasafn, sagðar sögur og etin humarsúpa við mikla ánægju svangra maga. Heldur hafði bætti í vind þegar þarna var komið sögu og orðið óljóst hvort nokkrir litir væru yfirhöfuð eftir á Þingvöllum.
Einn félagi klúbbsins, Björn Viggósson á bústað við Þingvelli en áður en komist var í skjól þar, var gengið niður Almannagjá og sögð saga Þingvalla að svo miklu leyti sem tíminn leyfði. Eitthvað hafði bæst í söguna frá því sem hefðbundið var en það var mest reynsla félaga og leiðsögumanns sem greinilega hafði mikla þekkingu á þekktri og óþekktri sögu staðarins.
Í bústaðnum var hlýtt og búið að taka fram söngvatn og fleira drykkjarhæft. Strax var hafist handa við að grilla og elda ofan í svangan hópinn.
Eftir að hafa borðað dýrðlegan grillmat, skoðað stjörnur í alvöru stjörnukiki, sungið undir forsöng Theódórs sem í fjarveru Kjartans tók að sér þetta ábyrgðarfulla starf, spjallað, hlegið og lifað, var lagt af stað í bæinn. Það voru áhöld um það hvort hentaði betur til leiðsagnar, Pólstjarnan eða geislinn frá Friðarsúlunni en í bæinn komst hópurinn eftir afburða skemmtilegan dag. Sjá myndir í myndasafni.