Fréttir

5.7.2009

Rótarýumdæmið heiðrar Ólaf Ólafsson

Ólafur Ólafsson deildarstjóri hefur verið félagi í Rótarýklúbbi Grafarvogs um nokkurra ára skeið. Á nýliðnu umdæmisþingi var hann sæmdur Paul Harris orðu fyrir framlag sitt til heimasíðuvinnu fyrir Rótarýumdæmið á Íslandi.

Ólafur hefur um margra ára skeið verið driffjöður í vefvinnu umdæmisins. Hann hefur með miklu harðfylgi, skipulagðri vinnu og góðum áætlunum náð því að koma nýjum vef umdæmisins í loftið. Guðni Gíslason Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar hefur unnið að þessu verkefni með Ólafi og var honum veitt Paul Harris orða við sama tækifæri.
Þar sem Ólafur var fjarri góðu gamni á umdæmisþinginu, kom nýr umdæmisstjóri, Sveinn H. Skúlason, í heimsókn á 1. fund Grafarvogsklúbbsins og sæmdi Ólaf orðunni. Sveinn sagði þetta fyrsta emættisverk sitt vera afar ánægjulegt og hafði orð á því að hann hefði fylgst náið með fjölda funda og mikilli vinnu þeirra Ólafs og Guðna - og á stundum þurft að þvo upp kaffibollana sem skildir voru eftir!
Hann sagðist þó ekki telja það eftir sér  því ávinningur umdæmisins af vefsíðunni væri gífurlegur og með henni hefði orðið til frábært tæki til samskipta, umsjónar og skipulags.