Skáld og hagyrðingar
Af skáldum og hagyrðingum
Nokkur dæmi um vísur og ljóð, sem hafa orðið til á fundum og í ferðalögum
Ekki verður sagt að kveðskapur sé eitt aðaleinkenni Rótarýklúbbs Kópavogs. Þó er það svo að á meðal félaga klúbbsins hafa verið vel ritfærir menn og snjallir hagyrðingar. Að öðrum ólöstuðum verður þó að telja þá látnu heiðursmenn Svein Sæmundsson blikksmíðameistara og Gylfa Gröndal rithöfund fremsta meðal jafningja.
Kveðskapur á fundum
Sveinn hafði mjög gaman af að setja saman vísur á Rótarýfundum og afhenti gjarnan ritara klúbbsins í lok fundar útkrotaða servíettu með afurðunum. Sem dæmi um þennan kveðskap má nefna fund frá 26. nóvember 1974 eftir umræður um olíustyrki til húshitunar í þáverandi olíukreppu. En menn höfðu velt því fyrir sér með hverju mætti kynda eða hvar sprekin lægju til upphitunar eins og í gamla daga. Þá varð til þessi vísa hjá Sveini:
Einn kom ég nakinn og allslaus á þessa jörð
aumasta veran í skaparans mislitu hjörð.
Einn má ég heyja mér veraldar visku og þrek
verð svo að lokum sem hafrekið fúasprek.
Kveðskapur í ferð Rótarýmanna til Íslendingabyggða í Vesturheimi árið 2004
Segja má að hápunktur kveðskapar í klúbbnum hafi verið í ferðinni á Íslendingaslóðir í Vesturheimi árið 2004. Þetta var 9 daga ferð og ekið í rútum langar leiðir sérhvern dag. Þær aðstæður út af fyrir sig kalla á að menn kasti fram vísum, til þess m.a. að láta tímann ekki líða í algeru tilgangsleysi, en í þessari ferð bættist það við að Rótarýklúbburinn Borgir var einnig með í ferð með marga snjalla hagyrðinga, sem þreyttust ekki á að kasta fram vísum, ýmist fullbúnum eða fyrripörtum með áskorun um að botna. Þanni varð til ákveðin samkeppni á milli klúbbanna og allir með snefil af skáldskapargáfu settu sig í stellingar. Var þar ekki allt prenthæft eða dýrt kveðið, en innanum glytti þó vissulega á litla gimsteina.
Eftir ferðina var gefið út 25 blaðsíðna kver með sýnishornum af þeim kveðskap, sem til varð í ferðinni. Til gamans eru hér birt örfá sýnishorn:
Það þurfti ekki að bíða lengi. Strax í veitingasalnum á Keflavíkurflugvelli varð til þessi vísa hjá Gylfa Gröndal, þegar hann leit yfir hóp samferðamanna:
Sá ég ei fyrr svo frækið lið
ferðast í hópi saman.
Ölið veitir oss ánægju og frið.
Mikið andskoti verður gaman!
Það var ýmislegt sagt í rútunum á löngum ferðum. Sigfinnur rifjaði upp gamla sögu um Björn á Löngumýri, sem hafði haft orð á því við gesti að fjárhagslegt öryggi sitt ætti hann undir gullstöngum sem hann geymdi í nærbuxunum sínum. Þá varð til þessi vísa:
Alltaf stinnt og aldrei lint
ekki bregst það vonum,
getur kynt sú gamla mynt
gullið í nærbuxonum.
Rótarýfélagar brugðu sér að skoða gröf Káins. Ætla má að skáldskapargyðjan hafi ekki verið fjarri gröf meistarans, því fjölmargar vísur urðu þar til hjá ferðalöngunum. Að skilnaði kastaði Sigurjón Jóhannesson, bróðir félaga okkar Ásgeirs, fram þessari limru:
Íslenskir kannast við Káinn
með kímninnar hárbeittan ljáinn.
Mörg vísa eftir hann
vitnar um mann
sem lifir þótt löngu sé dáinn.
Kvöld eitt settist Kristján Guðmundsson til snæðings undir mynd af Marilyn Monroe, en Margrét kona hans sat við hlið hans. Sigfinnur leit til þeirra og lýsti þessu þannig:
Það er kvöld og Kristján er
kominn undir Marilyn,
en alltaf þykir Margrét mér
meiri vera bjútíkvín
Komið var þar að sem Missisippífljótið byrjar að renna. Fannst mönnum ekki mikið til koma og sýndist hægðarleikur að vaða yfir lækinn. Bolli félagi okkar valdi þó þann kost að stikla yfir á steinum en féll endilangur í vatnið og varð af mikill gnýr. Bolla verð ekki meint af, en séra Gunnar, ferðafélagi okkar úr Borgum, kvað svo:
Er missti fóta í Missisippífljóti
mátti Bolla liggja flatan sjá.
Hann líktist þarna gríðarlegu grjóti
sem gæti stíflað þessa miklu á.
Í Winnipeg bar fyrir augu stór og mikil stytta af Jóni forseta. Sigfinnur sá þá möguleika fyrir útrásarvíkinga okkar:
Hvernig væri að feðgarnir kenndir við Bónus
keyptu hér örlítið horn
og reistu þar síðan mónúment
sem minnti á forseta vorn?
Þessi frásögn af Vesturfararferð klúbbsins hófst með kveðskap Gylfa Gröndal í veitingasal flugstöðvarinnar við brottför. Fer því vel á að ljúka henni með þessum orðum Gylfa, þegar við kvöddum Jónas Þór, okkar ágæta fararstjóra:
Við Jónasar minnumst um aldur og ár,
aldrei bregst hann vonum.
Frábær í starfi, kátur og klár.
Klöppum fyrir honum