Lítil saga úr Kanadaferð
Fréttir úr Biskupstungum
Í vesturför Rótarýklúbbanna í Kópavogi til Kanada og Bandaríkjanna sumarið 2004 skeði eftirfarandi:
Rótarýfélagarnir Kristján Guðmundsson fyrrv. bæjarstjóri og Vilhjálmur Einarsson fasteignasali eru miklir áhugamenn um hestamennsku.
Skömmu áður en þeir fóru vestur voru þeir staddir í Biskupstungum að sinna áhugamáli sínu og hittu þar ýmsa heimamenn að máli. Meðal þeirra var maður að nafni Haukur. Hann heyrði á tal þeirra félaga þar sem þeir ræddu væntanlega vesturför og er hann heyrði þá nefna að til Kanada myndu þeir koma sagði hann: „Ég á bróður í Kanada og bið að heilsa honum.“
Hvar býr hann og hvað heitir hann? spurðu þeir félagar þá? „Hann býr bara í Kanada og heitir Sumarliði og ég bið að heilsa honum þegar þið hittið hann“. Félagarnir hétu því að skila kveðju til Sumarliða þó ólíklegt þætti þeim að þeir rækjust á Sumarliða bróður sem byggi einhversstaðar í Kanada.
Svo liðu fram tímar og við erum stödd á Íslendingadeginum að Mountain í Kanada. Degi var tekið að halla og eftir að hafa hlýtt á dagskrá þar sem Skagfirska söngsveitin lét mikið að sér kveða var öllum viðstöddum boðið að þiggja léttar veitingar sem framreiddar voru í eldhústjaldi og röðuðu viðstaddir sér upp í biðröð til að komast að afgreiðsluborðinu. Svo vildi til að fyrrnefndir Kristján og Vilhjálmur stóðu saman í biðröðinni og tóku því tal saman, þar á meðal um hestamennsku í Biskupstungum. Er þá sagt fyrir aftan þá á góðri íslensku:
- Eruð þið úr Biskupstungunum?
- Nei svöruðu þeir félagar en spurðu á móti:
- Ert þú úr Biskupstungunum?
- Nei svaraði maðurinn, - en ég á bróður í Biskupstungunum.
- Og hvað heitir hann? spurðu félagarnir.
- Hann heitir Haukur.
- Ert þú þá Sumarliði? spurðu félagarnir.
- Já, var svarið.
Og þá sögðu báðir félagarnir í einu:
- Haukur bróðir þinn bað að heilsa, við hittum hann í Biskupstungunum fyrir fáum dögum síðan!
Þannig tókst að bera kveðju frá Íslandi til manns sem lifði í 30 milljón manna samfélagi einhversstaðar í Kanada!!
Svona tilviljun er ótrúleg.