Ferðir til útlanda

Ferðir til útlanda, sem Rótarýklúbbur Kópavogs hefur skipulagt, ýmist einn eða með Rótarýklúbbnum Borgum

Færeyjar (1988) - Skotland og Orkneyjar (1991) - Grænland (2000) - N.-Dakóta og Kanada á Íslendingaslóðum (2004) - Frakkland á slóðum Duggara og konunga (2007) - Pólland og Þýskaland (2012) - Á sagnaslóðum í Skotlandi (2015) -

Fátt er betur fallið til að efla samstöðu og kynni Rótarýfélaga en ferðalög. Sérstaklega á þetta við þegar ferðast er saman í nokkra daga og jafnvel við frumstæðar aðstæður.

Utanlandsferðir Rótarýklúbbs Kópavogs hófust árið 1988 með ferð til Færeyja en alls hafa verið farnar fimm ógleymanlegar ferðir. Sameiginlegt þeim öllum var að áfangastaðirnir voru víðsfjarri hefðbundnum stöðum, sem Íslendingar fara gjarnan til. Við val á þeim var ekki síst horft til sögu- og menningartengsla við Ísland og Íslendinga.

Þetta sést strax á einfaldri upptalningu: Færeyjar 1988, Skotland og Orkneyjar 1991, Grænland 2000, Íslendingaslóðir í Vesturheimi 2004 og á slóðir duggara í norður Frakklandi 2007.

Rótarýklúbbur Kópavogs stóð einn að fyrstu þremur ferðunum, en eftir að Rótarýklúbburinn Borgir kom til sögunnar sameinuðu klúbbarinir krafta sína í seinustu tveimur ferðunum.

(Ofangreindur texti er skrifaður í tilefni 50 ára afmælis klúbbsins 6. febrúar 2011 og á því ekki endilega við að öllu leyti um ferðir, sem farnar voru síðar, en greint er frá hér að neðan)


1988, 4.-7. ágúst: Færeyjar

Það var vel við hæfi að fyrsta utanlandsför klúbbsins skyldi vera til okkar nánustu frænda, Færeyinga. Ekki þarf að fjölyrða um sögu- og menningartengsl Íslendinga og Færeyinga, en auk þess vill svo til að Klakksvík i Færeyjum er vinabær Kópavogs. Var því tvöföld ástæða til að hemsækja þessa vini okkar.

Það var 39 manna hópur sem lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli í tveimur flugvélum áleiðis til Vogeyjar. Auk Rótarýfélaga og maka þeirra var með í för Árni Waag, þrautreyndur leiðsögumaður, en föðurætt hans er frá Klakksvík.

Kristján Guðmundsson ritaði ítarlega frásögn af ferðinni í 30 ára afmælisrit klúbbsins.

1991, 1.-8. Júní: Skotland og Orkneyjar

Talið er að innflutningur norrænna manna til Orkneyja, Hjaltlands, Suðureyja og Manar sé undanfari þess að Færeyjar, og síðar Ísland, uppgötvuðust og að þar hófst byggð norrænna manna. Áhrifin koma fram í máli, einkum örnefnum, en einnig í mannanöfnum og hinum almenna orðaforða. Einnig er að finna merkilegar fornminjar á Orkneyjum sem tengjast norrænni menningu. Allt þetta gerði Orkneyjar að áhugaverðum áfangastað fyrir Rótarýmenn.

Skotland-brugghus

Ekki er forsvaranlegt að ferðast um Skotland án þess að heimsækja eitthvert hinna rómuðu whisky brugghúsa. Hér má sjá nokkra glaðbeitta ferðalanga fyrir framan eitt þeirra.

Laugardagur 1. júní: 16 Rótarýfélagar ásamt mökum og Þorsteini Magnússyni fararstjóra, alls 31 manns, flugu til Glasgow og gistu á Hospitality Inn í miðborginni. Tilheyrandi pöbbarölt um kvöldið

Sunnudagur 2. júní: Ekið meðfram Loch Lomond til Inveraray og þaðan til Hótel Alexandra í Oban. Gengið um götur Oban. Síðan boðið uppá ferð út í Mull og Jónu.

Mánudagur 3. júní: Ekið til Clencoe og áfram til Fort William. Komið til ferjubæjarins Mallaig og siglt yfir á Skye. Ekið vestur eftir eyjunni til Hótel Tongdale í Portree

Þriðjudagur 4. júní: Ekið norður um Skye og síðan til ferjubæjarins Kyleakin. Siglt yfir til Kyle of Lochalsh og ekið um Shield Brdge og Invermoriston við Loch Ness. Haldið síðan áfram til Hótel Drumossie í Inverness.

Miðvikudagur 5. júní: Ekið norður með ströndum til Turso og ferjubæjarins Scrabster á Katanesi. Siglt yfir Pentilinn til Orkneyja (2 klst) og komið að landi í Straumnesi. Ekið þaðan til Hótel Kirkwall (og Hótel Ayre) í Kirkjuvogi.

Fimmtudagur 6. júní: Skoðunarferð um austureyjuna fyrir hádegi og um vestureyjuna eftir hádegi. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður að hætti Orkneyja-jarla með boðsgestum og skemmtiatriðum.

Föstudagur 7. júní: Ekið til ferjustöðvarinnar í Straumnesi og siglt í 2 klst yfir til Scrabster. Ekið þaðan austur og suður með ströndinni til Bongar Bridge, yfir Ness og til Aviemore, um 300 km leið, og gist þar á Hotel Badenoch.

Laugardagur 8. júní: Ekið suður heiðar um Pitlochry, Perth og Sterling til flugstöðvarinnar í Glasgow. Lent í Keflavík skömmu eftir miðnætti.

2000, 22.-26. ágúst: Grænland

Grænland var numið af Íslendingum undir forystu Eiríks rauða árið 985 eða 986, sem talið er að hafi komið þangað með á þriðja tug skipa. Giskað er á að fjöldi landnema í þessari fyrstu ferð sem farin var til Grænlands til að setjast að hafi verið um 500. Næstu árin komu fleiri landnemar og eftir nokkur ár voru tvær byggðir í Grænlandi, Eystribyggð og Vestribyggð. Eystribyggð var þar sem bærinn Qaqortoq er núna og Vestribyggð var þar sem höfuðstaðurinn Nuuk stendur. Við byrjun 15. aldar eru engin merki sem vitað er um að Grænlenska byggðin hafi verið í hættu en við lok aldarinnar var hún horfin. Ekkert var eftir nema rústir. Val á Grænlandi sem áfangastað uppfyllti því afar vel skilyrðinu um sögu- og menningartengsl við Ísland og Íslendinga.

Graenland-vid-rustir

Við rústir Dómkirkjunnar í Görðum.

Eftirfarandi er úrdráttur úr frásögn Hreins Bergsveinssonar, eins af 27 Rótarýfélögum ásamt mökum og Ingva Þorsteinssyni fararstjóra, alls 50 manna hóps, sem voru í ferðinni.

Þriðjudagur 22. ágúst: Lagt var upp frá Reykjavíkurflugvelli með þotu Færeyska flugfélagsins. Eftir 2 klukkustundir og 20 mínútur er lent í Narsarsuaq. Ekki er húsrými nægilegt á hótelinu og skipta verður hópnum. Yngra fólkið í hópnum þarf að sofa í svefnpokum við frumlegri aðstæður í ferðamannaskála. Veitingasalir hótelsins eru vel úr garði gerðir og nýtur hópurinn þar ríkulega góra veitinga, steiktur lax er  á borðum og sorbet ís á eftir, kaffi og ljúfar veigar.

Miðvikudagur 23. ágúst: Rúta flytur fólk að bryggju í tveimur ferðum. Tveir litlir bátar bíða ferjuflutnings yfir til Brattahlíðar. Siglingin tekur um 20 mínútur. Frá bryggju er gengið undir leiðsögn Ingva og skoðaðar rústir af bæ Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkja, sem hafði verið vígð um sumarið. Stytta af Eiríki rauða trónir hátt uppi á kletti. Til baka til Narsarsuaq er komið skömmu eftir hádegi og bíður þar farkostur okkar næstu daga. Þetta er nýtt skip, fallegt og vel búið að öllu leyti. Salurinn rúmar 60 manns með góðu móti. Siglt er milli ísjaka með ævintýralegum litbrigðum frá hvítu í grænt og djúpblátt og skúlptúra gerða af meistarhöndum. Siglingin út Eiríksfjörð til Narssaq tekur 2 og hálfan tíma. Í Narssaq sem telur um 1800 íbúa er stansað um stund og bærinn skoðaður. Landfestar leystar klukkan 16 og siglt til næsta náttstaðar sem er bærinn Qaqortoq með um 3300 íbúa og í reynd skólabær Grænlands. Gisting er í sjómannaheimilinu, heimavist og raðhúsabyggingu.

Fimmtudagur 24. ágúst: Eftir morgunverð er lagt af stað til fundar við ísinn og jökulinn við Breiðafjörð. Veðrið er ekki eins bjart og í gær, enn er þó stafalogn en rigining og þoka. Þegar komið er að jöklinum er settur niður léttabátur og hann látinn mynda landgöngubrú við jökulinn og gengið úr skipi yfir bátinn og beint á klöppina! Að jökulgöngu lokinni er siglt í snertifjarlægð meðfram jökulberginu á alkyrrum sjó. Síðan er siglt til Qaqortoq og höndlað með skinnfatnað og fagra muni. Við eigum stefnumót við Ingva fararstjóra við kirkju Grænlendinga. Garðar Cortes leikur á orgelið og leiðir söng. Síðan er farið til dönsku kirkjunnar  og hlýtt á messu. Um kvöldið er grænlenskur matur snæddur, svart og hvítt selspik, hvalkjöt og fleira góðgæti.

Föstudagur 25. ágúst: Stefnan er tekin á Hvalsey og tekur siglingin tvo tíma. Fólki er ferjað í land i átta ferðum og gengið að rústum steinkirkjunnar fornu, þar sem Ingvi færir okkur í heim sögunnar. Síðan er siglt til Qanisartuut, vatnalandsins. Sumir grípa til veiðarfæra, aðrir ganga um og njóta útsýnisins. Stefnan er síðan tekin að Görðum og gengið að rústum dómkirkjunar og rifjuð upp sagan, sem varpar ljósi á hið mikla veldi sem hér var á öldum áður.

Laugardagur 26. ágúst: Síðasti dagur ferðarinnar er runninn upp. Við kveðjum Garða og göngum upp brattann og yfir eiðið til Eiríksfjarðar. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund, en farangur er fluttur á bíl. Þegar yfir er komið slaka menn á meðan beðið er komu skipsins, sem flytur okkur til Narsarsuaq, þar sem flugvélin bíður.

 

2004, 29.júlí – 7. ágúst:
N.-Dakóta og Kanada á Íslendingaslóðum
,

Ameríkuferðirnar, flótti Íslendinga frá harðindum og örbirgð hófust um 1855, náðu hámarki á árunum 1870-1890, en komið var fram yfir 1910 þegar draga fór úr vesturferðum. Eitthvað er á reiki um þann fjölda sem fór, en áætlað er að 16 þúsund séu nærri lagi. Það er stór hópur í ljósi þess að þegar tímabili vesturferða lauk 1914, var mannfjöldi á Íslandi aðeins 88.076. Hámarki náðu þessir fólksflutningar árið 1887; þá fóru tæplega 2 þúsund manns. Það mun vandfundinn sá Íslendingur, sem ekki getur fundið skyldmenni á þessum fjarlægu slóðum. Sögu- og menningarleg tengsl við erlenda menn verða varla nánari.

Sameiginleg ferð Rótarýklúbbanna í Kópavogi, RK og Borga, alls 88 manns að mökum meðtöldum. Auk þess 3 fararstjórar: Jónas Þór, Steinar Almarsson og Kent Lárus Björnson.

14-1-Heckla-island-038

Hópurinn, sem fór í hina ógleymanlegu ferð á Íslendingaslóðir í Kanada, stillti sér upp við vatnið í heimsókn til Heckla Island.


Fimmtudagur 29. júlí: Brottför til Minneapolis með FI653. Kent Lárus Björnson tók á móti hópnum. Ekið í tveimur langferðabílum áleiðis tl N.-Dakóta og gist á Days Inn í Alexandria MN.

Föstudagur 30. júlí: Runestone Museum í Alexandria skoðað. Hádegisverður í Moorehead/Fargo. Síðan haldið til Grand Forks, N.-Dakóta. Gist á Roadking Inn.

Laugardagur 31. júlí: Ekið til Mountain, þar sem mikil skrúðganga hófst kl 10:30. Eftir hádegi hófst samkoma við dvalarheimilið Borg og að henni lokinn var farið í kynnisferð um Íslendingabyggðir. Komið við að stað Thingvallakirkju og minnismerkjum um Káinn og Stephan G. Stepahansson. Hátíðarsamkom á dvaralheimilinu Borg og að því búnu ekið til Winnipeg. Gist þar næstu 5 nætur á Delta Hotel.

Sunnudagur 1. ágúst: Frídagur í Winnipeg.

Mánudagur 2. ágúst: Íslendingadagurinn í Gimli. Tekið þátt í hinum ýmsu viðburðum dagsins. Hátíðardagskrá í Gimli Park. Á leiðinni til baka komið við hjá „White Rock“ minnisvarða um landtöku landnemanna 21. október 1875.

Þriðjudagur 3. ágúst: Farið í kynnisferð um „Nýja Ísland“ – Gimli, Arnes, Riverton og Mikley (Hecla Island). Hádegisverður í Gull Harbour á Mikley. Viðkoma í Gimli á leið aftur til Winnipeg. Rótarýfundur í Gimli. Ræðumaður Stefan J. Stefanson.

Miðvikudagur 4. ágúst: Dagsferð um Íslendingabyggðir í nágrenni Lundar við Manitobavatn. Komið til Lundar og Johnson´s farm heimsótt. Síðan ekið að vatninu. Hádegisverður í golfskála-byggðasafninu í Lundar og kaffisamsæti í samkomuhúsinu. Síðan ekið aftur til Winnipeg.

Fimmtudagur 5. ágúst: Haldið aftur til Minnesota. Hádegisverður í Grand Forks. Gist í Bemidji nálæt upptökum Missisippi-árinnar. Farið að Lake Itasca og „vaðið yfir“ Missisippi. Gist á Northern Inn í Bemidji.

Föstudagur 6. ágúst: Ekið til Minneapolis/St.Paul með viðkomu í Duluth. Hádegisverður í Duluth með John Bergson og öðrum heimamönnum.  Gist á Days Inn við hliðna á Mall of America.

Laugardagur 7. ágúst: Dagur í Minneapolis og flogið heim um kvöldið. Komið til Keflavíkur að morgni 8. ágúst kl 0620.

 

2007, 3.-8. október:  Á slóðum Duggara og konunga

Söguleg tengsl Íslands við áfangastaði ferðarinnar tengjast einkum frönskum fiskimönnum, sem á skútum sínum veiddu í áratugi þorsk á Íslandsmiðum. Augljósust dæmi þar um má finna á Fáskrúðsfirði á "Frönskum dögum", sem haldnir eru árlega. Svo hefur einnig verið bent á dökkt yfirbragð fólks í þeim landshlutum, þar sem frönsku fiskimennirnir komu helst í land!

Geta má þess að góð tengsl eru á milli Paimpol og Grundarfjarðar. Vináttufélag þessara bæjarfélaga heitir "Grundapol" sem er samsett ú nöfnum beggja bæja.

Bayeux refillinn sem geymdur er í Bayeux safninu í samnefndum bæ er 70 metra langur og ofinn sennilega um 1070 til 1077. Þar greinir frá innrás Vilhjálms sigurvegara í England, orrustan við Hastings 1066, fall Haraldar Godvinssonar konungs og krýningu Vilhjálms sigurvegara. Þessi innrás í England var sú síðasta sem hefur heppnast í það land.

Þetta var sameiginleg ferð Rótarýklúbbs Kópavogs og Rótarýklúbbsins Borga, alls um 90 manns að mökum meðtöldum. Þeir Benjamín Magnússon og Friðbert Pálsson voru fulltrúar RK við skipulagningu ferðarinnar, en Marteinn Sigurgeirsson og Þóra M. Þórarinsdóttir fyrir Borgir . Í Frakklandi voru Laufey Helgadóttir, fararstjóri, ásamt dönskum samstarfsmanni með hópnum í 5 daga.

Paimpol-kirkjugardur

Í safninu um Íslandssjómennina í Paimpol var sagt frá því að úr þessum bæ hefðu drukknað eða látist við Íslandsstrendur nær 2000 franskir sjómenn á árunum 1835 – 1920.  Í kirkjugarðinum við kirkjuna þar sem þeir sóttu Guðsþjónustu áður en haldið var á Íslandsmið má sjá töflur yfir á annað hundrað skip, sem farist höfðu á þessu tímabili, nöfn skipanna og hve margir hefðu farist eða bjargast í hverju tilfelli. – Einstaklega áhrifamikil stund í garðinum og kirkjunni.

Sunnudagur 3. október: Flogið til Parísar og þaðan með rútu til Caen sem er bær í Normandí, ekki langt frá þeim slóðum þar sem Bandamenn réðust á land í seinni heimstyrjöldinni.

Mánudagur 4. október: Bæjuteppið (Bayeux) svokallaða heimsótt en það sýnir mjög merka sögu. Að því loknu ekið til hinnar undursamlegu eyju Saint Mont Michel. Í lok dags ekið til Perros Guirec sem er skammt frá Paimpol sem er þekkt fyrir útgerð Franskra Duggara á Íslandsmið. Þar var gist í 2 nætur.

Þriðjudagur 5. október: Farið til Paimpol sem er frægur fiskimannabær og einnig þekktur fyrir að þaðan réru Frakkar á Íslandsmið á árum áður. Um kvöldið veisla (Une soirée paimpolaise) í Paimpol með skemmtiatriðum sem Íslendingafélagið í Paimpol aðstoðaði okkur með.

Fimmtudagur 6. október: Ekið til Versala og gist rétt fyrir utan París. Á leiðinni vínsmökkun á frönskum eðaldrykkjum.

Föstudagur 7. október: Skoðunarferð um Versali. Þar gefst fólki tækifæri til að skoða bæði eitthvað af höllunum og garðana. Hádegið er ekki skipulagt, þannig að þeir sem vilja skoða betur söfn, hallir og garða þar gefst betri tími til þess. Farið frá Versölum til Reims- hjarta kampavínshéraðsins. Komið við í kampavínskjallara og smakkað á þeim konunglegu drykkjum sem þar eru framleiddir. Hátíðakvöldverður í Reims.

Laugardagur 8. október: Ekið út á flugvöll, CDG og flogið heim með Icelandair. Lending í Keflavík síðdegis.


2012, 1.-7. júlí: Skemmti- og söguferð til Þýskalands og Póllands

Farin var skemmti- og söguferð til Þýskalands og Póllands,
dagana 1. til 7. júní 2012. Fararstjóri var Þorleifur Friðriksson
sagnfræðingur. Hann reyndist mjög ljúfur fróður og skemmtilegur fararstjóri.


Dagur 1:

  Haldið var til Berlínar og lent þar kl. 6,00 að morgni dags. Þar
sem að austrið mætir vestrinu. Farin var könnunarferð með rútubíl um Berlín.
Við skönnuðum söguslóðir sem eitt sinn voru austantjalds og vestan.
Síðan komum við okkur fyrir á hóteli, eftir hæfilega hvíld þar, var haldið í
borgarrölt.

Dagur 2:  Haldið til hinnar undurfögru Hansaborgar Wroclaw (Breslá) (350km)
Við ókum um byggðir Sorba, einnar af mörgum "hulduþjóða" Evrópu. Síðan var
ekið sem leið lá til Hótel Polonía í Wroclaw fegin hvíldinni eftir langan
dag.

Dagur 3:  Skoðunarferð um borgina. Wroclaw er miðalda- og barokkborg sem á
rætur að rekja a.m.k. aftur í 9.öld.
Á fyrstu árum kristni í Póllandi var biskupssetri valinn staður. Elsti hluti
borgarinnar stendur á Dómkirkjueyju í Óderfljóti og myndar ásamt þeim hluta,
sem stendur á Sandeyju og við gamla torgið eins og byggingarsögulegan kjarna
borgarinnar. Þessi borgarhluti er perla fyrir hvern þann sem hefur yndi af
því að lesa í götur og fögur hús. Flestir stílar frá 13.-20. aldar, eiga hér
sína fulltrúa þótt gotík, renesans og barokk séu mest áberandi.

Dagur 4:
Frjáls formiðdagur, þeir sem að það kjósa koma með fararstjóra í "
Panorama" undanfara kvikmyndahúsa.
Að því loknu var haldið til næstu borgar, eða Posnan (186km) Gist var á
Hótel Rzymski Posnan.

Dagur 5:
  Miðborgarrannsókn og gist á sama stað.

Dagur 6:  Ekið til Biskupin. Þessi dagur var helgaður ógleymanlegri heimsókn
til híbýla bronsaldarfólks. Í Biskupin eru einstakar minjar um lifnaðarhætti
á bronsöld. Árið 1933 fundust þar leifar húsa frá mótum bronsaldar
járnaldar. Húsin hafa verið nákvæmlega endurgerð og bregða upp mynd af
horfinni menningu sem kemur flestum mjög á óvart. Þetta var ótrúlega stórt
svæði og því mikið labb og margt fróðlegt að sjá.
Að lokinni þessari heimsókn var ekið aftur áleiðis til Berlínar og gist var
á Hótel Intercity í Frankfurt Oder  (289 km).

Dagur 7
: Haldið til Berlínar með viðkomu í hinum illræmdu fanga- og
útrýmingarbúðum nasista, Sachsenhausen (Leifur Muller var þar fangi) Fyrir
ferðina var fólk kvatt til þess að lesa bókina Býr Íslendingur hér, til þess
að fá smá innsýn í allan þann hrylling, sem að þar átti sér stað á
stríðsárunum. Síðan var flogið heim aftur frá Berlín kl. 22,15 þann 7.6.

Og eftir því sem að ég best veit vorum við öll, sæl og glöð með velheppnaða
og ánægjulega ferð. Eina sem að skyggði á, var hvað fáir Rótarýfélagar sáu sér fært að koma með í þessa, svo mjög skemmtilegu ferð.

Alls 9 Rótarýfélagar ásamt mökum, komu með í ferðina eða 18 samtals, einnig
komu með 8 gestir.

Fyrir hönd ferðanefndar Rótarýklúbbs Kópavogs
Jón Emilsson.


2015, 1.-5. október: Á sagnaslóðum í Skotlandi


Titill ferðarinnar var„Á sagnaslóðum í Skotlandi – skylt er að hafa það sem skemmtilegra reynist“

Fararstjóri varMagnús Jónsson. Fróður mjög um sögu Skotlands og afskipti norrænna manna á þessum slóðum.

Farið var í vestur og norður til Dalriada á slóðir MacDonaldanna um Fort William og gist í tvær nætur í þorpi við brúnna út á Isle of skye. Heimsóttum m.a. safn og gerðum stuttan stans í Port Ree.

Þá var ekið meðfram Loch Ness og kastallinn Balawil House (Eilean Donan) skoðaður. Stoppað var við Urquhart kastallarústir o.fl. Gist í Inverness og rölt um bæinn.

Síðasta daginn var gist í Edinborg og þá var frjáls tímil. Daginn eftir var keyrt til Glasgow, komið við í dómkirkjunni og hún skoðuð. Síðan lá leiðin út á flugvöll og heim.

 




Baksvið er Balawil House sem var aðalsvið í sjónvarpsþáttunum „Hálendahöfðinginn“ sem sýnd var hjá RUV fyrir nokkrum árum.

Fólkið á myndinni (talið frá vinstri): Brynja R. Guðmundsdóttir, Erla Eggertsdóttir, Hafsteinn Skúlason, Ingólfur Antonsson, Sigríður Haraldsdóttir, Sigurjón Sigurðsson, Hafdís Karlsdóttir, Jón B. Höskuldsson, Jóhann Árnason, Elín Jóhannsdóttir, Margrét Friðbergsdóttir, Sigfinnur Þorleifsson, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Bergþór Halldórsson, Berta Bragadóttir, Svava Haraldsdóttir, Guðmundur J. Þorvarðarson, Magnús Jónsson fararstjóri, Anna Þorsteinsdóttir, Guðbergur Rúnarsson, Halldóra Gísladóttir, Eiríkur Líndal.


Hér að neðan er ferðaáætlunin:

1-2 dagur.   Reykjavík -  Glasgow - Isle of Skye

Eftir flug til Glasgow liggur leiðin framhjá Dumbarton Rock, ævafornu keltnesku virki.  Ólafur hvíti, hinn mikli sækonungur og maður Auðar djúpúðgu braut virkið undir sig um 870 og hneppti óhemju marga landsmenn í ánauð, sem minnir okkur á upphaf landnáms Íslands.  Leiðin liggur meðfram Loch Lomond og norður um Dalriada en á því svæði hóf Kenneth McAlpín á 9. öld baráttu fyrir „sameiningu” Skotlanlands.  Í  Glencoe misnotuðu liðsmenn af Campbell-ættinni sér gestrisni MacDonaldanna árið 1692, tóku alla karlmenn af lífi en ráku konur og börn út á guð og gaddinn.  Úti fyrir vesturströndinni liggja Suðureyjar, þar  kom Kári Sölmundarson Njálssonum til bjargar á ögurstundu.  Skye er einstaklega falleg og jarðfræðilega merkileg eyja og þar koma hinar þekktu skosku ættir MacLeod og MacDonald mikið við sögu. Báðar ættirnar rekja uppruna sinn til norrænna manna og kann Leod að vera dregið af Ljótur og ættin kennd við syni Ljóts.  Hinn glæsilegi Dunvegan-kastali hefur verið höfuðsetur MacLeodanna um sjö hundruð ár. Þar er safn og margir merkir gripir. Ef til vill er hið svokallaða „Fairy Flag“ hvað þekktast, rök hafa verið færð fyrir því að þar sé komin Landeyðan, hinn frægi gunnfáni Haralds konungs harðráða. Eftir ósigur Skota gegn Englendingum við Culloden um miðja 18. öld smyglaði Flora MacDonald hinum skoska Bonnie Prince Charlie, dulbúnum sem þjónustustúlku yfir til Skye. Þaðan komst prinsinn við illan leik undan herjum Englendinga í öruggt skjól til Frakklands, en Flora var hneppt í varðhald og flutt til London. Eftir Culloden varð gríðarleg breyting á skosku samfélagi og við rifjum upp „The Highland Clearances“, þegar landeigendur hröktu leiguliða sína á brott til að geta stundað sauðfjárrækt og ullariðnað á öllu landi sínu.  Enn í dag má sjá yfirgefna dali og grasigróin tún sem bera vitni um þessa sorgarsögu.  Í Kilmuir, þar sem Flora var jörðuð skoðum við ágætt byggðarsafn, The Skye Museum of Island life. Gist í tvær nætur í Lochhals rétt við Skye.

3. dagur.   Isle of Skye - Inverness

Á leiðinni norður um skosku Hálöndin skoðum við Eilean Donan kastala, höldum, meðfram Loch Ness, hugum að skrímslinu Nessie.  Rétt fyrir norðan Golsbie skoðum við ævafornt virki, Cairn of Liath, slík virki eða broch, eins og þau eru almennt kölluð, voru reist fyrir u.þ.b. 2000 árum.  Við minnumst þess, að aðeins norðar í Skotland, þar sem Katanes heitir, hélt Auður djúpúðga eftir fall Ólafs hvíta, Ketils flatnes föður síns og Þorsteins rauðs sonar síns og Ólafs til Íslands í leit að nýrri framtíð. Við höldum til Inverness, höfuðborgar Hálandanna, þar stóð kastali Mackbeths og þar gistum við næstu nótt.  

4. dagur.       Inverness – Edinborg

Á Culloden heiði, rétt austan við Inverness var síðasta stórorusta háð á breskri grund, árið 1746. Skotar biðu lægri hlut fyrir herjum Englendinga og mannfall þeirra var gríðarlegt en foringinn, Bonnie Prince Charlie komst undan á flótta. Í Culloden er einstakt safn.  Á leiðinni suður rifjum við upp sjálfstæðisbaráttu Skota.  Sól Williams Bravehart Wallace reis hátt eftir glæstan sigur á Englendingum við Stirling Bridge árið 1297 en gekk hratt til viðar eftir ósigurinn við Falkirk ári síðar.  Í framhaldi af sigri Skota undir stjórn Roberts Bruce á Englendingum við Bannockburn 1314 gengu Skotar og Englendingar að samningaborðinu og sjálfstæði Skota var viðurkennt en átökum við Englendinga var síður en svo lokið og við rifjum upp sögu Stuartanna, hinna skosku og ensku konunga.  Gist í Edinborg.

5. dagur.       Edinborg - Glasgow - Reykjavík

Ekið á flugvöllinn við Glasgow og flogið heim upp úr hádegi.


Ferdaaaetlun-Rotary-2015---Thyskaland