Saga klúbbsins

Saga Rótarýklúbbs Héraðsbúa

 

 

Aðdragandi að stofnun Rótarýklúbbs Héraðsbúa

 

Fyrsta fundargerðarbók klúbbsins hefst á eftirfarandi frásögn:

Að kvöldi hins 22. október 1965 komu saman í barnaskólanum í Egilsstaðakauptúni nokkrir borgarar úr Egilsstaðahreppi og nágrenni, alls 20 karlmenn.

Mættir voru frá rótarýsamtökunum í Reykjavík þeir dr. Árni Árnason, fyrrv. héraðslæknir, og Þorsteinn M. Jónsson, fyrrv. skólastjóri. Var þessi fundur haldinn að undirlagi þeirra, og ætlun þeirra var að freista þess að koma hér á Rótarýklúbbi fyrir Fljótsdalshérað. Þorsteinn M. Jónsson stjórnaði fundinum, hélt stutta inngangsræðu, en gaf síðan dr. Árna Árnasyni orðið. Tók hann til máls og rakti stuttlega sögu rótarýsamtakanna og stefnu og tilgang þeirra samtaka, greindi frá tölu rótarýklúbba í heiminum og fjölda félagsmanna, er hann taldi nú vera alls um 580 þúsund.

Þorsteinn M. Jónsson tók svo aftur til máls, skýrði frá reynslu sinni sem rótarýfélaga og mælti eindregið með stofnun slíks klúbbs hér, sem gæti orðið byggðarlaginu til menningarauka og orðið til margháttaðra þrifa fyrir það á ýmsan hátt. Var orðið síðan gefið laust og nokkrar fyrirspurnir gerðar, sem var svarað af frummælendum.

Næst var tekið til að lesa upp nöfn þeirra, sem þarna voru saman komnir, og lýstu allir fundarmenn sig fúsa að ganga í klúbbinn, að einum undanteknum. Tveir, sem fúsir voru til þátttöku, gátu ekki mætt, svo að tala þeirra, sem gengu strax í klúbbinn, varð 21.

Nú var fundur settur að nýju.   Fyrsta verkefni hins nýstofnaða klúbbs var kosning stjórnar. Þessir hlutu kosningu:

Forseti: Vilhjálmur Sigurbjörnsson
varaforseti: Einar Stefánsson
ritari: Þorsteinn Sigurðsson
gjaldkeri: Magnús Einarsson
stallari: Þráinn Jónsson

Næst var að ákveða nafn klúbbsins. Þorsteinn M. Jónsson lagði til, að klúbburinn yrði nefndur Rótarýklúbbur Fljótsdalshéraðs og var það einróma samþykkt. Ákveðið var að 300 kr. inntökugjald skyldi lagt fram þegar á fundinum, og urðu allir við því. Ennfremur var rætt um fundartíma, og var ákveðið að halda fundi á fimmtudagskvöldum kl.21-22 fyrst um sinn. Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

Næstu tvo daga, laugardag og sunnudag, bættust svo við fleiri stofnfélagar á fundi hinnar nýkjörnu stjórnar, með þeim Þorsteini M. Jónssyni og dr. Árna Árnasyni að heimili Þorsteins Sigurðssonar læknis, svo að alls urðu stofnfélagar 26.

Stofnfélagar Rótarýklúbbs Fljótsdalshéraðs urðu því eftirtaldir:

  1. Vilhjálmur Sigurbjörnsson
  2. Einar Stefánsson
  3. Þorsteinn Sigurðsson
  4. Þráinn Jónsson
  5. Magnús Einarsson
  6. Guðmundur Benediktsson
  7. Bjarni Linnet
  8. Björn Sveinsson
  9. Halldór Sigurðsson
  10. Páll Lárusson
  11. Sölvi Aðalbjarnarson
  12. Gunnar Egilson
  13. Halldór Ásgrímsson
  14. Einar Ólason
  15. Sveinn Jónsson
  16. Svavar Stefánsson
  17. Steinþór Eiríksson
  18. Jón Helgason
  19. Aage Petersen
  20. Bergur Ólason
  21. Jón Pétursson
  22. Hákon Aðalsteinsson
  23. Páll Halldórsson
  24. Páll Sigbjörnsson
  25. Vilhjálmur Emilsson
  26. Guðmundur Þorleifsson

Framangreindar upplýsingar eru skráðar af fyrsta ritara klúbbsins, Þorsteini Sigurðssyni lækni á Egilsstöðum.

 Þorsteinn læknir var systursonur Þorsteins M. Jónssonar, en báðir voru þeir fæddir og uppaldir Héraðsmenn, frá Útnyrðingsstöðum á Völlum. Eftir að Þorsteinn varð læknir í Egilsstaðahéraði, 1954, átti hann sjaldan svo leið til Reykjavíkur, að frændi hans tæki hann ekki með á rótarýfund, og er fram liðu stundir, barst æ oftar í tal milli þeirra, hvort grundvöllur væri fyrir stofnun rótarýklúbbs á Fljótsdalshéraði.

Vorið 1965 fór Þorsteinn M. Jónsson austur gagngert til þess að ræða við menn um stofnun rótarýklúbbs. Naut hann aðstoðar og fyrirgreiðslu Þorsteins læknis, sem einnig hafði undirbúið jarðveginn.

Árangur ferðarinnar varð sá, að í október sama ár var boðað til stofnfundarins, sem greint er frá hér að framan. Á stofnfundinum var klúbburinn nefndur Rótarýklúbbur Fljótsdalshéraðs, en þegar fullgildingarbréfið var afhent 17. ágúst 1966 af Sigurgeiri Jónssyni umdæmisstjóra, var klúbburinn nefndur Rótarýklúbbur Héraðsbúa og hefur haldið því nafni síðan. Rótarýklúbbur Reykjavíkur er móðurklúbbur hins nýstofnaða klúbbs á Héraði.

                              Fundarstaðir og fundartímar

Eins og fram hefur komið var stofnfundurinn haldinn í Barnaskólanum í Egilsstaðakauptúni 22. okt. 1965.

Næstu 33 fundir klúbbsins voru haldnir á heimili Sveins Jónssonar bónda á Egilsstöðum, en voru síðan fluttir í héraðsheimilið Valaskjálf, eftir að það var tekið í notkun. Fyrsti fundurinn í Valaskjálf var haldinn 7. júlí 1966. Valaskjálf var hefðbundinn fundarstaður klúbbsins í tæp 38 ár . Síðasti fundur Rótarýklúbbs Héraðsbúa í Valaskjálf var haldinn í febr. 2004.  Það var fundur nr. 1918 frá stofnun. Það lætur nærri að venjulegir fundir í Valaskjálf hafi verið um 1700 talsins. Ef meðalmæting hefur verið 15 félagar á fundi og matarverð kr. 1500 eins og það er í dag ( 2009) þá hafa félagar greitt rúmar 38 millj. fyrir matinn.  Fljótlega eftir að Héraðsheimilið Valaskjálf var selt einkaaðilum, skipti klúbburinn um fundarstað , flutti sig á Hótel Hérað.  Fyrsti hefðbundni fundurinn á Hótel Héraði var haldinn 2. mars 2004.

                                         

Fundardagur var í upphafi fimmtudagur, og þannig hélst það í 38 ár eða þar til klúbburinn flutti fundi sína á Hótel Hérað, þá færðist fundartími yfir á þriðjudaga.

Í fyrstu voru kaffifundir, sem hófust kl. 21, en fljótlega voru teknir upp kvöldverðarfundir, sem hófust kl. 19. Við flutning á Hótel Hérað færðist fundartími fram til kl.18.30.

Síðan 1993 hafa fundir á tímabilinu júní - sept. verið haldnir í hádeginu kl. 12 - 13.  Fundatími er styttri á þessum sumarfundum og fundarefni og matur venjulega af léttara tagi.

                                  Fundargerðir

Fundargerðir Rótarýklúbbs Héraðsbúa eru nú ( 2009) um  2200. Þær hafa að geyma ýmiskonar fróðleik og verða ómetanlegar heimildir , ekki aðeins fyrir klúbbinn, heldur líka fyrir Héraðið, þegar fram líða stundir. Eldri fundargerðarbækur, ásamt nokkrun erindum, sem flutt hafa verið á fundum, og fleiri gögn, eru nú í vörslu Héraðsskjalasafnins á Egilsstöðum og þangað fara slíkar heimildir með reglulegu millibili til vörslu.

                                    Fundarefni

Verkefni klúbbsins beinast fyrst og fremst að innri starfsemi, sem hefur jafnan verið lífleg, góð mæting og vönduð fundarefni. Hið talaða orð hefur ávallt verið ríkur þáttur í starfi klúbbsins og félagar öðlast þar mikilvæga reynslu í að koma fram og tjá sig í ræðustóli. Samkvæmt reglum Rótarý kynna félagar öðru hvoru sína starfgrein og þar með helstu nýjungar, ennfremur er leitast við að fá utanaðkomandi fyrirlesara til að fjalla um hvers konar áhugaverð efni. Þannig vill klúbburinn stuðla að fræðslu og upplýsingum.

Á fundum hafa oft komið fram hugmyndir um ýmis framfaramál, sem félagar hafa síðan unnið að hver á sínum vettvangi. Sem dæmi má nefna að þegar á fyrsta fundi eftir stofnfund, eða 28 okt. 1965, var rætt um menntaskólamál á Austurlandi og síðar um stofnun Styrktarfélags aldraðra á Héraði. Hvoru tveggja fékk byr undir báða vængi í framhaldi af þeirri umræðu.

Nokkrir fundir, sem í fyrstu voru afbrigðilegir frá hefðbundnum fundum, eru nú orðnir að föstum lið í starfinu. Fyrst skal nefna árshátíð, sem oftast er haldin í mars og makakvöld, sem haldin eru í apríl-maí. Makakvöldin hétu áður konukvöld, þegar félagar voru eingöngu karlar. Makakvöldin hafa um langt skeið, eða síðan um 1980, verið haldin í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað. Góð tengsl hafa myndast milli Rótarýklúbbsins og skólans. Það er nánast prófverkefni í hússtjórnarnáminu að halda veglega matarveislu fyrir Rótarýklúbbinn og gesti hans , því stærð og væntingar klúbbsins falla vel að áformum skólans og aðstöðunni þar. Rótarýfélagar og gestir þeirra hafa ávallt beðið þessa fundar, Hallormsstaðarfundar, með óþreyju. Veislum þessum verður varla með orðum lýst, þótt reyndar hafi einu sinni verið gerð tilraun til þess:

Mætti ég prísa matinn góða,

er meyjarnar vildu okkur bjóða. 

Ljúflega rann um munn og maga, mittið  á eftir þyrfti að laga,                          

í vikunni á eftir varla þarf að sjóða.

Inn á milli rétta er gjarnan skotið einhverjum gamanmálum og fastur liður er að votta nemendum þakklæti með því að færa þeim rós ásamt því að syngja saman Hallormsstaðarbrag, sem Hákon Aðalsteinsson, fyrrum félagi, samdi sérstaklega fyrir þetta tilefni. Að sjálfsögðu fá allir nemendur afrit af Hallormstaðarbrag Hákonar.

 Árið1980 bauð þáverandi forseti klúbbsins, Ragnar Ó Steinarsson  til fundar á heimili sínu milli jóla og nýjárs. Á boðstólum voru léttar veitingar en stallari tók við frjálsum framlögum sem runnu til Rótarýsjóðsins. Þetta hefur síðan orðið árlegur viðburður og kallast  "hungurfundur", sem er algjört öfugmæli, og margir vilja frekar kalla þetta jólafund. Þarna safnast drjúg upphæð í Rótarýsjóðinn sem hjálpar klúbbnum til að standa sig vel gagnvart sjóðnum og ávinna sér rétt til að útnefna Poul Harris-félaga . Þegar umdæmisstjóri Ellen Ingvadóttir heimsótti klúbbinn 21. okt. 2008,  færði hún klúbbnum fána frá stjórn Rótarýsjóðsins, sem viðurkenningu fyrir að vera með þriðja hæsta framlag til sjóðsins á síðasta starfsári, miðað við fjölda félaga.    

Heimsókn umdæmisstjóra er viðburður sem ástæða þykir til að halda uppá með því að efna til hátíðafundar. Þá bjóða félaga mökum sínum á fund.   

Um árabil  sá klúbburinn ,ásamt öðrum félagasamtökum í bænum, um að halda jólatrésskemmtun á Egilsstöðum og kvöldvökur fyrir aldrað fólk á sjúkrahúsinu. Þetta hefur nú lagst af eins og "Venslamannafundurinn" , sem um skeið var haldinn á sumardaginn fyrsta en hefur að undanförnu þótt rekast á við aðra skipulagða dagskrá.

                                        Vinnustaðafundir

Margir félagar hafa boðið upp á klúbbfundi á sínum vinnustað, eða fengið inni hjá öðrum fyrirtækjum, þar sem starfsemin hefur verið kynnt í leiðinni. Segja má að flestöll stærri fyrirtæki og stofnanir á Egilsstöðum hafi verið heimsótt og sum oftar en einu sinni, m.a. Héraðsprent, sem margoft hefur boðið félögum í heimsókn, t.d. í tengslum við árshátíðir. Sérstaklega minnisstæðir eru nokkrir vinnustaðafundir vegna einstakra aðstæðna. Einn þeirra var haldinn í Oddsskarði, skömmu eftir að sprengingu jarðgangna lauk. Fór þar fram fyrsta úttekt á verkinu, en verktakinn var klúbbfélagi, Kjartan Ingvarsson. Annar minnisstæður fundur var haldinn um borð í  úthafsveiðiskipinu Vydunas, frá Litháen, sem þá lá við bryggju á Reyðarfirði. Fundir voru haldnir í vinnubúðum Arnarfells við Kárahnjúka og farið ofan í hjáveitugöng við stífluna. Annar fundur í vinnubúðum Landsvirkjunar í Fljótsdal og þá farið inn í fjallið þar sem stöðvarhúsið er og út um afrennslisgöngin og þriðji fundurinn í tengslum við Fljótsdalsvirkjun var í vinnubúðum við Hraunaveitu og þá farið inni í frárennslisgöng frá Keldárlóni. 

                                 Samskipti við aðra klúbba.

Rótarýklúbbur Héraðsbúa hefur alltaf haft gott samband við Rótarýklúbb Neskaupstaðar. Þessir tveir klúbbar hafa skipst á að bjóða hvor öðrum í vináttuheimsóknir, yfirleitt árlega, ásamt mökum. Oft hafa verið haldnar sameiginlegar árshátíðir. Sameiginlegu árshátíðirnar hafa ekki bara verið haldnar á Egilsstöðum eða Neskaupsstað, heldur á ýmsum stöðum á Austurlandi t.d. á Reyðarfirði, Iðavöllum og Svartaskógi. Eins hafa félagar úr þessum klúbbum stofnað til sameiginlegra ferðalaga, t.d. rútuferða um hálendisvegi og siglinga um Norðfjarðarflóa.Árið 1971 settu þessir klúbbar í sameiningu upp útsýnisskífu á Fjarðarheiðarbrún

Í nokkur skipti hefur klúbburinn tekið þátt í sameiginlegum fundi með rótarýklúbbum á Norðurlandi , m.a. Húsavík, Akureyri, Ólafsfirði og í Mývatnssveit.

Klúbburinn hefur ekki beint samband við erlenda klúbba en oft koma erlendir rótarýfélagar sem gestir á fundi klúbbsins, einkum á sumrin og þá er gjarnan skipst á klúbbfánum..

Flestir hópar sem koma til landsins á vegum Rótarý koma við á Egilsstöðum og fær klúbburinn þá það verkefni að taka á móti þeim, halda þeim fund og sjá þeim fyrir gistingu og mat, oftast á heimilum klúbbfélaga. Eftirminnilegar eru heimsóknir hópa frá Texas og Ástralíu auk skógræktarfólks frá norðurlöndum. Sumarið 2007 kom vélhjólaklúbbur Rótarýmanna á Norðurlöndum IMFR-NORDEN með Norrænu til Seyðisfjarðar og fór hringinn um Ísland. Þegar vélhjólamennirnir komu niður af Fjarðarheiði var þeim beint í Sigfúsarlund, gróðurlund Rótarýmanna við Egilsstaði, og klúbburinn bauð þar upp á veitingar.

                                       Ýmis viðfangsefni

Viðfangsefni klúbbsins hafa verið fjölbreytt, þótt sýnileg verkefni séu e.t.v. ekki mjög mörg.

 Áður hefur verið minnst á útsýnisskífu á Fjarðarheiðarbrún, sem Klúbbarnir á Héraði og Neskaupsstað gáfu árið 1971 og settu niður í sameiningu.

Rótarýklúbbur Héraðsbúa gaf peningaupphæð til kaupa á kirkjuklukkum í Egilsstaðakirkju á víxluári kirkjunnar árið 1974, til minningar um fyrsta forseta klúbbsins Vilhjálm Sigurbjörnsson.

 Árið 1975 setti klúbburinn áletraðan skjöld á Gálgaklett, en á þeim stað var framkvæmd síðasta henging á Íslandi, er Valtýr á grænni treyju var tekinn af lífi. Gálgaklettur er nú inni í miðju Egilsstaðaþorpi. 

Á 40 ára afmæli Egilsstaðabæjar 1984,  gaf klúbburinn íþróttafélaginu Hetti félagsfána, og einnig unnu klúbbfélagar að söfnun örnefna á svæðinu, sem nú er óðum að byggjast upp beggja vegna Lagarfljóts. Örnefnakortið var svo gefið út á afmælisárinu 1984. Einnig tók klúbburinn þátt í að koma fyrir útsýnisskífu á Bóndastaðahálsi í Hjaltastaðaþinghá.

Klúbburinn hefur oft tekið á móti erlendum skiptinemum. Þeir hafa dvalið á heimilum Rótarýfélaga tilskilinn tíma, sem venjulega er eitt ár. Þeir hafa stundað nám við ME og að því loknu stundað sumarvinnu hér. Ein bandarísk stúlka sem hélt heim að loknu skiptinemaári sínu hér, eins og lög gera ráð fyrir, kom aftur og lauk stúdentsprófi við ME. Síðan lauk hún kennaraprófi, giftist Héraðsmanni og býr nú á Egilsstöðum, tveggja barna móðir, kennari og áhugasöm um allt sem íslenskt er.

Á sama hátt hafa allmörg ungmenni héðan farið erlendis á vegum klúbbsins og stundað nám, aðallega til Bandaríkjanna, undir handleiðslu þarlendra Rótarýklúbba. Af þessu hefur skapast gagnkvæm vinátta og tengsl.

                                      Sigfúsarlundur

Eitt af verkefnum klúbbsins var að girða og gróðursetja trjáplöntur í landsspildu rétt utan við Eyvindarána. Reiturinn er kallaður Sigfúsarlundur, en hann er umhverfis minnisvarðann um Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritara. Á hverju vori er haldinn vinnufundur í Sigfúsarlundi. Þá eru snyrt tré og stígar, borin viðarvörn á nestisborð og unnin nauðsynleg viðhaldsverk.

                      Umdæmisþing og verðlaunasjóður

Umdæmisþing var haldið á Hallormsstað 1976, og sá Rótarýklúbbur Héraðsbúa um framkvæmd þess, en félagi í klúbbnum, Gissur Ó. Erlingsson, var þá umdæmisstjóri.

Í júní 1997 sá Rótarýklúbbur Héraðsbúa aftur um að halda umdæmisþing Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi og nú var þingið haldið á Egilsstöðum. Það setti svip á þingið að það tengdist hátíðahöldum í tilefni 50 ára afmælis Egilsstaðabæjar. Umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi starfsárið 1996-1997 var Jón Pétursson, héraðsdýralæknir og stofnfélagi í Rótarýklúbbi Héraðsbúa, en sú hefð ríkir að klúbbur umdæmisstjóra sér um að halda umdæmisþingið í lok starfsársins.

Framkvæmd umdæmisþingsins gekk afar vel og þegar upp var staðið skilaði það dágóðum hagnaði. Í farmhaldi af því var stofnaður "Þjóðhátíðarsjóður Rótarýklúbbs Héraðsbúa" . Þar segir í 5.gr.: " Tilgangur sjóðsins er að veita einstaklingi, félagi eða fyrirtæki viðurkenningu fyrir farmúrskarandi afrek, þjónustu eða frumkvæði í einhverri mynd, á félagssvæðinu." Úthlutað er úr sjóðnum árlega 17. júní, í fyrsta sinn árið 2000.

           Fáni klúbbsins, fundarhamar og ræðupúlt

Fáni klúbbsins er blár, með gylltri mynd af skreytingu á Valþjófsstaðahurðinni. Valþjófsstaðahurðin er einn þekktasti íslenski forngripurinn. Á framhlið hurðarinnar eru tveir útskornir hringlaga fletir. Í efri hringnum er mynd sem sýnir kunna riddarasögu( riddarinn og ljónið).  Þar sést dreki sem hefur klófest ljón en er veginn af riddara. Ljónið fylgir riddaranum uns hann deyr, leggst þá á leiði hans og bíður dauðans. Það er mynd af þessu listaverki sem prýðir fána klúbbsins. Valþjófsstaðahurðin er á Þjóðminjasafninu í Reykjavík, en eftirlíking af henni er í Valþjófsstaðakirkju. Þá hurð smíðaði Halldór Sigurðsson, listasmiður og bóndi á Miðhúsum. Halldór var félagi í Rótarýklúbbi Héraðsbúa og smíðaði ræðupúlt og fundarhamar klúbbsins, hvorutveggja kjörgripir. Þess má geta að Halldór smíðaði einnig fundarhamar, sem Rótarúklúbbur Héraðsbúa gaf Rótarýklúbbinum Straumi í Hafnarfirði í tilefni af stofnun hans. Fundarhamarinn var afhentur á umdæmisþinginu á Egilsstöðum 1997 og veitti fyrsti forseti Straums, Óskar Valdimarsson, honum viðtöku.

                                            Konur í klúbbnum

Árið 2000 gerðust konur félagar í klúbbnum í fyrsta skipti frá stofnun.

Auður Anna Ingólfsdóttir, hótelstjóri  og Herdís Hjörleifsdóttir, félagsmálastjóri voru báðar teknar í klúbbinn 17. febr. 2000. Síðar sama ár gengu í klúbbinn Jóhanna Sigmarsdóttir, prestur á Eiðum og Jóhanna Guðmundsdóttir, bókari. Aðeins ein þeirra, Jóhanna Guðmundsdóttir,er ennþá félagi í klúbbnum, Jóhanna var forseti klúbbsins 2007-2008, fyrst kvenna. Nú (2009) eru auk Jóhönnu tvær konur félagar í klúbbnum, Anna Sigríður Karlsdóttir og Jarþrúður Ólafsdóttir.

 Heiðurfélagar frá stofnun:  Þeir sem hlotið hafa titilinn "heiðursfélagi " eru nú (2009) allir látnir en það eru : Sveinn Jónsson, Björn Sveinsson, Helgi Gíslason, Þorsteinn Sigurðsson og Þráinn Jónsson.

Eftirtaldir hafa verið kjörnir Poul Harris - félagar:

1997 : Jón Pétursson og Þráinn Jónsson

2000 : Jón Atli Gunnlaugsson og Vilhjálmur Einarsson

2003:  Hjálmar A Jóelsson og Þráinn Skarphéðinsson

2012:  Ingólfur Arnarson og Sigurður Eymundsson


Forsetar klúbbsins frá upphafi:

1966-1967:  Vilhjálmur Sigurbjörnsson                1967-1968:  Halldór Sigurðsson

1968-1969:  Sveinn Jónsson                                1969-1970:  Jón Pétursson

1970-1971:  Þorsteinn Sigurðsson                        1972-1973:  Sigurjón Fjeldsted

1972-1973:  Magnús Einarsson                           1973-1974:  Þráinn Jónsson

1974-1975:  Gissur Ó Erlingsson                          1975-1976:  Björn Sveinsson

1976-1977: Jón Kristjánsson                                 1977-1978:  Svavar Stefánsson

1978-1979:  Páll Halldórsson                                1979-1980:  Helgi Gíslason

1980-1981:  Ragnar Ó Steinarsson                       1981-1982:  Kjartan Ingvarsson

1982-1983:  Reynir Sigurþórsson                          1983-1984:  Hjálmar A Jóelsson

1984-1985:  Jón Atli Gunnlaugsson                      1985-1986:  Steinþór Eiríksson

1986-1987:  Þráinn Skarphéðinsson                    1987-1988:  Vilhjálmur Einarsson

1988-1989:  Bjarni Björgvinsson                           1989-1990:  Ingólfur Arnarson

1990-1991:  Sigurður Símonarson                        1991-1992:  Þorsteinn Gústafsson

1992-1993:  Hermann Níelsson                             1993-1994:  Þráinn Jónsson*

1994-1995:  Jón Pétursson*                                  1995-1996:  Guðni Nikulásson

1996-1997:  Hjálmar A Jóelsson*                          1997-1998:  Helgi Gíslason

1998-1999:  Jón Atli Gunnlaugsson*                    1999-2000:   Þráinn Skarphéðinsson*

2000-2001:  Sigurður H Pálsson                           2001-2002:  Sigurður Eymundsson

2002-2003:  Eyþór Elíasson                                   2003-2004:  Ingólfur Arnarson*

2004-2005:  Björn Ingvarsson                                2005-2006:  Sigurjón Bjarnason

2006-2007:  Vilhjálmur Einarsson*                        2007-2008:  Jóhanna Guðmundsdóttir

2008-2009:  Sveinn Jónsson                                 2009-2010  Ársæll Þorsteinsson

2010-2011    Hjálmar Jóelsson*                             2011-2012  Anna Sigríður Karlsdóttir

2012-2013   Jarþrúður Ólafsdóttir                          2013-3014 Þráinn Skarphéðinsson*

2014-2015 Ævar Orri Dungal                                  2015-2016 Sigurjón  Bjarnason*

2016-2017  Eyþór Elíasson*                                   2017-2018 Ingólfur Arnarson*

2018-2019 Jónas Þór Jóhannsson                         2019-2020 Ásdís Helga Bjarnadóttir

* Hafa verið forsetar áður

Fjöldi klúbbfélaga hefur ávallt verið á bilinu 20-30 og er nú 23 [2009].  Núverandi stjórn [2009] skipa:

Sveinn Jónsson, forseti
Ársæll Þorsteinsson,varaforseti
Anna Sigríður Karlsdóttir, ritari
Jarþrúður Ólafsdóttir, vararitari
Sigurjón Bjarnason, gjaldkeri
Methúsalem Einarsson, stallari
Jóhanna B. Guðmundsdóttir, fyrrv. forseti