Fréttir

6.3.2012

Fáskrúðsfjörður

Þrándur í Götu
Laugardaginn 3. mars fór Rótarýklúbbur Héraðsbúa í ferð til Fáskrúðsfjarðar.


Laugardaginn 3. mars fór Rótarýklúbbur Héraðsbúa í ferð til Fáskrúðsfjarðar. Farið var í rútu frá Egilsstöðum kl. 16 .  Í rútunni voru 14 rótaryfélagar og 6 makar.  Gísli Jónatansson kaupfélagsstjóri tók á móti hópnum  við gamla kaupfélagshúsið Tanga, sem var byggt 1887, en hefur nú verið endurbyggt á einstaklega smekklegan og listilegan hátt. Gísli sýndi húsið og rakti sögu þess  og verslunarsögu Fáskrúðsfjarðar frá upphafi til dagsins í dag. Síðan var ekið um bæinn og skoðaðar minjar um bækistöðvar franskra sjómanna í Fáskrúðsfirði seinnihluta 19. aldar og fram á þá 20. þ.á.m. læknishúsið (1907) , franska spítalann (1903-1904),  sem nú er verið að endurbyggja og grafreitinn þar sem 40 franskir sjómenn hvíla.  Loðnubræðslan, ein sú fullkomnasta á landinu, var skoðuð og að því loknu var óvænt boðið upp á að fara um borð í eitt fullkomnasta fiskiskip á norðurslóðum „Þránd í Götu“ frá Færeyjum, sem var að landa 2.500 tonnum af loðnu . Það var ævintýri líkast að koma þar um borð og sjá tæki, tól og allan aðbúnað. Það vakti sérstaka athygli hve hreinlegt og þrifalegt var bæði í loðnubræðslunni og um borð í skipinu. Heimsókninni á Fáskrúðsfjörð lauk með dýrindis veislu í veitingahúsinu Sumarlínu þar sem Gísli hélt áfram að fræða okkur um sögu staðarins. Auk maka og bílstjóra var Guðmundur Jóelsson, rótarýfélagi í Borgum í Kópavogi gestur á fundinum. Heim á Egilsstaði var komið kl. 23 eftir mjög vel heppnaða ferð.

Gísli Jónatansson
Gísli Jónatansson kynnir félögum sögu kaupfélagsins.

Við skylvindurnar í Loðnuvinnslunni
Við skilvindurnar í Loðnuvinnslunni.

Þrándur í Götu - brúin
Í brúnni á Þrándi í Götu.

Þrándur í Götu - aðalvélin
Aðalvélin í Þrándi í Götu. - 6 MV.

Forseti með gestgjöfum
Magnús Arngrímsson, verksmiðjustjóri; Anna Sigríður forseti; Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri og Frits skipstjóri á Þrándi í Götu.


Heimsókn að Skálanesi við Seyðisfjörð.