Fundarstaðir Rótarýklúbbs Kópavogs frá upphafi

Í þau 50 ár sem Rótarýklúbbur Kópavogs hefur nú starfað hafa fundir farið fram á 3 stöðum í Kópavogi

Félagsheimili Kópavogs við Neðstutröð

Fyrsti fundur klúbbsins var haldinn 6. febrúar 1961 í Félagsheimili Kópavogs og fullgildingarhátíð fór fram á sama stað hinn 10. október sama ár.
Næstu áratugi fóru allir fundir fram svo og hátíðir klúbbsins í sölum
Félagsheimilisins, ýmist á 1. eða 2. hæð eftir því sem á stóð við rekstur
hússins. Var þetta notalegur staður og kunnu klúbbfélagar yfirleitt vel við
sig á þessum stað, staðurinn miðsvæðis og húsið stórt og lengi vel áberandi
í ásjónu Kópavogs eða allt þar til mikil byggingarumsvif hófust á miðbæjarsvæðinu
á áttunda áratug síðustu aldar.
Fundir klúbbsins fóru alla jafnan fram í hádeginu kl. 12 -13.30. Rekstraraðilar
Félagsheimilisins sáu yfirleitt um að framreiða mat á klúbbfundum,
en síðustu árin Lárus Loftsson veitingamaður. Einn klúbbfélaginn Sveinbjörn
Pétursson sá einnig oft um veitingar á stórhátíðum klúbbsins. En
árið 2007 ákvað bæjarstjórn Kópavogs sem hafði forræði á húsnæðinu að
taka salina undir skrifstofur fyrir bæinn, en skrifstofur Kópavogsbæjar voru fram að því á 3. og 4. hæð Félagsheimilisins. Lagðist þá niður öll veitingaaðstaða
og varð klúbburinn að leita sér að nýjum fundarstað. Síðasti
klúbbfundurinn í Félagsheimilinu fór fram 17. apríl 2007 og var hinn 2366
í sögu klúbbsins. Þar með lauk 46 ára fundarsetu á þessum vinsæla stað.


Skátaheimilið við Dalveg

Fátt var á þessum tíma um hentugt klúbbhúsnæði fyrir hádegisfundi. Eftir
nokkra leit gafst klúbbnum kostur á því að fá inni í Skátaheimilinu við Dalveg sem var í eigu Skátafélagsins Kópur. Var matur aðfluttur. Þessi
lausn var að mörgu leyti góð en hugsuð aðeins til skamms tíma meðan
leitað var að nýjum og betri fundarstað. Eftir nær 1 ½ ár í Skátaheimilinu
gafst nú kostur á nýju og glæsilegu húsnæði.


Nítjánda

Árið 2008 barst tilboð um fundaraðstöðu og veitingar frá hinum nýja
og glæsilega veitingastað Nítjándu sem rekin er af Veisluturninum á
19. hæðinni í hæstu byggingu í Kópavogi að Smáratorgi 3. Reyndist þetta
við nánari athugun vera hagkvæmt tilboð og var því tekið.
Við njótum þar glæsilegrar aðstöðu fyrir fundi, veislur og ráðstefnur
eftir því sem þörf er á. Þjónusta öll og veitingar eru þar líka til fyrirmyndar.
Rótarýklúbbur Kópavogs hefur frá 2. september 2008 haldið sína hádegisfundi
og hátíðafundi ýmist á 19. eða 20. hæð þessarar glæsilegu
byggingar. Munu fáir eða engir klúbbar hér á landi búa við öllu glæsilegra
útsýni frá sínum fundarstað og kunna klúbbfélagar vel að meta þessa
einstöku aðstöðu sem klúbbnum er þar búin.