Að sjá snjó í fyrsta sinn
Að sjá snjó í fyrsta sinn
Eitt af verkefnum Rótarýhreyfingarinnar er ungmennastarf. Í því er m.a. lögð áhersla á að gefa ungu fólki tækifæri til að dvelja í öðru landi í mislangan tíma í sumarbúðum, sem sumarskiptinemi eða skiptinemi í heilt ár svo eitthvað sé nefnt. Með þessu ungmennastarfi er verið að fylgja einu af markmiðum Rótarý að auka „velvild og vinarhug“ eins og segir í fjórprófi hreyfingarinnar. Að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast menningu, sögu og viðhorfum annarra þjóða eykur víðsýni þess og skilning, dregur úr fordómum og er þannig eitt lítið lóð á vogarskál friðar í heiminum.
Hér á Íslandi dvelja nú 4 skiptinemar á vegum Rótarý víðsvegar að úr heiminum. Síðastliðið sumar tókum við fjölskyldan á móti 17 ára stúlku frá Ekvador og dvaldi hún hjá okkur þar til um síðustu mánaðarmót þegar hún flutti til annarrar fjölskyldu þar sem hún mun dvelja fram á sumar er hún heldur heim á leið. Við móttöku skiptinema á vegum Rótarý er stefnt að því að skiptinemarnir dvelji hjá a.m.k. tveimur fjölskyldum þannig að þeir fái sem mest út úr dvölinni en eru þó í sama skólanum allan tímann. Það getur verið krefjandi að taka óskyldan einstakling frá öðru menningarsvæði sem talar ekki tungumálið inn á heimilið en það er líka mjög gefandi og lærdómsríkt. Þannig myndast tengsl og vinátta sem á eftir að endast ævilangt, ekki síst á milli skiptinemans og yngra fólksins á heimilinu. Það er líka ánægjulegt að kynna þeim land og þjóð, hvernig við höfum það hér á Íslandi í samanburði við heimalandið. Hún Enith okkar hafði t.d. ekki séð snjó áður en var þó fljót að ná tökum á að renna sér á skíðum. Erlendu skiptinemarnir kynnast líka vel innbyrðis og taka þátt í skipulögðu starfi á vegum Rótarý.
Á sama tíma og við fengum Enith fór dóttir okkar til ársdvalar í Maine fylki í Bandaríkjunum. Rótarýhreyfingin er upprunin þar í landi og klúbbstarfið mjög öflugt. Þó svo að íslenskir unglingar þekki bandaríska dægurmenningu vel í gegnum tónlist og margskonar miðla veit ég að fyrir dóttur okkar opnaðist nýr heimur við að kynnast bandarísku þjóðlífi og menningu og svo öllum hinum skiptinemunum sem koma víða að. Skólastarfið er líka með allt öðru sniði þar en hér. Í lok dvalar skipuleggur Rótarýsvæðið á austurströnd Bandaríkjanna tveggja vikna ferð fyrir alla skiptinemana til vesturstrandarinnar.
Ég hvet alla áhugasama um að kynna sér ungmennastarf Rótarý á rotary.is. Að fara sem skiptinemi til skemmri eða lengri dvalar er ómetanleg reynsla fyrir ungt fólk sem geymist í minningabankanum ævilangt.
Sigurbjörn Gunnarsson, félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt