Fréttir

16.6.2014

Hvatningarverðlaun Straums

Foreldrafélagið Malaika fékk Hvatningarverðlaun Rótarýklúbbsins Straums

Í Dar es Salaam, höfuðborg Tansaníu, hefur hópur Íslendinga að frumkvæði Margrétar Pálu Ólafsdóttur ásamt innfæddum Tansönum stofnað heimili fyrir munaðarlausar stúlkur. Þar búa núna 13 stúlkur á aldrinum 4 til 12 ára. Rótarýklúbburinn Straumur Hafnarfjörður veitt félagi sem styður verkfnið hvatningarverðlaun.

Heimilið fékk nafnið Malaika en Malaika þýðir engill eða englar og er heiti á fallegu lagi sem oft er sungið í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ og er Margréti Pálu mjög hjartfólgið. En markmið hópsins sem fer fyrir heimilinu er að veita stúlkunum heimili þar sem þær fá tækifæri til að búa við góðar aðstæður, fái ást og hlýju, menntun og að búa við lýðræði og kvenfrelsi og langtímamarkmið Malaika heimilisins er að mennta þessar ungu stúlkur til jákvæðra áhrifa í heimalandi sínu.
Verkefnið er ákaflega áhugavert og mikil hvatning fyrir alla að leggja sitt af mörkum til að vinna að uppbyggingu fyrir þá sem minna mega sín í fátækari löndum heimsins. Félagar í Rótarýklúbbnum Straumi í Hafnarfirði hafa hrifist af þeirri merkilegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað fyrir Malaika heimilið og þeirri nálgun við umhverfið og stúlkurnar sem eiga þar heima eins og lýst er hér að ofan. Klúbburinn hefur veitt Hvatningarverðlaun Rótarýklúbbsins Straums árið 2014 til Foreldrafélagsins Malaika sem er íslenskur bakhjarl heimilisins. Voru verðlaunin afhent á fundi klúbbsins 5. júní sl.