Fréttir
Sumarferð 2018
Árleg sumarferð Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg var farin dagana 21.-24. júní 2018. Að þessu sinni var farið í Ísafjarðardjúp. Gist var á hótelinu að Reykjanesi en þar var áður héraðsskóli. Gengið var um svæðið þar, Ögur og Ögurvík svo og Snæfjallaströnd. Fyrsta sumaraferðin var farin 1998 þegar Laugavegurinn var genginn. Það var ferðanefnd klúbbsins undir forystu Margrétar Guðmundsdóttur sem skipulagði ferðina. Lára V. Júlíusdóttir sem situr í ferðanefndinni tók saman stutta ferðalýsingu. Auk Margrétar og Láru eru Rannveig Gunnarsdóttir og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir í ferðanefndinni. Alls tóku 24 þátt í ferðinni, klúbbfélagar og makar.
Ferðalýsing Láru:
Á leiðinni vestur að Hótel Reykjanesi 21. júní 2018 var komið við hjá klúbbfélaganum Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur og manni hennar Þórhalli Runólfssyni að Hlíðarenda, þegin þar hressing og skógræktin skoðuð. Þau hjón hafa reist sér þar hús og ræktað mikinn skóg á undanförnum 20 árum og var ljúft að njóta gestrisni þeirra á langri leið vestur. Síðan var farinn vegurinn um Þröskulda, framhjá Hólmavík og yfir Steingrímsfjarðarheiði. Vegurinn meðfram Ísafjarðarbotninum var loks þræddur að Hótel Reykjanesi. Kílómetrafjöldi samtals 307.
Það einkenndi ferðina að á föstudeginum kepptu Strákarnir okkar á HM við Nígeríumenn og skyldumæting var fyrir framan sjónvarpið í setustofunni á hótelinu kl. 15.00. Þess vegna varð föstudagsgangan styttri en áformað hafði verið. Við héldum að Ögri, þar sem Halldór tók á móti okkur og sýndi okkur staðinn. Þar og á Ögurnesi, þar skammt frá var vísir af þéttbýli á fyrri hluta síðustu aldar. Kirkjan, sem enn stendur var byggð í Ögri 1859, og stórt hús við hlið kirkjunnar nokkrum árum síðar. Það hús var svo lengi í eigu Landsbankans og nýtt sem sumarbústaður fyrir starfsfólk. Samkomuhús sem reist var í upphafi 20. aldar stendur þarna líka. Auk þessa er svo steinhús á jörðinni, sem upphaflega var byggt sem læknishús. Þar voru á sínum tíma sjúkrastofur og apótek en varð síðar íbúðarhús ábúenda þegar læknir flutti burt. Halldór og systkini hans eiga nú jörðina og nýta hana á sumrin og reka ferðatengda þjónustu. Kaffisala er í gamla samkomuhúsinu og allar innréttingar og húsgögn eins og þau voru fyrir 100 árum. Halldór sagði frá frægum sveitaböllum sem þar hefðu verið haldin á hverju sumri. Allt að 400 manns hefðu mætt, en salurinn einungis tekið 60 í einu. Hinir biðu úti. Á Ögurnesi hafði verið mikið útræði á sinni tíð og mörg hús byggð þar. Nú eru þar rústir einar. Hópurinn fræddist um forfeður Halldórs og formæður, óborganlegar sögur af svalli, samskiptum kynjanna og skrautlegum uppákomum sem átt höfðu sér stað á þessu svæði, sem nú er að mestu í eyði. Boltaleikurinn fór eins og hann fór og það sem helst gladdi hópinn var að sjá Halldór, son Láru V. Júlíusdóttur og Þorsteins Haraldssonar, á skjánum, syngjandi þjóðsönginn á vellinum í Volgograd. Um kvöldið voru svo tónleikar hljómsveitar gönguhóps Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg, þar sem klúbbfélagar og makar, þeir Heimir Sindrason, Tryggvi Pálsson, Þórhallur Runólfsson og Ólafur Jónsson spiluðu og sungu af sinni alkunnu snilld. Loks var slegið upp balli.

Á laugardag var gengið út Snæfjallaströnd Ferðin hófst með bíltúr fyrir Ísafjörðinn sjálfan, út að Ármúla og inn í Kaldalón. Stoppað var við minnisvarða um Sigvalda Kaldalóns lækni og tónskáld sem bjó um 10 ára skeið ásamt fjölskyldu sinni í Ármúla á árunum fyrir seinni heimstyrjöld. Minnisvarðinn stendur við þjóðveginn, stór steinn, tilhogginn af Páli frá Húsafelli. Minnisvarðann reistu afkomendur Sigvalda og vinir svæðisins fyrir nokkrum árum. Áfram var svo haldið fram hjá Unaðsdal og út að Tirðilmýri. Þar hófst svo hin eiginlega ganga. Gengið var sem leið lá út Snæfjallaströnd. Ströndin er nú öll í eyði, en fyrri hluta síðustu aldar, þegar byggð var hvað mest á þessu svæði bjuggu þar yfir 400 manns. Ströndin er augljóslega ekki mikið gengin, kjarrlendi skiptist á við mýrlendi, fossar streyma fram af fjöllum og niður hlíðar, fugl syndir við ströndina og eyjan Æðey blasir við í öllu sínu veldi. Göngufólk gat yfirleitt fylgt gönguslóðum, en stundum hurfu þeir. Oft þurfti að stikla yfir læki og reyndi nokkuð á langstökkshæfileika.Verðlaunin voru þurrir fætur. Veglegar göngubrýr voru á tveimur stöðum yfir stærri árnar. Við gengum út að hinum fallega Möngufossi og áfram út á Strönd, alla leið fram fyrir Ytra skarð. Þangað var göngufólk svo sótt á bát sem kom siglandi yfir Djúpið frá Ísafjarðarkaupstað og flutti okkur aftur yfir á Tirðilmýri. Með í þeirri för voru nokkrir ferðafélagar sem í stað þess að ganga Ströndina óku til Ísafjarðar. Veðrið lék við okkur í upphafi ferðar og undir lokin, en um miðbik ferðar rigndi nokkuð stíft, en eins og máltækið segir, enginn er verri þótt hann vökni. Á heimleið velti fólk vöngum yfir bæjarheitinu Tirðilmýri og fannst ekki passa að hér væri átt við fuglinn, sbr. haftyrðill, þar sem bæjarheitið væri með einföldu. Eftir mikla leit sérfræðinga með aðstoð ýmissa leitarforrita kom hið sanna í ljós: tirðill er annað orð yfir ref eða tófu. Þá vitum við það.

Á sunnudagsmorgni var haldið heim á leið. Einhverjir fóru út á Ísafjörð og tóku Baldur frá Brjánslæk í Stykkishólm. Aðrir fóru Barðasröndina. Flestir fóru sömu leið til baka með viðkomu á Hólmavík og skoðuðu þar galdrasafn o.fl.
Þessi ferð rótarýklúbbsins sameinaði margt. Söguslóðir, fallega náttúru, útivist og útsýni, þokkalega göngu og bátsferð. Eftir verða svo minningar og frábærar myndir sem óspart voru teknar allan tímann.

