Fréttir

1.7.2018

Nýtt starfsár, ný stjórn

Nýtt starfsár í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg hófst 1. júlí 2018. Samtímis tók við ný stjórn klúbbsins. Formaður hennar er Stefán S. Stefánsson. Auk hans sitja í stjórninni Guðrún Ragnarsdóttir viðtakandi forseti (verður forseti starfsárið 2019-2020), Íris Baldursdóttir ritari, Sigrún J. Þórisdóttir stallari, Sævar Kristinsson gjaldkeri og Svanhildur Blöndal fráfarandi forseti (var forseti starfsárið 2017-2018). Táknræn stjórnarskipti fóru fram 28. maí 2018 á síðasta fundi klúbbsins fyrir sumarfrí.

Á táknrænum stjórnarskiptafundi 28. maí 2018 flutti Svanhildur Blöndal skýrslu stjórnar á starfsárinu 2017-2018 sem er að líða. Hún fór yfir það helsta sem á daga dreif í starfsemi klúbbsins á starfsárinu. Haldnir voru 38 fundir á starfsárinu, að meðtöldum tveimur stjórnarskiptafundum þegar stjórnin tók við og þegar hún lauk störfum. Fyrirlesararnir voru 33. Langflestir fundanna voru á hefðbundnum fundarstað klúbbsins á veitingahúsinu Nauthóli við Nauthólsvík. Tveir fundanna voru haldnir annars staðar, í Veröld, húsi Vigdísar, og í höfuðstöðvum endurskoðunar- og ráðgjafarfélagsins Deloitte í Kópavogi.

Hanna María Sigurgeirsdóttir var heiðruð á starfsárinu af stjórn íslenska rótarýumdæmisins með Paul Harris viðurkenningunni. Viðurkenninguna hlaut Hanna María fyrir störf sín í þágu rótarýhreyfingarinnar. Hún hefur um árabil leitt æskulýðsnefnd íslenska rótarýumdæmisins af miklum krafti.

Á starfsárinu styrkti rótarýklúbburinn lömunarveikisjóð (Rotary Foundation) og SHARE-styrktarsjóð alþjóðlegu rótarýhreyfingarinnar. Þá styrkti klúbburinn Ljósið og Umhyggju. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Umhyggja er félag langveikra barna.

Tveir nýir félagar voru teknir í klúbbinn á starfsárinu: Sigrún J. Þórisdóttir og Ruth Elfarsdóttir. Tveir félagar gengu úr klúbbnum: Almar Guðmundsson og Kristján B. Jónasson. Stefán Pálsson, einn af stofnfélögum klúbbsins 1994, lést í janúar 2018. Að teknu tilliti til þessara breytinga eru klúbbfélagar 80 í lok starfsársins, þar af 43 konur og 37 karlar.

Hér má finna ávarp Svanhildar á stjórnarskiptafundinum: Arsskyrsla-2017-2018