Fréttir

1.5.2018

Heimsókn til Deloitte

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Deloitte 30. apríl 2018 í höfuðstöðvum félagsins í Kópavogi. Halldór Arason, löggiltur endurskoðandi og stjórnarformaður Deloitte og klúbbfélaginn Davíð Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri Talenta, dótturfélags Deloitte tóku á móti hópnum. Um 25 klúbbfélagar sóttu fundinn.

Á fundinum kynntu Halldór Arason og Davíð Stefán Guðmundsson Deloitte og starfsemi þess. Þeir greindu frá því að íslenska félagið væri hluti af alþjóðasamstarfi Deloitte sem tryggði mikil gæði og aðgang að þekkingu og mannauði víða um lönd. Ísland er hluti af samstarfi Deloitte-félaga á Norðurlöndum. Frá 2016 er það hluti af samstarfi í félagi sem heitir Deloitte North West Europe. Auk Íslands eiga Deloitte-félög annars staðar á Norðurlöndum aðild að því ásamt Belgíu, Bretlandi, Hollandi og Sviss.

Í stefnunni Deloitte 2020 kemur fram sú mikla breyting sem er að verða á Deloitte á Íslandi. Þar er gert ráð fyrir að tekjur af annars konar þjónustu en endurskoðun verði um helmingur af veltu félagsins í lok tímabilsins. Liður í stefnunni voru kaup á félögunum Staki Automation og Talenta af Símanum 2016.Þau hafa verið rekin sem sjálfstæð félög en innan skamms verður starfsemi þeirra sameinuð Deloitte.

Halldór og Davíð fóru yfir ýmsar tölur, skipulag og starfsemi Deloitte, þ.á m. helstu þjónustusvið. Þeir nefndu að vegna þátttöku í alþjóðasamstarfi Deloitte hefði íslenska félagið aðgang að sérfræðingum víða um heim auk þess sem íslenskir sérfræðingar tækju þátt í verkefnum erlendis. Er ráðgert að síðarnefndi þátturinn vaxi enn frekar á næstu árum.

Að loknum kynningum Halldórs og Davíðs var boðið upp á léttar veitingar.