Fréttir
Umræðufundur á rótarýdegi

Í erindi sínu fjallaði Jakob Frímann Magnússon um umhverfisvernd frá persónulegu sjónarmiði. Hann varpaði því fram að fólk ætti alltaf að efast um að allar framfarir væru jákvæðar, áhrifin á mannslíkamann væru oft meiri en talið væri í fyrstu. Nefndi hann rafmagnsbíla og hitaveituboranir sem dæmi.
Ragna I. Halldórsdóttir fjallaði um flokkunarkerfi Sorpu sem er orðið býsna öflugt. Hún greindi frá þeim breytingum sem verða 1. mars 2018 þegar íbúar í Garðbæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi geta farið að setja plastpoka með plastúrgangi í tunnuna fyrir venjulegt heimilissorp (orkutunnuna). Þá fjallaði hún um metanframleiðslu Sorpu.
Thomas Möller fjallaði um það sem hver einstaklingur getur gert til að vernda umhverfið. Mikilvægt er að byrja heima, flokka sorpið rétt, nota margnota burðarpoka og margnota umbúðir. Hann benti á að Íslendingar væru með eitt mesta vistspor í heiminum þannig að þjóðin skuldar umhverfinu að ganga vel um það.
Því miður var fundurinn fámennur. Umræður voru engu að síður líflegar.
