Nýr klúbbfélagi
Ruth Elfarsdóttir var tekin í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg á fundi í klúbbnum 15. janúar 2018. Að henni meðtalinni eru klúbbfélagar 82, þar af 43 konur og 39 karlar.
Ruth Elfarsdóttir (1967) lauk cand.oecon-prófi frá endurskoðunarsviði viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands 1992. Hún lauk meistaranámi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og stefnumótun frá sama skóla 2003. Auk þess hefur hún sótt fjölda námskeiða innan lands og utan, þ.á m. lokið námi sem viðurkenndur stjórnarmaður við Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.
Að námi loknu starfaði Ruth sem endurskoðunarfulltrúi hjá Skattstjóranum í Reykjavík 1992-1993. Hún var fjármálastjóri heildsölunnar Klassíkur um stutt skeið en þaðan lá leiðin í sams konar starf hjá Skógrækt ríkisins 1994-1998. Á árunum 1998-2000 starfaði Ruth hjá Skeljungi, fyrst sem deildarstjóri fjárreiðudeildar og síðar sem deildarstjóri hagdeildar. Hún var deildarstjóri hag- og bókhaldsdeildar Samskipa 2000-2005. Þaðan lá leiðin austur á Reyðarfjörð í starf framkvæmdastjóra fjármálasviðs Alco Fjarðaáls. Því starfi gegndi hún til 2017 þegar fjölskyldan flutti aftur á höfuðborgarsvæðið. Síðan hefur hún sinnt ýmsum ráðgjafarstörfum.
Ruth hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum, s.s. stjórn LeiðtogaAuðar frá 2013 (formaður 2014-2016), faghópi Stórnvísis um stefnumiðað árangursmat og stjórn Blakfélags Hattar. Þá tók hún þátt í ýmsum verkefnum fyrir hönd Alcoa, s.s. Íslenska jarðvarmaklasanum 2011-2013, Sjálfbærniverkefni á Austurlandi, framkvæmdaráði vaxtarsamnings Austurlands og dómnefnd Gulleggsins 2011.
Ruth er gift Kristóferi Ragnarssyni, framkvæmdastjóra Kers eigna. Þau eiga tvö börn, dreng sem er 14 ára og stúlku sem er fjögurra ára.