Nýr klúbbfélagi
Sigrún J. Þórisdóttir (1951) lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1972. Til viðbótar tók hún eitt ár við menntadeild skólans. Að námi loknu starfaði Sigrún sem kennari við Breiðholtsskóla til 1980. Hún bjó í tæp ár í Bretlandi og starfaði á umboðsskrifstofu Hafskips þar í landi. Eftir heimkomu frá Bretlandi bjó Sigrún í Bolungarvík til 1991 og kenndi við grunnskólann í bænum. Eftir flutning til Reykjavíkur kenndi hún við Ölduselsskóla til 2000. Lengst af kenndi hún á mið- og unglingastigi og öll árin var hún umsjónarkennari.
Sigrún lagði stund á og lauk námi í rekstrarfræðum og tölvufræðum árið 2000. Hún hóf störf sem sérfræðingur í lánaumsjón hjá SP fjármögnun 2001 og starfaði þar til 2013 þegar félagið sameinaðist Landsbankanum.
Sigrún hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum. Hún var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins í Bolungarvík um árabil, beitti sér fyrir stofnun málfreyjudeildar í bænum og var fyrsti formaður hennar. Þá sat hún í nefndum og ráðum á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar.
Sigrún er gift Einari K. Guðfinnssyni, fyrrverandi ráðherra og alþingismanni og eiga þau tvö uppkomin börn.