Fréttir

9.4.2017

Velheppnuð rótarýferð til Washington DC

Félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg og makar fóru í velheppnaða ferð til höfuðborgar Bandaríkjanna Washington DC dagana 15.-19. mars 2017. Um 35 rótarýfélagar og makar tóku þátt í ferðinni. Það var ferðanefnd klúbbsins undir forystu Margrétar Guðmundsdóttur sem hafði veg og vanda af skipulagningu ferðarinnar. Ákveðið var strax í upphafi að hafa ferðina þannig að fólk sæi sjálft um flug og gistingu en að ferðanefndin myndi skipuleggja nokkra viðburði í borginni. Þetta mæltist vel fyrir.


Fimmtudaginn 16. mars var farið í skoðunarferð um National Mall, eina af glæstustu perlum Washington þar sem eru helstu forseta- og stríðsminnismerkin. Leiðsögumaður var Yohannes Zeleke ættaður frá Eþíópíu, sem reyndist bæði einstaklega fróður og skemmtilegur. Fyrir þau sem voru að koma á þetta svæði í fyrsta sinn var upplifunin sterk. Hin sem höfðu komið þangað áður voru ekki síður hrifin, enda svæðið bæði fallegt og áhrifaríkt.

Að skoðunarferðinni lokinni var haldið á veitingahúsið Woodward Table þar sem hópurinn gerði vel við sig í mat og drykk, naut þess að rifja upp minnisstæða skoðunarferð og að eiga saman góða stund í góðra vina hópi.

Föstudaginn 17. mars var haldið í móttöku í sendiherrabústað Íslands. Þar ráða ríkjum Geir H. Haarde, sendiherra og Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona hans. Hjónin eru bæði rótarýfélagar, Geir í Rótarýklúbbi Reykjavíkur og Inga Jóna í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg. Það urðu því fagnaðarfundir þegar hópurinn birtist í sendiherrrabústaðnum. Færði hópurinn þeim hjónum bókina Þjóðminjar eftir klúbbfélagann Margréti Hallgrimsdóttur, þjóðminjavörð. Fylgdi Margrét bókinni úr hlaði með stuttu erindi. Síðan var haldinn formlegur rótarýfundur. Geir sagði frá starfi sendiráðsins en undir það fellur öll Norður-, Mið- og Suður-Ameríka. Starfssvæðið er því sérlega víðfemt, málefnin sem fengist er við ákaflega fjölbreytt og álagið mikið. Einnig ræddi Geir um stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump tók við sem 45. forseti landsins. Var góður rómur gerður að erindi Geirs og upphófust fjörugar umræður í kjölfarið. Loks var slegið á létta strengi, enda Geir annálaður söngmaður auk þess sem Júlíus Vífill Ingvarsson óperusöngvari var með í hópnum. Það var ánægður hópur sem kvaddi sendiherrahjónin þegar húmaði. Hópurinn tók eftir því þegar hann rölti frá sendiherrabústaðnum að fjöldi leyniþjónustumanna virtist fylgjast náið með hópnum, enda búa Obama-hjónin og áhrifahjónin Ivanka Trump, dóttir Donalds Trump, og Jared Kushner í næsta nágrenni.

Það var ánægður hópur sem kom heim úr ferðinni og röggsömu konurnar í ferðanefndinni, þær Lára V. Júlíusdóttir, Margét Guðmundsdóttir og Rannveig Gunnarsdóttir, voru jákvæðar fyrir því að skipuleggja aftur ferð til útlanda