Fréttir

13.12.2016

Jólafundur hjá Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg hélt sinn árlega jólafund mánudaginn 12. desember 2016 í Þjóðleikhúskjallaranum. Matgæðingur hússins, Friðrik V. Karlsson, bauð upp á ljúfenga máltíð að hætti annálaðs meistarakokks. Flutt var hátiðarávarp, barnakór söng nokkur jólalög og hljómsveit skipuð klúbbfélaga, tveimur mökum kúbbfélaga og einum ótengdum klúbbnum lék af fingrum fram.

Thomas Möller, forseti klúbbsins setti fundinn að vanda. Hann þakkaði skemmtinefnd klúbbsins fyrir að skipuleggja fundinn. Nefndina skipa Birgir Ómar Haraldsson, Gunnhildur Arnardóttir, Heimir Sindrason og Tinna Gunnlaugsdóttir. Þá fjallaði Thomas um þá stóru gjöf sem rótarýfélagar gefa með félagsgjaldi sínu. Honum reiknaðist til að um 300 lömunarveikissprautur fáist fyrir árgjaldið. Á vegum rótarýhreyfingarinnar væri búið að bólusetja um 2,5 milljarða barna frá 1980 og bjarga milljónum frá lömun.


Dagskráin var ekki af verri endanum. Barnakór Kársnesskóla söng fimm yndisleg jólalög. Hljómsveit lék af fingrum fram við góðar undirtektir. Hún var skipuð klúbbfélaganum Heimi Sindrasyni og tveimur mökum klúbbfélaga, þeim Agli Ólafssyni (maka Tinnu Gunnlaugsdóttur) og Gunnari Hrafnssyni (maka Sólveigar Baldursdóttur), auk gítarsnillingsins Björns Thoroddsen. 

Tinna Gunnlaugsdóttir flutti hátíðarávarp við góðan róm viðstaddra. Hún gerði minningu móður sinnar, leikkonunnar Herdísar Þorvaldsdóttur, að meginþræði í ávarpi sínu. Hér má lesa ávarp Tinnu: Avarp-TG-a-jolafundi-RRM-2016