Fréttir

8.11.2016

Rótarýfundur hjá Valitor

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Valitor 7. nóvember 2016 í húsakynnum félagsins að Dalshrauni í Hafnarfirði. Heimsóknin var í boði Viðars Þorkelssonar forstjóra og félaga í rótarýklúbbnum. Viðar og samstarfsfólk tóku vel á móti hópnum og buðu upp á huggulegan fingramat.

Um 30 klúbbfélagar og gestir sátu fundinn. Viðar sagði frá starfsemi Valitor, einkum miklum vexti erlendis. Félagið á dótturfélög í Danmörku og Englandi auk þess sem það hefur aðgang að forriturum í Serbíu fyrir milligöngu hollensks félags. Á starfsstöðvum Valitor í þremur löndum starfa um 270 manns. Valitor hefur frá upphafi fylgt þeirri stefnu að þróa sjálft mikilvægustu kerfin í kortastarfseminni. Því má með nokkrum sanni segja að Valtor sé eitt af stærri hugbúnaðarfyrirtækjum landsins. 


Færsluhirðingarþjónusta Valitor erlendis, bæði í færsluhirðingu posa og færsluhirðingu á netinu um alla Evrópu hefur vaxið hratt síðustu misseri. Félagið hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að verða í hópi 25 stærstu færsluhirða í Evrópu í árslok 2018.

Anna Gyða Pétursdóttir verkefnisstjóri rakti í fáum orðum hvernig staðið var að því að gera Valitor kleift á undraskömmum tíma að þjónusta greiðslumiðlun í Apple Pay. Bergsveinn Sampsted framkvæmdastjóri kortaútgáfusviðs sagði í stuttu máli frá starfsemi sviðsins og sýndi áhugaverð línurit um kortanotkun landsmanna innan lands og utan, m.a. á meðan úrslitakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu fór fram sl. sumar.