Rótarýfundur hjá Valitor
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Valitor 7. nóvember 2016 í húsakynnum félagsins að Dalshrauni í Hafnarfirði. Heimsóknin var í boði Viðars Þorkelssonar forstjóra og félaga í rótarýklúbbnum. Viðar og samstarfsfólk tóku vel á móti hópnum og buðu upp á huggulegan fingramat.
Um 30 klúbbfélagar og gestir sátu fundinn. Viðar sagði frá starfsemi Valitor, einkum miklum vexti erlendis. Félagið á dótturfélög í Danmörku og Englandi auk þess sem það hefur aðgang að forriturum í Serbíu fyrir milligöngu hollensks félags. Á starfsstöðvum Valitor í þremur löndum starfa um 270 manns. Valitor hefur frá upphafi fylgt þeirri stefnu að þróa sjálft mikilvægustu kerfin í kortastarfseminni. Því má með nokkrum sanni segja að Valtor sé eitt af stærri hugbúnaðarfyrirtækjum landsins.