Fréttir

12.7.2016

Sumarferð 2016

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fór í sína árlegu sumarferð 23.-26. júní 2016. Þetta var 19. sumarferð klúbbsins (sjá lista yfir ferðirnar). Að þessu sinni var haldið til Skagafjarðar. Gist var á Bakkaflöt í Steinastaðabyggð í nágrenni Varmahliðar. Gengið var að Merkigili og á Mælifellshnjúk. Ferðin var skipulögð af ferðanefnd klúbbsins, þeim Margréti Guðmundsdóttur, Láru V. Júlíusdóttur, Rannveigu Gunnarsdóttur og Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur. Rannveig tók saman ferðalýsingu.

Sumarferðinni 2016 var heitið að gististaðnum og ferðaþjónustufyrirtækinu Bakkaflöt í Steinastaðabyggð í nágrenni Varmahlíðar í Skagafirði fimmtudaginn 23. júní 2016. Rúmlega 20 manna hópur tíndist í hús smám saman um eftirmiðdaginn og fram eftir kvöldi.

Föstudaginn 24. júní var ekið að Merkigili sem er eyðibýli í Austurdal í Skagafirði. Þar fræddi klúbbfélaginn Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir hópinn um merkiskonuna Moniku Helgadóttur á Merkigili. Monika fékk fálkaorðuna 17. júní 1953, fyrst kvenna á Íslandi, fyrir uppeldi og heimilisstörf. Monika sýndi ótrúlega elju og dugnað sem bóndi á Merkigili eftir að maður hennar lést fyrir aldur fram. Ein síns liðs kom hún upp stórum barnahópi á þessum eyðilega stað við mjög erfiðar aðstæður.

Býlið Merkigil er umkringt djúpum og hrikalegum gljúfrum og háum fjöllum. Það er því engin furða að það hafi verið erfitt að stunda búskap á jörðinni. Vestan við jörðina er gljúfur Austari-Jökulsár sem er vinsæl til fljótsiglinga. Norðan við jörðina er Merkigilið sjálft, býsna djúpt og hrikalegt. Yfir það þurfti að fara þegar farið var í kaupstað.

Veðrið lék við hópinn. Öll nutu göngunnar í þessum fallega, afskekkta dal.

Laugardagurinn 25. júní var aðalgöngudagur hópsins. Haldið var á Mælifellshnjúk. Hnjúkurinn er hæsta fjallið í Skagafirði (1.138 metrar) og kennileiti á þessu svæði. Sagt er að á björtum degi sjáist á hnjúkinn úr tíu sýslum. Það var hlýtt í veðri þennan dag. Því miður var skýjað á hnjúknum svo gönguliðar gáðu ekki notið víðsýnisins. Mörg fóru á hnjúkinn og rituðu í gestabókina en önnur slepptu síðustu metrunum í þokunni. Eftir göngu fóru sum í sundlaugina á Hofsósi á meðan önnur fóru í pottinn á Bakkaflöt og enn önnur að Glaumbæ.

Um laugardagskvöldið var hátíðarkvöldverður og settur Rótarýfundur þar sem tríóið, Heimir Sindrason (klúbbfélagi), Tryggvi Pálsson (maki klúbbfélaga) og Þórhallur Runólfsson (maki klúbbfélaga), spilaði og söng við góðar undirtektir. Margrét Guðmundsdóttir og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir voru útnefndar Paul Harris félagar fyrir frábær störf í þágu klúbbsins, m.a. í ferðanefndinni. Margrét hefur einnig verið forseti og ritari klúbbsins og Þórunn stallari. Stalla þeirra í ferðanefndinni, Lára V. Júlíusdóttir, var útnefnd Paul Harris félagi fyrir nokkrum árum.

Þetta var velheppnuð ferð að venju. Öll voru ánægð þegar haldið var heim á sunnudeginum 26. júní.