Fréttir

24.5.2016

Sophie kveður

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fóstraði tævanska skiptinemann Sophie Chiang á skólaárinu 2015-2016. Sophie mætti á fund klúbbsins 23. maí 2016 til að kveðja því hún heldur af landi brott í lok maí eftir ánægjulega dvöl á Íslandi.
Með Sophie á fundinum voru Wei-Chun móðir hennar og frænka. Sophie afhenti fána síns styrktarklúbbs í Tævan og tók á móti fána Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg sem hún mun koma til skila.

Það var ungmennanefnd klúbbsins (Páll Harðarson formaður, Gunnhildur Arnardóttir og Sævar Freyr Þráinsson) sem sinnti Sophie mest fyrir hönd klúbbsins.

Sophie er 17 ára. Hún heitir réttu nafni Feng-Yun en kýs að kalla sig Sophie. Hún býr í borginni Taichung City í vesturhluta Tævans. Íbúar borgarinnar eru rúmlega 2,7 milljónir.

Faðir Sophie, Tzu-Hang, er dósent við háskóla í borginni. Móðir hennar, Wei-Chun, er heimavinnandi. Sophie á eldri bróður og yngri systur.

Sophie stundar nám í framhaldsskóla í heimaborg sinni. Hún er á matreiðslubraut. Auk námsgreina sem tengjast matreiðslu á ýmsa lund, lærir hún kínversku, ensku, sögu, landafræði, listir o.fl. Hún leggur sérstaka áherslu á eftirrétti í náminu. Helstu áhugamál hennar eru eftirréttir, flautuleikur og ljósmyndun.

 Á meðan Sophie dvaldi á Íslandi sótti hún Menntaskólann í Kópavogi. Þar lagði hún stund á íslensku, matreiðslu, frönsku og bókmenntir.