Fréttir

1.3.2016

Velheppnuð ráðstefna á rótarýdegi

Fjórir rótarýklúbbar gengust fyrir ráðstefnu um fjölmenningu á Íslandi í samvinnu við Háskólann í Reykjavík á rótarýdeginum 27. febrúar 2016. Um var að ræða Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg, Rótarýklúbbinn Reykjavík-Austurbæ, Rótarýklúbbinn eRótary-Ísland og Rotary Reykjavik International. Á ráðstefnunni voru flutt sex erindi auk þess sem forsetar fjögurra rótarýklúbba kynntu rótarýstarfið í stuttu máli. 

Ráðstefnan var sett af fjórum forsetum: Rannveigu Gunnarsdóttur Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg, Hildi Dungal Rótarýklúbbnum Reykjavík-Austurbæ, Valdísi Guðmundsdóttur Rótarýklúbbnum eRótarý-Íslandi og Fríði Halldórsdóttur Rótaractklúbbnum Geysi. Þær skiptu á milli sín stuttri kynningu á rótarýstarfinu.

Thomas Möller, Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg stýrði ráðstefnunni og kynnti fyrirlesara.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti og félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg greindi frá upplifun sinni af fjölmenningu á stríðsárunum. Hjartnæm saga af fyrirmyndarbarni sem var í Landakotsskóla sem fékk það hlutverk að kenna þýskum Gyðingi íslensku og að þegja í skólanum. Þannig kynntist hún hámenntuðu tónlistarfólki sem var meðal upphafsmanna að tónlistarstarfi og menntun Íslendinga.

 Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg sagði frá fjölmenningunni í kísildalnum í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem fólk er litblint á húðlit, trúarbrögð, kynhneigð o.fl. Ari bjó þar í 16 ár.

Fida Abu Libdeh, flóttamaður frá Palestínu, frumkvöðull og stofnandi Geosilica kom til Íslands 16 ára árið 2004. Hún hóf menntaskólagöngu með vinnu og barðist án árangurs í nokkur ár við að ná stúdentsprófi í dönsku og íslensku en flaug í gegn í öllum öðrum greinum. Lífið tók nýja stefnu þegar hún uppgötvaði Keili. Nú er hún með háskólagráðu auk MBA og hefur stofnað  eigið fyrirtæki.

Joanna Marcinkowska er pólskur innflytjandi sem starfar sem ráðgjafi innflytjenda hjá Reykjavíkurborg. Hún sagði frá veru sinni á Íslandi. Hún vill fá að halda nafninu sínu sem er Joanna en ekki Jóhanna. Hún benti á að innflytjendur sem eru að læra íslensku vilja tala íslensku en ekki ensku. 

Juan Castillo er innflytjandi frá Kólumbíu. Hann talaði um fordóma og sagði frá upplifun sinni af því að búa á Íslandi. Hann vill eins og Joanna fá að tala íslensku en ekki ensku. Eins vill hann að fólk leiðrétti hann og kenni þegar hann talar rangt mál. Hann starfar hjá Rauða krossinum við verkefnið „Vertu næs“. Það snýst um fordóma og er farið með það í alla grunnskóla. Juan talaði t.d. um fyrirfram mótaðar skoðanir fólks. Íslendingar halda t.d. að allir í Kólumbíu drekki gott kaffi. Staðreyndin er sú að allt besta kaffið er flutt til útlanda og fólk í Kólumbíu drekkur neskaffi. Einnig er það útbreidd skoðun að allir í Kólumbíu séu eiturlyfjaneytendur eða glæpamenn.

Að lokum flutti Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastýra Rauða krossins færðandi erindi um fordóma eða andúð. Hún ræddi um mikilvægi þess að ræða saman og læra hvert af öðru - taka umræðuna í fermingarveislunni þegar okkur blöskrar neiðkvæðnin og andúðin. Hún benti á heimasíðu Rauða krossins en þar er að finna heilmikla fræðslu og einnig góð rök í umræðunni.