Fréttir

27.1.2016

Fjölmenni hjá Olís

Um 40 klúbbfélagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg sóttu Olís heim 25. janúar 2016. Jón Ólafur Halldórsson, klúbbfélagi og forstjóri Olís tók á móti hópnum. Hann sagði frá starfsemi Olís, stefnumótun sem ráðist var í þegar hann tók við sem forstjóri og breytingum í stjórnendahópi. Loks fór hann yfir nokkur fróðleg atriði á alþjóðlegum eldsneytismarkaði.

Jón Ólafur nefndi að Olíuverzlun Íslands væri stofnuð 1927 og væri því eitt af eldri starfandi félögum á Íslandi. Félagið lenti í hremmingum í kjölfarið á bankahruninu í október 2008. Félagið fékk enga sérmeðferð og engar skuldir voru afskrifaðar umfram þá leiðréttingu sem fyrirtækjum stóð almennt til boða frá bönkunum. 

Olís starfrækir þjónustumiðstöðvar um land allt þar sem íbúar og ferðalangar geta keypt eldsneyti, ýmsar vörur fyrir bílinn, mat og drykk og fjölmargt annað. Svo ekki sé minnst á snyrtilega salernisaðstöðu sem ferðafólk kann greinilega vel að meta. Þá starfrækir félagið fjölmargar sjálfsalastöðvar undir vörumerkinu ÓB. Auk þess starfrækir félagið útibú um land allt, gjarnan í mikilvægum höfnum.

Auk eldsneytis flytur Olís inn og selur ýmiss konar efnavörur, hreinlætispappír, hreinlætisáhöld, einnota vörur, byggingarvörur, verkfæri, rafgeyma, bílavörur og gasvörur. Félagið átti um skeið útivistarverslunina Ellingsen en seldi hana nýlega.

Olís hefur um árabil stutt dyggilega við bakið á ýmiss konar samfélagsmálum, ekki síst skógrækt víða um land.

Jón Ólafur ræddi þau miklu áhrif sem stóraukinn fjöldi ferðamanna hefur á starfsemi fyrirtækja eins og Olís. Þeir þurfa mat og drykk, eldsneyti og aðgang að salernisaðstöðu. Vegna fjölgunar ferðamanna er það nánast skilyrði núorðið að starfsfólk þjónustustöðva geti talað ensku.

Jón Ólafur fór yfir þróun á alþjóðlegum eldsneytismarkaði að undanförnu sem hefur einkennst af mikilli lækkun hráolíuverðs. Hann fór yfir helstu áhrifaþætti án þess þó að reyna að segja fyrir um hver þróun næstu missera yrði!

Jón Ólafur starfaði áður sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Olís. Hann tók við af Einari Benediktssyni sem forstjóri í september 2014. Jón Ólafur breytti framkvæmdastjórn félagins og réðst í ítarlega stefnumótun. Þetta kláraðist á um 200 dögum og er félagið nú á góðu skriði með samhenta forystu.