Fréttir

14.12.2015

Nýr félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg

Á fundi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg 14. desember 2015 var Davíð S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Talentu tekinn í klúbbinn. Hann verður fulltrúi starfsgreinarinnar þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni. Að Davíð meðtöldum eru klúbbfélagar 82, þar af 43 konur og 39 karlar.

Davíð Stefán Guðmundsson

(1975) er iðnrekstrarfræðingur. Hann lauk BS-gráðu í alþjóðamarkaðsfræði við Tækniháskóla Íslands (nú Háskólann í Reykjavík) 2001. Hluta af náminu tók hann við háskóla í Antwerpen í Hollandi.


Að námi loknu hóf Davíð störf hjá Símanum. Hann hefur lengst af starfað innan félagsins. Fyrsta starfið var sölumaður fyrirtækjalausna. Hann tók svo við starfi viðskiptastjóra smærri fyrirtækja og síðan þeirra stærri. Á árunum 2006-2008 starfaði Davíð hjá félaginu OpenHand sem sölu- og markaðsstjóri fyrir innlenda og erlenda starfsemi í Bretlandi. Hann sneri á ný til Símans í febrúar 2008 sem sérfræðingur í viðskiptaþróun og erlendum mörkuðum. Síðar varð hann forstöðumaður í fyrirtækjaþjónustu og loks sérfræðingur í viðskiptaþróun. Davíð tók við starfi framkvæmdastjóra Talentu í maí 2014. Félagið veitir alhliða ráðgjöf við þróun og rekstur á SAP viðskiptahugbúnaði. Það er í eigu starfsfólks og Símans.

Davíð hefur verið félagi í Round Table á Íslandi frá 2001 (aldursmörkin eru 20-45 ára). Hann hefur gegnt stöðu formanns, gjaldkera og siðameistara. Einnig hefur hann tekið þátt í alþjóðastarfi samtakanna.

Davíð er virkur blóðgjafi, hefur stutt ABC barnahjálp í mörg ár (þriðja stuðningsbarnið lauk nýverið menntun sinni) og hefur stutt Krabbameinsfélagið með föstu fjárframlagi.

Davíð er kvæntur Sigurrósu Pétursdóttur, vöru- og verðstjóra hjá Toyota á Íslandi. Þau eiga þrjú börn á aldrinum tveggja til 13 ára.